Fingurkoss á Landakoti

Amma Dúnna og Gísli Kristján

Opna hjá Dúnnu ömmu,“ sagði Gísli Kristján, þriggja ára guttinn minn og stökk á takkann til að opna hurðina inn á deildina á Landakoti þar sem langamma hans dvelur nú. Dúnna amma varð níræð á Jóladag í fyrra – þó hún líti alls ekki út fyrir að eiga aðeins 10 ár í hundrað. Hún gekk með og fæddi átta börn.

Þarna er Dúnna amma og amma,“ hrópaði guttinn upp þegar við gengum inn ganginn en innst gekk Dúnna amma hægum en öruggum skrefum á móti okkur og studdist við göngugrind nr. 21 – merkt sjúkraþjálfun Landakots. Og dóttir hennar, tengdamamma mín, gekk við hlið hennar og studdi við hana. Þær ljómuðu báðar þegar þær sáu ömmubarnið – Gísla Kristján.

Er hann kominn strákurinn minn,“ sagði Dúnna amma um leið og hún beygði sig niður til að kyssa ömmustrákinn. Við gengum út ganginn í átt að kaffistofunni – það var kominn kaffitími.

Á ganginum sat gamall maður á bekk. Hann hafði göngugrindina fyrir framan sig og brosti. Á borði við hlið hans var lítið útvarp sem stillt var á FM 957 eða einhverja aðra útvarpsstöð sem spilar lög sem maður heldur að enginn hlusti á. Gamla manninum virtist sama á hvað hann hlustaði því hann horfði brosandi í áttina til Dúnnu ömmu þegar við gengum framhjá honum. Hún brosti feimin á móti og til baka fékk Dúnna amma fingurkoss – svo einlægan að hann hefði brætt hvaða konu sem þarna hefði gengið framhjá. Við héldum áfram inn á kaffistofuna og fengum okkur sæti þar sem Dúnna amma bauð uppá Quality Street og Geishu sælgæti.

Hvernig hefur þér liðið?,“ spurði ég hana.

Bara vel góði minn,“ svaraði hún að bragði.

Ég sá að þessi myndarlegi maður gaf þér fingurkoss þegar þú gekkst framhjá honum á ganginum,“ sagði ég við Dúnnu ömmu.

Já hann vill víst endilega fá að kyssa mig en ég er nú ekki farin að kyssa hann enn,“ svaraði hún að bragði hálf feimin.

Það gæti nú komið að því,“ sagði ég við hana.

Nei, ég ætla ekkert að leyfa honum að kyssa mig,“ svaraði hún ákveðin á svip en leit samt til gamla mannsins sem hafði stuttu áður sest við borð við hliðina á okkur. Hann leit til Dúnnu ömmu sem þóttist ekki taka eftir honum.

Rómantíkin er ekki langt undan á Landakoti og þrátt fyrir að það þurfi að endurnýja margt innanstokks og utan, er andrúmsloftið á deildinni hjá Dúnnu ömmu gott og það er hugsað vel um hana. Og það er ekki bara starfsfólkið sem gefur henni auga – það er gott að vita til þess. (broskall:)


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *