Á aldurstímamótum

Mamma minnti mig á það í dag að lífið er ekkert sjálfsagt. Ég þurfti virkilega að berjast fyrir lífi mínu fyrstu þrjá sólarhringana sem ég lifði. Ég fæddist talsvert fyrir tímann og henni var sagt að næstu þrír sólarhringar skæru úr um það hvort ég myndi lifa. Læknirinn sagði henni að ef hann kæmi inn til hennar innan þriggja sólarhringa þá væri eitthvað að. Mamma hélt um koddann og var logandi hrædd um að hann kæmi. Ég var í hitakassa og með mikla gulu. Það var ekki fyrr en skipt var um blóð í mér að ég fór að braggast.

Ég hef aldrei velt þessu fyrir mér fyrr en nú – þegar maður er orðinn fjörtíu og eins árs. Ég fór allt í einu að hugsa um þá daga sem ég hef lifað og þá sem ég á eftir. Ætli maður sér hálfnaður með lífið? Eða verður maður níræður? Hvað á maður eftir að vinna mörg ár til viðbótar? Hvað verða börnin mín gömul ef ég verð áttræður? Hef ég lifað góðu lífi? Hvernig verður það sem framundan er?

Fjörtíu og eins árs er enginn aldur í sjálfu sér. Ef heilsan leyfir þá á ég eftir að vinna í tæp þrjátíu ár til viðbótar. Og lifa með maka, börnum, barnabörnum, vinum og fjölskyldu í mörg ár til viðbótar.

En hvaða stundir eru eftirminnilegastar úr æskunni? Þær eru nokkrar hjá mér. Til dæmis þegar pabbi sat með mér 8-10 ára gömlum við efnafræðikassana (Chemistry 3-5-7) og við gerðum tilraunir saman. Allir leiðarvísarnir voru á ensku en hann þýddi þá á íslensku og las allar tilraunirnar inn á segulband. Þegar hann var í vinnunni hlustaði ég á segulböndin og gerði tilraunir – í hvítum sloppi.

Ég man líka vel eftir þegar við smíðuðum kassabíl saman í bílskúrnum. Þeim sama og ég ætlaði að strjúka á með nokkrum æskuvinum þegar við höfðum gert eitthvað af okkur. Við náðumst móðir og másandi, ýtandi bílnum til skiptis á þungri umferðargötu. Minningar sem þessar skipta miklu máli fyrir alla – sama á hvaða aldri þeir eru.

Það var góður maður sem ég hitti reglulega sem sagði við mig; „Ímyndaðu þér að eitt barnið þitt sitji hér á stólnum á móti mér og ég spyrji – hvernig var svo að alast upp með pabba þínum? Gerðuð þið mikið saman?“ Þá er spurning hvernig barnið svarar. Svarið gæti verið; „Pabbi var frábær. En hann hafði alltaf svo lítinn tíma til að gera eitthvað með mér. Ég man ekkert mjög mikið eftir einhverju skemmtilegu sem við gerðum saman. En hann var samt mjög góður pabbi.“

Við getum öll velt þessu fyrir okkur núna – hverju barnið/börnin myndu svara. Við viljum öll að svörin verði á aðra leið – að börnin okkar eigi fallegar æskuminningar þar sem foreldrarnir gáfu sér tíma til að gera eitthvað frábært og skemmtilegt með börnunum.

Það er nefnilega þetta með tímann. Stundum er maður mjög upptekinn. En stundum er maður mjög upptekinn við að vera upptekinn. Maður á að gefa börnunum sínum tíma – stundir sem verða þeim ógleymanlegar þegar þau verða fullorðin og sjálf farin að ala upp börn. Þá verða kannski sagðar sögur af afa og ömmu.

Nú er maður kominn á þann stað á aldursskeiðinu að hvert ár líður mjög hratt. Mér finnst andartak síðan ég varð fertugur. Og tíminn verður fljótari að líða með hverju árinu. Maður þarf því að nýta tímann vel til allra verka og gerða.

Áhugamál eru líka einstaklega mikilvæg þegar maður er kominn á þennan aldur. Maður þarf að geta gleymt sér í einhverju sem manni finnst skemmtilegt að gera. Mér er minnisstætt það sem Nelson Mandela lét hafa eftir sér í einni af þeim bókum sem hafa verið skrifaðar um hann, en þar sagði hann að matjurtagarðurinn í fangelsinu sem hann fékk að sinna einu sinni á dag hefði verið það sem hefði haldið í honum lífinu. Þar gleymdi hann stað og stund við að sinna blómum og náði þannig jafnvægi.

Svo er það hreyfingin, holla mataræðið og allt það. Um þetta verður maður víst að fara að huga að á þessum aldri. Ég er enn að velta fyrir mér hvort ég eigi að hringja eða senda tölvupóst niður í Mjölni til að skrá mig á fyrsta námskeiðið í 101 þrek eða hvað þetta heitir.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *