600 morfíntöflur frá sama lækni á tæpum mánuði

Kona  á fimmtugsaldri fékk ávísaðar að minnsta kosti 600 morfíntöflur af tegundinni Ketogan á tæpum mánuði . Lyfjaskammtarnir koma allir frá sama lækninum samkvæmt læknanúmeri á pakkningum. Hver pakki af Ketogan inniheldur 100 töflur og samkvæmt dagsetningum á pakkningunum liðu aðeins nokkrir dagar á milli sumra lyfjaávísana. Í leiðbeiningum frá lækninum á lyfjaumbúðunum segir að taka eigi 1-2 töflur á hverjum degi. Miðað við þetta magn hefur fíkillinn tekið að minnsta kosti 20 töflur á dag af þessum töflum. Á heimili dóttur sinnar fann maðurinn lyfjaspjöld undan 784 töflum af Ketogani. Hann sagði ljóst að hann hefði aðeins fundið lítið magn pakkninga á heimilinu. Öðrum hefði verið hent.

Það var faðir konunnar sem afhenti mér þessar lyfjapakkningar. Dóttir hans er  nú á sjúkrahúsi, illa á sig komin vegna lyfjaneyslu til margra ára. Faðir konunnar hefur tilkynnt málið til Landlæknisembættisins.  Hann hefur miklar áhyggjur af dóttur sinni og er reiður vegna lyfjaávísana læknisins. „Ekki er hann að hjálpa henni með því að láta hana fá þessi lyf,“ sagði maðurinn og bætti við. „Mér er skapi næst að fara og ná í lækninn, draga hann upp á spítala og sýna honum í hvaða ástandi dóttir mín er. Þá kannski myndi hann hugsa aðeins út í það sem hann er að gera með því að láta hana fá fleiri hundruð morfíntöflur á einum mánuði.“

Enn streyma lyf frá læknum til fíkla á götunni. Þessi lyf eru niðurgreidd af almenningi í formi skatta og notuð sem dóp af fíklunum. Heildarverð morfínsins sem konan fékk ávísað frá lækninum er rúmar 40 þúsund krónur. Sjúkratryggingar Íslands greiða tæpar 30 þúsund krónur. Konan greiðir restina.

Þeir sem hafa upplýsingar um svipuð mál geta sent mér skilaboð í gegnum netfangið johanneskr@johanneskr.is


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *