„Hættu þessu væli…“

Það hefur verið til siðs hjá mér að setja mér háleit áramótaheit. Sum hafa haldið – önnur ekki og þá sérstaklega þegar kemur að reykingunum. Þessi tímapunktur – í lok árs er í sjálfu sér ágætur til að setja sér markmið fyrir komandi ár, en á hverjum degi setur maður sér markmið og það er eins og alltaf – sum nást en önnur ekki.

Kunningi minn reykti í mörg ár og þegar hann hafði reykt lengi langaði hann mikið að hætta. Hann prófaði allt, plástra, tyggjó, sogtöflur og nefúða. Hann sagði við konu og börn á gamlárskvöld; „Nú er ég hættur,“ og síðan batt hann sígarettu í rakettu og skaut henni upp  – svona til að sýna það að hann væri nú í alvöru hættur. Á meðan fylgdist konan hans með innan úr stofunni og sagði við krakkana; „Sjáiði pabba ykkar! Nú ætlar hann enn einu sinni að hætta að reykja.“ Á nýársdag laumaðist hann út og reykti í laumi – hélt að konan myndi ekki finna lyktina ef hann væri í hönskum og með húfu á hausnum. Reykingar í laumi urðu að reykingum út á svölum eða tröppum.

En svo ákvað þessi maður að hætta án þess að nota nokkur hjálparmeðöl. Hann einfaldlega tók þá ákvörðun að snerta ekki sígarettur framar – og það tókst. Þetta er auðvitað hægt.

Ég ætla ekki að binda sígarettu við stóru rakettuna sem ég á eftir að kaupa af hjálparsveitunum. Ég ætla hinsvegar að hætta að reykja á árinu – án þess að nota hjálparlyf. Semsagt;  eitt af áramótaheitunum mínum er að hætta að reykja.

Ég set mér líka annarskonar markmið; fjölskyldu- og vinatengd og svo vinnutengd. Það hefur alltaf reynst mér vel að setja markmiðin mín upp í lista sem er aðgengilegur fyrir mig á hverjum degi. Þegar ég hef svo náð hverju markmiði strika ég yfir það og set mér kannski nýtt markmið. Ef ég næ hinsvegar ekki markmiði þá breyti ég um stefnu eða hætti við það – stroka það út.

Ég hef í gegnum tíðina kynnst allskyns fólki, úr öllum stéttum. Þetta fólk hefur hleypt mér að sér – sagt mér hluti frá hjartanu og opnað sig fyrir mér. Sumar sögurnar þeirra hafa verið skemmtilegar, aðrar sorglegar, enn aðrar sláandi og allt þar á milli. Lærdómurinn sem ég hef dregið af öllum þessum sögum er einfaldur en samt flókinn;  að vera heiðarlegur og treysta á sjálfan sig og engan annan. Að sinna fjölskyldu sinni og vinum. Að rétta fólki hjálparhönd því það kemur margfalt til baka. Að njóta stundarinnar því lífið getur breyst á örskotsstundu.

Ég hef oft setið með vini mínum Guðjóni Sigurðssyni formanni MND félagsins á Íslandi og rætt við hann um lífið og tilveruna. Guðjón er með MND sem er banvænn sjúkdómur og engin lækning til við honum. Hann hefur sérstaka sýn á lífið og nýtur hvers dags í faðmi fjölskyldu, vina og samstarfsmanna. Hann hefur, sökum veikinda sinna, þurft að endurskoða lífssýn sína.  Guðjón hefur frá því ég kynntist honum sett sér mörg markmið og náð þeim flestum. Hann hefur hjálpað mörgum og alltaf er hann tilbúinn að aðstoða ef það er eitthvað sem hann getur gert.

Það er gott að tala við Guðjón – hann er góður hlustandi. Og hann gefur manni góð ráð sem koma alltaf frá hjartanu. Stundum þegar ég sit með honum og segi frá einhverjum vandamálum sem ég er að fást við, segir hann oft við mig; „Jóhannes, hættu þessu væli og leystu þetta. Það er auðvelt.“

Með þessi ráð ætla ég að fara inn í nýja árið.

Ég óska ykkur gleðilegs árs og farsældar á nýju ári. Munið eftir því að ég hef áhuga á sögum af öllum tegundum, stórum sem smáum, sorglegum sem jákvæðum, viðkvæmum og öllu þar á milli.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *