Enginn verður gerður ábyrgur fyrir dauða dóttur minnar, Sigrúnar Mjallar, sem lést þann 3. júní 2010 í dópgreni á Laugaveginum. Þessi niðurstaða liggur nú fyrir – 25 mánuðum eftir dauða hennar.
Frá upphafi fylgdist ég vel með rannsókn lögreglu á láti dóttur minnar. Í sorginni í byrjun var ég þakklátur fyrir allt sem gert var. En fljótlega fann ég að málið var ekki hátt skrifað á borði lögreglunnar. Ég skynjaði að mappa dóttur minnar með öllum málsskjölunum var stimpluð með ósýnilegum stimpli; dópisti – og þar með var rannsóknin í hægum gangi og náði aldrei þeim hæðum sem ég vonaði.
Veruleikinn sem blasti við mér var að dóttir mín hafði dáið í aðstæðum þar sem atburðarrásin var mjög óskýr í umhverfi fíkla og við aðstæður sem eru óhugnarlegar. Það voru þrjár manneskjur í þessu herbergi að dóttur minni meðtalinni og öll í annarlegu ásigkomulagi. Og af þeim sökum er atburðarrásin óljós – það er erfitt að gera tímalínu sem er á byggjandi.
Þarna voru semsagt dópistar samankomnir í neyslu. Og dóttir mín deyr í þessum aðstæðum. Eins og ég hef margoft skrifað um var dóttir mín 17 ára gömul, undir lögaldri. En ættu yfirvöld ekki að rannsaka lát hennar með sama hætti og þegar morð er framið? Ef það hefði verið gert þá hefði rannsóknin farið af stað með krafti strax fyrsta klukkutímann eftir andlátið. Þá hefði örugglega verið hægt að ná í símaskilaboð sem “kærasti” dóttur minnar er sagður hafa skilið eftir á símsvara manns sem ég fann og var tilbúinn að bera vitni um símtöl frá honum. Skilaboðin sem hann skildi eftir á símsvaranum voru játning hans á að hafa sprautað Sigrúnu og að hún væri dáin.
Símafyrirtækið eyddi hinsvegar skilaboðunum 14 dögum eftir að þau voru lesin inn. Lögregla reyndi að fá skilaboðin rúmu ári eftir að dóttir mín lést – en þá hafði þeim verið eytt. “Kærasti” Sigrúnar segir manninn vera að ljúga sem eðlilegt er.
Það að ná þessum skilaboðum hefði getað skipt máli í rannsókninni og þá stæði ég hugsanlega ekki í þessum sporum í dag.
Ég og fjölskylda Sigrúnar Mjallar höfum ákveðið að hlíta niðurstöðu ríkissaksóknara. Við biðum eftir þessari niðurstöðu og þetta eru ákveðin málalok í sorg okkar. Lífið heldur áfram hjá okkur en það verður erfiðara að vinna úr þessum harmleik með þá niðurstöðu sem kom í gær.
Í staðinn ætlum við að beita okkur fyrir því að ákvæði verði sett í lög þar sem þeir sem sprauta aðra manneskju með fíkniefnum verði gerði ábyrgir og að það eitt og sér verði refsivert. Lögmenn í réttarvörslukerfinu sem ég hef rætt við segja að slíkt ákvæði geti skipt máli í saksókn mála eins og dóttur minnar.
Nú sit ég við skriftir á bók um líf dóttur minnar, baráttu hennar í kerfinu og minnar baráttu með henni. Í bókinni verða margir kaflar um þennan svarta heim ungra fíkla – heim sem er svo ógeðslegur og hættulegur. Þar verða einnig kaflar fyrir foreldra barna sem eru farin að sýna áhættuhegðun – sem mögulega getur leiðst út í neyslu.
Ég hef einnig ákveðið að birta öll málsskjölin vegna andláts dóttur minnar og draga ekkert undan. Ég vil að almenningur átti sig á veruleika þessa heims. Fái smá innsýn í hörmungarnar og þá hrikalegu atburði sem þar geta gerst – þegar manneskja deyr; dóttir, sonur, maki, bróðir, systir…..
Það sem hjálpar okkur fjölskyldunni mest er að við heyrum oft sögur frá fólki sem segja að saga Sissu hafi hjálpað. Síðast í gær þar sem ég var staddur á Ísafirði kom maður til mín og sagði að sagan hennar hefði orðið til þess að hann og sonur hans hefðu rætt opinskátt um fíkniefnaheiminn og hætturnar sem þar leynast.
Ég hef áður skrifað um þau markmið sem ég setti mér þegar Sigrún Mjöll lést; að gera umfjöllun um heim læknadópsins og segja sögu Sissu, að stofna minningarsjóð sem hefur það markmið að styðja við skapandi starf ungmenna sem eru í meðferð og að síðustu að skrifa bók um Sissu og þennan heim. Þessum markmiðum næ ég á þessu ári. Fyrsta úthlutun úr minningarsjóðnum verður 22. desember á þessu ári á 20 ára afmæli Sigrúnar. Bókin mun koma út fyrir jólin og allur hagnaður af henni mun renna til minningarsjóðsins.
Nú er bara að halda áfram með lífið og taka þessari niðurstöðu með æðruleysi – þótt það sé erfitt.