Auðmýkt og þakklæti

F.H. Pétur Broddason, Pétur Guðjónsson og Halldór Óli Kjartansson afhenda styrkinn og augýsingaveggspjald tónleikanna.

Í gær tók ég á móti, fyrir hönd Minningarsjóðs Sissu, 820 þúsund krónum sem er afrakstur minningartónleika sem meðferðarheimilið Laugalandi í Eyjafirði stóð fyrir í lok september á síðasta ári. Með auðmýkt þakka ég öllu starfsfólki Laugalands, stúlkunum sem þar eru í meðferð, tónlistarfólkinu sem kom fram á tónleikunum og öllum öðrum sem komu að tónleikunum. Þessar þakkir ber ég fram fyrir hönd allrar fjölskyldunnar.

Minningarsjóðurinn um Sissu mun hafa það eina hlutverk að styðja við skapandi verkefni ungmenna sem eru á meðferðarheimilum vegna vímuefnaneyslu á hverjum tíma. Fyrsta úthlutunin verður þann 22. desember á þessu ári – á afmælisdegi Sissu en þann dag hefði hún orðið 20 ára gömul.

Stúlkurnar á Laugalandi gáfu mér einnig innrammað auglýsingaveggspjald frá tónleikunum sem mér þótti mjög vænt um.

Hér er að neðan er fréttatilkynning frá meðferðarheimilinu á Laugalandi varðandi styrkveitinguna;

Meðferðarheimilið á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit afhendir ágóða minningartónleika; „Í minningu Sissu“

Meðferðarheimilið á Laugalandi hélt í haust tónleika til þess að styrkja minningarsjóð Sigrúnar Mjallar Jóhannesdóttir. Sigrún Mjöll eða Sissa eins og hún var oftast kölluð var í meðferð á Laugalandi og átti góða tíma þar. Hún lést í júní 2010 vegna fíkniefnaneyslu, aðeins 17 ára gömul.

Við andlát Sissu stofnaði faðir hennar, Jóhannes Kr. Kristjánsson, minningarsjóð. Hlutverk sjóðsins er að styrkja skapandi verkefni ungmenna sem lent hafa út af sporinu og eru á meðferðarheimilum landsins.

Tónleikarnir

Þann 30. september sl.stóð Meðferðarheimilið á Laugalandi fyrir tónleikunum „Í minningu Sissu“ í Hofi á Akureyri. Fjölmargir listamenn komu fram sem gerðu tónleikana að bestu skemmtun. Það voru: Hvanndalsbræður, Karlakór Akureyrar-Geysir, Rúnar Eff, Júlí Heiðar, Bjartur Elí, Friðrik Dór, Kór Glerárkirkju, Óskar Pétursson, Eyþór Ingi Jónsson, Friðrik Ómar, Ágústa Eva og Páll Óskar.

Allur ágóði tónleikana skyldi renna í minningarjóð Sigrúnar Mjallar. Góð mæting var á tónleikana og söfnuðust 820 þúsund af miðasölu og styrkjum. Margir aðila sýndu okkur stuðning á einn eða annann hátt. Það voru m.a. samfélags-og mannréttindarnefnd Akureyrarbæjar, Strikið, N4 sem veittu okkur stuðning en sérstaklega ber þó að nefna stuðningur frá Braga Guðbrandssyni og hans fólki hjá Barnaverndarstofu, sem studdi vel við verkefnið.

Afhending á styrk

Næstkomandi föstudag 20. janúar kl. 15.00 munum við afhenda Jóhannesi Kr. Kristjánssyni ágóðann vegna tónleikanna. Við vonum að þinn miðill vilji segja frá styrkveitingunni eftir klukkan 15 á föstudaginn.

Afhending fer fram á Laugalandi.

Nánari upplýsingar gefur Pétur Guðjónsson í síma 691 1219


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *