Dagurinn í dag var gleðilegur. Sigrún Mjöll hefði orðið 20 ára og fyrsta úthlutun úr Minningarsjóði Sigrúnar Mjallar varð að veruleika. Fjórir styrkir voru veittir sem allir renna til góðra verkefna. Ég hef dregið mig að mestu út úr starfi Minningarsjóðsins, en mun sitja í varastjórn næstu fimm árin. Ævilanga verkefnið mitt verður að tryggja að á hverju ári verði til peningar til úthlutunar.
Úthlutun úr sjóðnum verður í framtíðinni hluti af jólaundirbúningnum hjá allri fjölskyldu Sigrúnar Mjallar, því úthlutað verður úr sjóðnum þann 22. desember, á afmælisdegi Sissu, á hverju ári.
Það veit ég að Sissa hefði verið ánægð með styrkveitingarnar. Meðferðarheimilið Laugaland fékk 350 þúsund krónur til kaupa á búnaði til stuttmyndagerðar, en Sissa tók einmitt þátt í þannig verkefni þegar hún var á Laugalandi í meðferð. Meðferðarstöðin Stuðlar fékk styrk upp á 200 þúsund krónur til efniskaupa fyrir listnámskeið sem þar verður haldið. Meðferðarheimilið Lækjarbakki fékk 200 þúsund króna styrk til tölvukaupa og hópur unglækna og geðlækna fékk 150 þúsund króna styrk til að setja vefsíðuna kannabis.is í loftið, en á síðunni verða upplýsingar fyrir unglinga um skaðsemi kannabisreykinga.
Ég vil þakka öllum þeim sem hafa styrkt sjóðinn og einnig stjórninni, en í henni situr fólk sem kom að meðferð Sigrúnar Mjallar og hún bar mikla virðingu fyrir. Í stjórninni sitja; Grétar Hostert Halldórsson, forstöðumaður meðferðardeildar Stuðla, Stella Guðmundsdóttir fyrrverandi skólastjóri Digranesskóla, Guðbjörg Erlingsdóttir starfsmaður Foreldrahúss. Í varastjórn situr Pétur Broddason forstöðumaður meðferðarheimilisins að Laugalandi og ég.
Og að lokum vil ég þakka Aroni Pálmarssyni handboltamanni fyrir stuðninginn sem er ómetanlegur. Hann bað fyrir þau skilaboð að árið 2013 yrði mjög gott ár fyrir Minningarsjóð Sigrúnar Mjallar.