Hálendið

Skálarnir við JökulheimaUm síðustu helgi fór ég í Veiðivötn – í fyrsta skipti. Vinir mínir hafa farið þangað ár eftir ár – í tíu ár og alltaf heyrði maður sögurnar um hvað þessi staður væri einstakur. Það voru því miklar væntingar sem ég gerði mér þegar ég lagði af stað úr Reykjavík þennan laugardagsmorgun.

Ég lagði bílnum við Hrauneyjar, síðastu sjoppuna áður en lagt er á hálendið. Þangað var ég sóttur á jeppa. Og við tók akstur til Veiðivatna – upp á hálendi Íslands.

Veiðivötn eru á Landmannaafrétti og eru í 578 metra hæð yfir sjávarmáli. Vötnin mynduðust í eldgosum fyrr á öldum, því síðasta 1480 í svokölluðu Veiðivatnagosi; mjög öflugu eldgosi þar sem eldsprungan er talin hafa verið um 30 kílómetra löng.

Veiðivötnin eru einstakur staður þar sem vötnin sjálf, hraunið, auðnin, mosinn, fjallasýnin og hrikalegt landslagið mynda náttúru sem er engri lík. Stórbrotna, en um leið svo einfalda.

Veiðin í vötnunum og félagsskapurinn á svæðinu skemmir ekki fyrir þessari einstöku náttúru. Þarna eru allir komnir til að hafa gaman, veiða og njóta náttúrunnar. Í þessari fyrstu ferð minni í Veðivötn veiddi ég sjö fiska – ég ætla ekkert að tala um stærðina á þeim hér.

Á leiðinni heim keyrðum við í Jökulheima en þangað er um fjörtíu mínútna akstur frá Veðivötnum. Í Jökulheimum eru bústaðir Jöklarannsóknafélags Íslands. Þeir standa á klöpp rétt við Vatnajökul og minna á hús á Grænlandi. Við skúrana fengum við okkur kaffi, rúgbrauð og reyktan silung.

Það var þarna sem ég upplifði algjöra kyrrð. Þarna heyrist ekki neitt nema gnauðið í vindinum. Það var þarna sem ég ákvað líka að fara að kynna mér hálendið og njóta þess. Þvílíkur fjársjóður sem þarna er. Akkúrat staðurinn sem maður þarfnast til að afstressa sig.

Einn veiðivarðanna í Veiðivötnum sagði mér frá bandarískum ferðamönnum sem voru við vötnin fyrir nokkrum árum. Hann var að rúnta með þau milli vatna. Einn ferðamaðurinn bað hann um stöðva bílinn – hann vildi fara út að taka ljósmynd.

„Ljósmynd af hverju?“ spurði veiðivörðurinn og bætti við; „Það er ekkert hérna nema sandurinn!“

„Það er einmitt af þeirri ástæðu sem ég vil taka hér ljósmynd – af þessari ótrúlegu náttúrusýn,“ sagði bandaríkjamaðurinn.

Nú er ekkert annað í stöðunni en að fara að koma sér upp útilegubúnaði og halda á hálendið næsta sumar.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *