Eitt ár

Í dag, 3. júní, er eitt ár liðið frá því ég fékk símtalið frá Landspítalanum. Ég var heima að borða hádegismat að undirbúa mig undir viðtal sem ég ætlaði að taka klukkan 14. Síminn hringdi. Símtalið var nokkurn veginn eftirfarandi:

„Góðan dag! Er þetta Jóhannes Kr. Kristjánsson?“

„Já.“

 „…… heiti ég (man ekki nafnið) og er á Hjartagátt Landspítalans við Hringbraut.“

„Ok,“ sagði ég og hélt að verið væri að kalla mig inn til skoðunar.

„Ert þú faðir Sigrúnar Mjallar?“

„Já.“

„Ég verð því miður að tilkynna þér að hún er látin. Hún lést í nótt.“

„Ha?“ sagði ég og hélt ég hefði heyrt eitthvað vitlaust.

„Sigrún Mjöll er látin. Hún var flutt til okkar um hádegið og var látin þegar hún kom hingað.“

„Hvað ertu að segja? Ég trúi þessu ekki. Ég bara trúi þessu ekki,“ sagði ég og það var á þessu augnabliki sem ég man hvernig allt umhverfið í kringum mig fraus. Það var verið að tilkynna mér að dóttir mín væri dáin.

„Mér þykir þetta mjög leitt,“ sagði hjúkrunarkonan og bætti við: „Geturðu komið hingað til okkar? Hefurðu einhvern til að keyra þér?“

„Ég kem,“ sagði ég og það sem í framhaldinu kom er nánast allt hulið móðu sem ég man óljóst eftir – alveg þangað til ég kom á Landspítalann. Þar voru prestur, læknir og lögreglumaður sem tóku á móti okkur. Á þessari stundu varð allt ljóst – þegar ég sá dóttur mína látna í sjúkrarúminu.

Einhvern veginn svona eru símtölin sem foreldrar og aðstanendur fíkla bíða eftir að fá. Símtöl sem enginn ætti að fá.

Saga Sissu hefur hjálpað. Í kjölfar umfjöllunar Kastljóssin um læknadóp er heilmikið að gerast í samfélaginu. Almenningur orðinn meðvitaðri um neysluna og yfirvöld að átta sig og reyna nú að sporna við miklu framboði af læknadópi á götunni.

Um leið og ég hugsa til dóttur minnar með sorg í hjarta á þessum degi, fagna ég umræðunni í samfélaginu og aðgerðum yfirvalda við að sporna við auðveldu aðgengi að læknadópi.

Minni aðkomu að umfjöllun um þessi mál fer að ljúka – en minning Sissu mun lifa.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *