Á æfingu með Fjallabræðrum

Unnur Birna syngur nýtt lag Fjallabræðra - Ísland.

„Strákar, hættið þið þessu masi. Við þurfum að fara að byrja þetta,“ sagði Halldór Gunnar Pálsson kórstjóri Fjallabræðra í upphafi kóræfingar á miðvikudagskvöldið. Þetta þarf hann alltaf að gera – og oft á hverri æfingu. Það er stórmál að stjórna  40 til 50 köllum á kóræfingu. Og þeir hafa allir gaman af því að tala – sérstaklega Stebbi Panda eins og hann er kallaður. „Fyrsta lagið sem við æfum er Til fjalla,“ sagði Halldór, sneri sér að hljómsveitinni og takturinn var sleginn. Æfingin var byrjuð.

Fyrstu tónleikarnir fyrir norðan

Það stendur mikið til hjá Fjallabræðrum. Á morgun Laugardag halda þeir sína fyrstu tónleika á Akureyri – í Hofi. Þrátt fyrir að bræðurnir hafi allir einhverja tengingu vestur á firði þá bera þeir allir sterkar taugar til landsbyggðarinnar. „Norðurland hefur mjög stóran stað í mínu hjarta, móðir mín Magnea Guðmundsdóttir býr í Skagafirði og fyrsti vísirinn að Fjallabræðrum varð
til í Skagafirði. Svo finnst mér líka svo fallegt fyrir norðan, blómlegar sveitir og öflugar útgerðir,“ segir Halldór Gunnar en hann hefur stjórnað Fjallabræðrum frá upphafi. Í fyrstu var kórinn óformlegur – nokkrir strákar að vestan sem hittust reglulega til að syngja. Í dag, tveimur geisladiskum og ótal tónleikum síðar eru Fjallabræður orðnir hluti af tónlistarlífi íslendinga. Þeir hafa
spilað víða og það er mikil eftirspurn eftir þeim að koma fram á skemmtunum og tónleikum.

Syngja á elliheimilum

Halldór Gunnar kórstjóri og Unnur í ham á æfingu.

Síðustu tvo vetur hafa þeir glatt gamla fólkið á elliheimilum höfuðborgarsvæðisins því reglulega hafa þeir farið á eitt slíkt og sungið. „Það gefur okkur mikið að syngja fyrir gamla fólkið sem byggði landið okkar upp. Við ætlum að fara fyrr um dagin syngja fyrir eldri borgara á Akureyri og eiga með þeim góða stund. Það skiptir okkur öllu máli að geta gert þetta. Viðmótið sem fáum er yndislegt og manni líður vel á eftir. Á meðan margir eru uppteknir af  sílikoni, salti og snjómokstri þá virðast ekki margir hafa áhyggjur af því hvernig gamla fólkinu okkar líður. Maður þarf ekki að vera landsþekktur tónlistarmaður til að
fara og gleðja þetta fólk og sjálfan sig um leið,“ segir Halldór Gunnar.

Sussað á strákana

Æfingar hjá Fjallabræðrum standa yfir í tvo tíma með einni pásu. Æfingarhúsnæðið er stórt og með mörgum herbergjum og í pásum fara þeir bræður sem reykja út fyrir, aðrir fara og fá sér kaffi og enn aðrir setjast niður og spjalla. Pásurnar eru mislangar en þegar Halldór er kominn með gítarinn í hönd og byrjaður að spila er það merkið um að henni sé lokið. Þá koma menn sér fyrir. „Jæja strákar, nú æfum við með Unni lagið Ísland,“ segir Halldór Gunnar en það er nýtt lag Fjallabræðra sem þeir hafa verið að æfa síðustu vikur. Hljómsveitin kemur sér fyrir og Halldór vill byrja. Aftur þarf hann að sussa á strákana. Og Leibbi
Jazz, hljómborðs- og básúnuleikari Fjallabræðra tekur sóló á hljómborðið. Halldór Gunnar er rólegur, lítur á Leibba og segir í hljóðnemann. „Ertu búinn Leibbi, eigum við að fara að byrja?“ Leibbi lítur brosandi á Halldór og svo á strákana – sem brosa alltaf á móti. Það er talið inn í lagið. Unnur byrjar að syngja og Halldór gefur kórnum merki.

Prinsessan í strákahópnum

Fjallabræður og prinsessan.

„Við erum líka sérstaklega spenntir yfir því að fara til Akureyrar af þeirri einföldu ástæðu að fallegasti Fjallabróðirinn, hún Unnur Birna er frá Akureyri,“ segir Halldór Gunnar en þetta verða síðustu tónleikar Unnar Birnu með Fjallabræðrum um sinn
því hún heldur til Rómar á næstunni. „Ég ætla að fara út til að semja, slaka á og æfa mig. Mér finnst líka kominn tími á það fyrir mig að komast í annað umhverfi og tengja mig við aðra hluti,“ segir Unnur en tónleikarnir annaðkvöld verða þeir síðustu með Fjallabræðrum í bili. Hún segist fá mikið út úr því tónlistarlega að spila með kórnum. „Maður fær að vera alveg frjáls og hrár með þeim. Ég sleppi mér alveg og það er dásamlegt því ég fæ mikið út úr því.“

Merkilegast að spila á Akureyri

Síðasta æfing fyrir tónleikana í Hofi á laugardag.

Foreldrar Unnar Birnu búa á Akureyri og þar bjó hún sjálf í tíu ár. „Mér finnst alltaf eins og ég sé að koma heim þegar ég kem til Akureyrar og af öllum stöðum á landinu finnst mér merkilegast að fá að spila á Akureyri,“ segir Unnur Birna en á tónleikunum
í Hofi flytur hún frumsamið lag sem hún syngur sjálf.  Og henni líður vel með Fjallabræðrum, enda kallar hún þá strákana sína. „Karlar eru konum bestir. Í þessum hópi er ég svo sannarlega prinsessa,“ segir Unnur.

Æfingin er búin klukkan ellefu. Kórstjórinn þakkar strákunum fyrir og þeir týnast úr húsinu. Þeir eru allir spenntir fyrir tónleikunum. Það er kominn æsingur í þá. „Við ætlum að bjóða upp á dagskrá úr öllum áttum, gömul lög eftir okkur, ný lög af
væntanlegri plötu, sérvalin lög eftir aðra listamenn og ekki má síðan gleyma gestum okkar þeim Jónasi Sigurðssyni og Sverri Bergmann. Við viljum að sjálfsögðu sjá sem flesta norðlendinga og ég lofa þeim stórkostlegu kvöldi ,“ segir Halldór.

Miða á tónleika Fjallabræðra í Hofi á Akureyri má kaupa hér.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *