Bílvelta á lélegum dekkjum

Ég og tveir vinir mínir sáum jeppling velta á Jökuldalnum í apríl á þessu ári. Þetta var bílaleigubíll frá lítilli bílaleigu og í honum voru fjórir pólverjar; hjón, sonur þeirra og tengdadóttir. Þau ætluðu að fara hringinn. Það urðu ekki alvarleg slys á fólkinu en bíllinn fór nokkrar veltur. Það var kalt þennan dag og það tók lögreglu og sjúkrabíl rúman hálftíma að koma á slysstaðinn frá Egilsstöðum.

Eftir að hafa komið fólkinu fyrir í okkar bíl og athugað með meiðsli fórum við að skoða bílaleigubílinn. Við tókum strax eftir því að dekkinn voru mjög léleg. Einn og einn nagli á stangli. Það var flughálka þennan dag og hafði verið dagana á undan fyrir austan. Það vakti því furðu okkar hvað bíllinn var á lélegum dekkjum.

Vinur minn hringdi í bílaleiguna til að tilkynna um slysið og vakti athygli starfsmannsins á því hve dekkin væru léleg á bílnum. Í fyrstu reyndi starfsmaður bílaleigunnar að þræta fyrir að dekkin væru í slæmu ástandi. Síðar dró hann að landi og sagði að þar sem það væri 19. apríl væri skylda að nagladekkin væru komin undan bílnum, en á vef Umferðarstofu kemur fram að neglda hjólbarða megi ekki nota á tímabilinu frá og með 15. apríl til og með 31. október “nema þess sé þörf vegna akstursaðstæðna.”

Þetta var bíll frá lítilli bílaleigu og það hlýtur að vera á ábyrgð hennar að leigja ekki út bíla á ónýtum dekkjum á þessum árstíma. Mér finnst það ólíklegt að bílaleigan hafi ákveðið fjórum dögum fyrr að taka nagladekkin undan þessum bíl og setja undir hann dekk með nokkrum nöglum á stangli eins og sést á myndunum. Það er miklu líklegra að þessi bíll hafi verið á nákvæmlega þessum dekkjum allan veturinn.

Það er allavega klárt að eftirlit með bílaleigum þarf að auka. Bílveltan á Jökuldalnum hefði getað orðið banaslys. 


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *