Á afmælisdaginn

Hún hefði orðið 19 ára í dag, 22. desember, og ef lífið hefði orðið eins og ég hélt að það yrði þá væri hún núna komin í jólafrí úr skólanum. Sjálfsagt væri hún að vinna í bakaríi við að skreyta kökur, læra af bakaranum og afgreiða viðskiptavini með bros á vör. Ef allt hefði farið eins og ég sá fyrir mér.

Á 16 ára afmælisdaginn hennar Sissu fyrir þremur árum keypti ég diskinn hans Páls Óskars sem hún hélt svo uppá. Ég hringdi í hana og sagði að ég væri með gjöf; spurði hvar ég gæti hitt hana. Þegar ég kom rétti ég henni innpakkaðann diskinn út um bílgluggann og óskaði henni til hamingju. Hún brosti á móti og ég sá litlu stelpuna mína í örstutta stund þrátt fyrir að hún væri í neyslu.  Við kvöddumst og hittumst ekki aftur fyrr en löngu síðar.

Ég hef skrifað um það áður hér að sagan hennar Sissu hefur hjálpað mörgum. Í hverri viku fæ ég nokkur bréf eða símtöl þar sem foreldrar eða ungt fólk óskar eftir ráðum varðandi neyslu barnanna sinna eða þeirra sjálfra. Þau hafa samband út af sögunni hennar. Hún opnaði augu margra fyrir heimi neyslunnar – fyrir því hvað þessi heimur er nöturlegur og hættulegur eins og hún vissi sjálf. Nokkrum sinnum hef ég verið beðinn um að segja frá sögu Sissu á fundum með skólakrökkum. Margir krakkanna hafa spurt mig hvernig stelpa hún hafi verið og ég hef svarað; nákvæmlega eins  og þið – en hún missti tökin á lífinu þegar hún fór að nota fíkniefni.

Síðustu vikur er ég búinn að sjá ungt fólk sem er í neyslu skrifa skilaboð til hvers annars á Facebook síðum. „Jólin reddast alltaf elskan,“ voru ein skilaboðin frá ungri konu. Önnur voru; „Ég ætla mér að eiga góð jól.“  Við vitum öll hvernig jólin verða hjá þessu unga fólki sem er í neyslu. Þau þurfa sprautuna á aðfangadag jafnvel þótt klukkan sé 6 – ef þau vantar efni þá er fíkninni sama. Þau verða ekki hjá fjölskyldum sínum – þau vita ekkert hvar þau verða. Ég hef heyrt unga manneskju lýsa þessum tíma ljóss og friðar þannig að hún vildi ekki að það kæmu jól. Á þessum tíma hugsaði hún meira en venjulega um það á hvaða stað hún væri stödd.

Í dag hefði Sigrún Mjöll orðið 19 ára gömul og allir á þeim aldri ættu að eiga allt lífið framundan. Við, sem sitjum eftir með sorgina, erum hægt og rólega að byggja okkur upp. Fyrir okkur skiptir það öllu máli að saga Sissu er að hjálpa og minna okkur á að það geta allir dáið vegna ofneyslu fíkniefna.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *