Dópa til að deyfa sig

Hvar voruð þið átján ára gömul? Hvað voruð þið að gera það ár? Um hvað hugsuðuð þið? Ég veit hvar ég var. Ég stundaði nám við Héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði fyrir áramót og eftir áramót vann ég í sláturhúsinu á Þingeyri. Varð 19 ára í febrúar.

Ég leiddi hugann að þessu þegar mér varð hugsað til stúlknanna tveggja sem voru handteknar í Tékklandi. Þær eru nýorðnar 18 ára. Með réttu ættu þær 2 ár eftir í stúdentsprófið. Veruleikinn sem blasir við þeim nú getum við ekki ímyndað okkur. Fangelsin í Tékklandi eru víst ekki upp á marga fiska og allur aðbúnaður er slæmur. Þessi vist – sama hversu stutt hún verður, mun breyta lífssýn þessara stúlkna til frambúðar. Tíminn mun leiða í ljós hvernig þær koma út úr þessu.

Fólk er fljótt að dæma – sérstaklega í málum sem þessum. Það er svo auðvelt því brot þeirra eru jú mjög alvarleg. En fólk verður að átta sig á að þær eru börn ennþá. Krakkar með brotna sjálfsmynd, búa við gífurlegt óöryggi, hafa upplifað hryllilega hluti í heimi neyslunnar og þeirra eina leið til að höndla veruleikann, er að dópa til að deyfa allar tilfinningar. Láta allar minningarnar um allt það slæma sem þær hafa lent í, hverfa.

Við megum heldur ekki gleyma að þetta er fjölskylduharmleikur og hefur áhrif á stóran hóp fólks sem tengist stúlkunum.

Ég hef oft talað við stúlkur 14 til 16 ára sem hafa verið eða eru í neyslu. Á yfirborðinu sýnast þær töffarar – streetwise stelpur sem virðast þola allt. Það þarf hinsvegar ekki að kafa langt undir yfirborðið til að sjá hversu brotnar þær eru. Hversu mikil börn þær eru og hvað þeim líður illa. Þær þurfa á hjálp að halda, en þora eða vilja ekki horfast í augu við staðreyndir eins og til dæmis að „gamli“ vinahópurinn er horfinn. Þær eiga bara vini sem eru í neyslu. Og svona mætti lengi telja.

Lífsreynsla sumra stúlknanna sem ég hef rætt við er hrikaleg. Sumum hefur verið nauðgað og stundum af fleiri en einum manni. Þær hafa selt sig fyrir dópi. Þær hafa verið seldar til fullorðinna karlmanna sem eru ofarlega í fíkniefnaheiminum – allt gert til að „gleðja“ þá! Þær hafa gengið á milli fullorðinna karlmanna í dópheiminum og eru af þeim kallaðar „pokahórur.“ Og þegar þessir menn hafa fundið sér ný fórnarlömb er þeim hent út úr hópnum og standa einar eftir – orðnar fíklar og komnar út úr sínum gamla og heilbrigða félagshópi. Þær eru orðnar úrhrök og nota líkama sinn til að komast áfram í þessum harða og ömurlega heimi. Lífsreynslubakpokinn þeirra stækkar og stúlkunni líður verr með hverjum deginum sem líður. Hún dópar áfram til að deyfa – skammtarnir verða stærri og stærri. Allt lífið er löngu farið á hvolf og allar brýr hafa verið brotnar á bak aftur.

Í gegnum tíðina hef ég talað mikið um þessi mál við fjölmarga meðferðaraðila. Þeir segja allir að þessar ungu stúlkur þurfi á mikilli aðstoð að halda. Það þarf að vinna með þeim úr þessari slæmu reynslu sem þær hafa safnað upp; öllum nauðgununum, líkamseiðingunum og annarri lífsreynslu sem verður til í þessum heimi. Það tekur langan tíma að vinna úr þessu og eftir meðferð þarf að taka við stúlkunum og halda utan um þær út í lífið. Það þarf semsagt að styðja við bakið á þeim um langa hríð svo þær nái fótfestu á nýjan leik.

Ég hef heyrt sögur af þessum ungu stúlkum sem unnið hefur verið með í meðferðum og það gengið vel. Þar hafa þær gert mál upp, bæði við foreldra sína og aðra ættingja og einnig rætt erfiða lífsreynslu og fengið ráðgjöf í kjölfarið. Þegar þær koma út úr meðferð rekast þær kannski á manninn sem nauðgaði þeim síðast. Og þær frjósa – það er ekkert sem heldur utan um þær og þá er stutt í deyfingu dópsins. Þá dópa þær til að gleyma.

Eins og svo margir aðrir vona ég að þessar tvær átján ára stúlkur fái að afplána sína dóma hér á landi. Þá er hægt að bjóða þeim upp á meðferð við hæfi – allavega betri vist þar sem þær eru nær fjölskyldum sínum.

Það má ekki gleymast að þær eru fórnarlömb í þessu smyglmáli. Þær eru leiksoppar manna sem kunna á fíkniefnaheiminn. Almennur borgari gengur ekkert inn í hús í Sao Paulo í Brasilíu og pantar nokkur kíló af kókaíni, vel falið í nokkrum töskum. Það þarf mikil sambönd í fíkniefnaheiminum þar til að slíkt gerist. Átján ára stúlkur hafa ekki þau sambönd – en það hafa hinsvegar þeir einstaklingar sem skipulögðu smyglið.

Mjög líklega hafa aðrar töskur sem önnur burðardýr hafa borið komist á leiðarenda. Nú sitja þessir fullorðnu einstaklingar sem fórnuðu tveimur 18 ára stúlkum til verksins, brosandi með milljónirnar í kringum sig. Þessir einstaklingar munu örugglega ekki leggja krónu í að hjálpa þessum tveimur 18 ára stúlkum í fangelsinu þannig að þær geti keypt nauðsynjar eða í lögfræðikostnaðinn sem hlýst af málaferlunum. Þeir eru án efa farnir að skipuleggja næstu ferð – farnir að finna næsta burðardýr sem á að fórna.

Vonandi finnast þessir einstaklingar – því þeim á að refsa með margra ára fangelsisvist.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *