Hetjan mín hún mamma!

Fáir trúa því að mamma sé orðin 79 ára gömul.

Mamma varð fyrir því óláni að missa fótana í dag og lærbrotna. Hún er sem betur fer ekki alvarlega slösuð og beinbrotið er ekki sagt slæmt. Mamma fer í aðgerð þar sem gert verður að brotinu og ég veit að hún verður fljót að jafna sig. Eins og ættingjarnir segja; -það er seigt í henni.

Já það er sko seigt í henni mömmu. Hún er fædd á Flateyri við Önundarfjörð árið 1933 og varð því 79 ára gömul í sumar. Á Flateyri átti hún góða æsku í faðmi ömmu og afa og 5 systkina; Rúnu, Skúla, Sæþórs, Þórðar (tvíburabróðir hans lést í fæðingu) og svo Geira sem lést 16 ára gamall úr berklum sem felldu marga á þessum árum. Mamma greindist með berkla árið 1947, þá fjórtán ára gömul. Hún lá í nokkrar vikur á sjúkraskýlinu á Flateyri en áður en hún var send heim sagði læknirinn; -þú hefur tvo kosti. Að fara heim og hlýða öllu sem þér er sagt eða að fara á Hælið, en það var Vífilstaðaspítali sem tók við berklaveikum. Mamm valdi fyrri kostinn – að hlýða. Í eitt ár lá hún í rúminu og hreyfði sig ekki fyrir utan einn stuttan göngutúr sem hún mátti fara á hverjum degi út að beinahjalli. Hún fór fram úr til að borða og til að fara á klósettið – annars lá hún í rúminu. “Auðvitað var þetta leiðinlegt en svona var þetta bara,” sagði mamma þegar hún rifjaði þetta upp fyrir stuttu. Mamma kynntist pabba fjórtán ára gömul og á meðan hún lá veik skrifuðust þau á og það hefur eflaust stytt henni stundirnar að fá bréf frá honum og ekki síður að skrifa bréf til baka.

Annað árið sem hún lá í rúminu mátti hún fara í lengri göngutúra og vera meira  á fótum. Nærri fjórum árum eftir að berklarnir uppgötvuðust fékk hún að fara að vinna  sem símadama á símstöðinni á Flateyri. Átján ára gömul trúlofuðu þau sig – mamma og pabbi.

Á þessari gömlu ljósmynd sem tekin er 23. júní árið 1933 er móðir mín, Þórunn Kr. Bjarnadóttir 3 daga gömul og liggur við hlið Guju ömmu. Bjarni afi og mamma hans, Kristín Hannesdóttir langamma sitja við rúmið. Bjarni afi var fæddur þann 7. nóvember árið 1903 í Kleifakoti í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi. Hann var einkasonur Kristínar og Þórðar Bjarnasonar en þau giftust aldrei. Þórður drukknaði þegar afi var 16 ára gamall.

Mamma var 49 ára gömul þegar pabbi lést, en þá var ég nýorðinn 11 ára. Það var mikið áfall fyrir konu á besta aldri og ekki síður að hafa mig, barn sem átti stutt eftir á unglingsárin. Þetta var erfiður tími fyrir hana en aldrei minnist ég þess að hafa séð hana gefast upp. Hún stóð þétt við rúm pabba í hans veikindum og eftir að hann dó vann hún hörðum höndum við að framfleyta okkur báðum, en bæði systkini mín voru þá flutt að heiman.

Síðan varð ég unglingur og svo kolvitlaus unglingur. Mamma sá þann kost vænstan að senda mig vestur, fyrst í skóla á Núpi og síðan í sveit á Hrauni á Ingjaldssandi þar sem Rúna systir hennar bjó. Hún gerði það sem til þurfti til að koma mér til manns – sendi mig burt úr bænum þar sem hætturnar lágu.

Ég hef setið yfir mömmu mjög veikri inn á spítala og einu sinni á gjörgæsludeild. Ég man að læknarnir stóðu við enda rúmsins og mamma lá meðvitundarlaus í öndunarvél. Ég spurði hverjar horfurnar væru og svarið var; -Hún er mjög veik. Þú skalt hringja til systkina þinna og fá þau hingjað niðureftir. En mamma stóð upp úr þessum veikindum. Hún kvartaði aldrei og alltaf var hún brosandi þótt hún gæti ekki matað sig sjálf. Ég hafði tekið mér frí frá vinnu og sat hjá henni og á hverjum degi sagði hún mér að þetta væri algjör óþarfi. Ég ætti að drífa mig í vinnu og þyrfti ekkert að sitja hjá henni.

Í fyrra veiktist hún alvarlega og var þá greind með “Broken heart syndrome” sem er hjartaáfall vegna tilfinningalegs áfalls. Hjartaáfallið fékk hún ári eftir að Sigrún Mjöll dóttir mín og ömmubarnið hennar lést, en þær voru samrýmdar og góðar vinkonur. En með þrautseigju og lífsviljann að vopni sigraðist hún á þeim veikindum og alltaf var hún brosandi, segjandi okkur að hafa engar áhyggjur af sér – það væri allt í sómanum.

Já, þessar mömmur eru magnaðar. Mamma mín hefur alla tíð staðið þétt við bakið á mér í hvaða verkefnum sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Margir vina minna tala oft um mömmur sínar og segja frá því hvað þær séu magnaðar og stórkostlegar konur. Mömmur eru flestar þannig – standa með börnunum sínum og hvika hvergi.

Það er líka margt sem við börnin getum lært af mömmum okkar. Það sem ég hef lært af mömmu minni er að gefast ekki upp sama hvað gerist og að taka því sem að höndum ber – vinna úr því og halda áfram. Maður verður að standa öll áföllin af sér og halda áfram með lífið – læra að lifa með áföllunum eins og mamma hefur alltaf gert. Ég er svo enn að læra það af mömmu að vera ekki að kvarta yfir hlutunum.

Mamma og Bríet Arna á 79 ára afmælisdaginn í sumar.

Núna reyni ég að aðstoða mömmu á allan þann hátt sem mér er unnt. Það að heimsækja mömmu án nokkurs tilefnis skiptir máli – bæði fyrir mig, hana og börnin mín. Mömmur eru nefnilega líka frábærar ömmur. Það hef ég séð hjá mömmu – hvernig hún hefur tekið barnabörnin sín og umvafið þau hlýju og kærleika. Ég sá hana taka Sigrúnu Mjöll í hjarta sitt og dundaði sér með henni við sauma, að teikna eða baka svo klukkutímum skipti. Það sama horfi ég á í dag þegar Bríet Arna 6 ára dóttir mín fer til ömmu. Nú síðast var mamma að kenna henni á saumavélina og saman bökuðu þær kökur.

Ég og mamma tölum mikið saman í síma og stundum hef ég engan tíma til að tala við hana þegar hún hringir – hún skilur það. Hún er þá að hringja til að kanna hvort ekki sé allt í lagi með mig og mína – bara að tékka á hlutunum. Stundum hef ég ekki nennt að tala við hana þegar ég tel mér trú um að mikið sé að gera hjá mér. Sumir vinir mínir hrista stundum hausinn þegar þeir sjá að mamma sé að hringja. En við skulum muna hve oft við kölluðum Mamma – þegar við vorum lítil börn. Og alltaf svaraði mamma.

Við sem eigum mömmur – og pabba á lífi – eigum að heimsækja þau eins oft og við getum. Stundirnar með mömmunum (og pöbbunum) eru dýrmætar og verða dýrmætari þegar árin líða. Við, unga fólkið sem lifum í hraðanum í dag þurfum líka á viskunni þeirra að halda – það gerir okkur alltaf að betri einstaklingum.

Mamma á eftir að lifa í mörg ár og eiga gott líf það sem eftir er. Hún er ákveðin kona þegar hún vill það við hafa og einu sinni sagði hún; “Jóhannes, ég vil ekki hafa það að þú skrifir neina minningargrein um mig þegar ég dey, enda ekki um svo mikið að skrifa,” sagði hún mjög ákveðin á svip.

Ég stend við það að skrifa ekki minningargrein um hana, en hún bannaði mér aldrei að skrifa grein um sig á meðan hún væri lifandi. Þetta er lofgrein sonar til móður.

Mamma – þú ert hetjan mín.

Þinn sonur, Jóhannes Kr.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *