Brynja mín fertug

Unnusta mín Brynja Gísladóttir er fertug í dag. Af minna tilefni hef ég nú bloggað. Brynja mín kom brosandi í heiminn tíu mínútur í eitt að nóttu þann 24. júlí 1973. Að sögn móður hennar hefur alltaf verið sól á þessum degi. Mér finnst það ekkert skrýtið því Brynja lýsir upp heiminn og hefur alltaf gert. Hún er vinamörg og allir eru vinirnir sammála um að hún geri heiminn betri með góða skapinu, brosinu sínu, góðmennsku, greiðvikni, góðum ráðum og sterkri réttlætiskennd. Og hún er þekkt fyrir brosið sitt og sterkan húmor, enda sagði mamma hennar að Brynja hefði grátið fyrstu tvo mánuðina í lífi sínu en svo ekki söguna meir. Frá þeim tíma hafi hún brosað alla daga.

Við tvö höfum frá því við kynntumst gengið í gegnum erfið áföll en alltaf hefur okkur tekist að komast í gegnum þau. Brynja á stóran þátt í því. Hún kýs að horfa á það mannlega og góða í einstaklingnum. Hún á enga óvini, en þar með er ekki sagt að hún sé ekki hörð í horn að taka því það er hún svo sannarlega, enda fædd í Ljónsmerkinu. Hún er ljónamamma og sýnir klærnar og tennurnar ef  gert er á hennar hlut.

 

Vinkonurnar Brynja og Elsa.

Brynja á margar vinkonur en samband hennar við Elsu Lyng vinkonu sína er sérstakt og fallegt. Elsa á afmæli á morgun, 25. júlí og er því líka í ljónsmerkinu. Fyrir um 20 árum leigðu þær, ásamt fleirum, íbúð saman í miðbænum og eitt sinn þegar mamma Brynju bauð þeim í mat spurði hún Elsu hvort mamma hennar heiti Haddý. Elsa svaraði játandi. „Jeminn. Þá ert þú barnið sem ég fékk upp í hendurnar á fæðingarheimilinu,“ sagði mamma Brynju. Saga Brynju og Elsu nær því miklu lengra aftur. Hér kemur sagan af því.

Mæður Brynju og Elsu lágu saman á stofu á Eiríksgötunni. Mamma Elsu var sofandi en mamma Brynju var vakandi og á þessum tíma lágu nýbökuðu mæðurnar lengur á fæðingarheimilinu en gengur og gerist í dag. Ljósmóðirin kom með nýburavagninn til mömmu Brynju og sagði; „Jæja, nú þarftu að gefa brjóst.“ Mamma Brynju leit ofan í vagninn og sagði; „Ég á ekki þetta barn.“ Hjúkkan gaf sig ekki sagði víst svo vera. „Nei, ég á ekki þetta barn. Kíktu á armbandið,“ endurtók mamma Brynju. Á sama tímu var búið að trilla Brynju að rúmi mömmu Elsu. Ljósmóðirin leit loks á armbandið og áttaði sig þá á að mamma Brynju hafði rétt fyrir sér og kom Brynju í faðm móður sinnar og Elsu til sinnar.Tæpum sautján árum síðar fór Brynja í ökukennslu. Eftir fyrsta ökutímann var hún beðin um að sækja næsta nemanda og viti menn – þar kom Elsa Lyng öðru sinni inn í líf hennar. Að sjálfsögðu nota ég tækifærið og óska Elsu Lyng innilega til hamingju með fertugsafmælið – á morgun.

Ég nýt þess á hverjum morgni að vakna upp við hliðina á fallegu konunni minni sem verður fegurri með hverju árinu sem líður. Hún vaknar brosandi og fer  brosandi að sofa. Ég hlakka til framtíðarinnar með Brynju minni því hún er svo sannarlega spennandi og verkefnin mörg sem bíða bæði hennar og mín.

Til hamingju með daginn þinn elskan.

Þinn Jóhannes.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *