Ævintýri við bryggjuna á Þórshöfn

 

Þórhallur og Jónbi á sjó.

Ætli ég hafi ekki verið 8 ára þegar ég veiddi fyrsta Marhnútinn af bryggjunni á Flateyri. Bjarni afi hafði vafið girni á spýtubút  – færi með spúni. Við vorum alltaf nokkrir púkarnir á bryggjunni að veiða og aflinn var að mestu Marhnútar. En þarna var maður frá morgni til kvölds – hljóp reyndar heim til ömmu og fékk að borða og svo aftur í kaffinu þar sem alltaf var nýbakað. En svona gekk þetta þá daga sem ég var hjá Bjarna afa og Guju ömmu á sumrin á Flateyri.

Í sveitinni í Hrauni á Ingjaldssandi þar sem ég var vinnumaður í 9 sumur var annað verið að brasa fyrir utan vinnutíma. Ekki hékk maður yfir sjónvarpinu. Ég og Hjörtur frændi minn vorum iðulega að sinna mikilvægari verkum úti fyrir. Stússast í hlöðunni, laga mótorhjólið, leika okkur í hringjunum í fjárhúsinu, fara í veiðiferð í Nesdal á dráttarvélinni eða niðuður með ánni. Og svo var oft unnið fram á kvöld – sérstaklega í heyskap og að sjálfsögðu í sauðburði.

Í sveitinni bjuggum við líka til báta – eiginlega kajak. Það var Hreinn frændi sem hafði veg og vanda af þeirri hönnun. Bárujárnsplata beygð og tveir spýtukubbar settir í endana. Um miðjuna var svo sett sæti og til að halda stöðugleikanum var spýta sett út beggja vegna með tómum brúsum. Þennan bát fórum við með út í Nesdal þar sem við veiddum og lögðum net – sem var samt bannað en þá enn meira spennandi.

Á dögunum var ég á Þórshöfn á Langanesi þar sem ég fylgdi Halldóri Gunnar Pálssyni og Þjóðlaginu eftir. Þar hitti ég Jónba, 14 ára strák og nýfermdan, en hann kom í kirkjuna á Þórshöfn til að syngja. Eftir sönginn stóð hann á tröppunum nokkuð vígalegur.

Af hverju ertu kallaður Jónbi tröll?,“ spurði ég.

Það datt bara einhvernveginn á mig,“ svaraði hann sposkur á svip.

Mér er sagt að þú sért kallaður útgerðarmaðurinn hér á Þórshöfn. Af hverju?,“ spurði ég aftur.

Ég fékk bát í fermingargjöf.“

Hvernig bát?,“ spurði ég aftur.

Teris 350,“ svaraði hann þá.

Og hefurðu verið að fara í einhverja róðra?“

Já nokkra.“

Hefurðu verið að fiska?“

Já ég fékk einu sinni 30 – 40 fiska á bala,“ svaraði Jónbi og ég bað hann um að sýna mér bátinn. Ég keyrði hann og vin hans, Þórhall sem starfar sem vélstjóri um borð í bátnum, niður að höfn. Þar sýndu þeir mér bátinn og sögðu mér veiðisögur.

Nokkrum vikum seinna kom ég aftur á Þórshöfn og þá til að gera fréttina um útgerðarmanninn Jónba og vélstjórann Þórhall. Ég og Benni pródúsent vorum komnir í þorpið um tíuleytið um kvöld en þá voru Jónbi og Þórhallur að vitja um silunganet sem þeir höfðu lagt í höfninni. Aflinn var ekki mikill; Koli og Rauðmagi. „Þeir fiska sem róa,“ sagði Jónbi þegar þeir komu í land en þá höfðu þeir lagt netin aftur og þá út frá landi.

Af hverju gerirðu það?“ spurði ég.

Nú af því fiskurinn syndir með landinu,“ svaraði Jónbi og var hneykslaður á spurningunni.

Seint um kvöldið komum við í beitningarskúrinn sem stendur nálægt bryggjunni. Þar er allt eins og það á að vera; allskyns bátadót, gamlir balar, netadræsur og vond lykt. Þangað var Einar Valur kominn til að hjálpa strákunum að beita. „Þeir hafa nú stundum gert þetta sjálfir og eru að læra þetta, en nú stendur mikið til svo ég ætla að hjálpa þeim,“ sagði Einar og kláraði að beita 90 króka fyrir strákana. Þeir báru balann á milli sín niður í bát og lögðu plastpoka yfir. Á sjóinn skyldi haldið klukkan sjö morguninn eftir.

Við hittum Sæmund útgerðarmann á bryggjunni, en hann ásamt barnabörnum sínum gaf Jónba bátinn í fermingargjöf. „Þeir eru duglegir þessir strákar,“ sagði Sæmundur og bætti við. „Þeir eru að koma á sjóinn með mér eftir skóla og eru helvíti duglegir.“

Eru þeir ekkert sjóveikir?,“ spurði ég.

Jú, jú,“ svaraði Sæmundur og hló.

Og það er gaman að segja frá því að nánar verður sagt af ævintýrum Jónba og Þórhalls í Kastljósinu annað kvöld.

Saga þessara kraftmiklu stráka leiðir hugann að því hvernig allt virðist breytt. Auðvitað eru krakkar að leika sér úti í dag en jafnvel á landsbyggðinni eru krakkarnir meira innivið heldur en áður – það segja íbúarnir. Tímarnir hafa breyst og tölvurnar kannski komnar að einhverju leyti í stað útileikjanna, uppátækjanna og vinnuseminnar. Ég vona hinsvegar að Jónbar og Þórhallar í öllum þorpum á landinu haldi áfram að fiska á litlum skektum og læri þannig að vinna.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *