Kveðja til fyrrum samstarfsmanna

Kæru fyrrum samstarfsmenn á RÚV.

Ég var rekinn í dag eftir tæplega 3 ára dvöl í Kastljósi RÚV. Það er áfall að fá þessar fréttir sem ég og tugir annarra starfsmanna RÚV fá í dag.

Þessi tími hjá stofnuninni hefur verið frábær. Mitt fyrsta mál í Kastljósi var mjög persónulegt. Ég opnaði á sögu Sissu minnar sem lést sumarið 2010 og það að koma fram í viðtali og ræða dauða dóttur minnar er eitt það erfiðasta sem ég hef gert á minni ævi. Í framhaldinu fjallaði ég um myrkan heim læknadópsins sem er enn að taka fjölda ungs fólks í dauðann. Þessi umfjöllun hefur hjálpað mörgum.

En ég hef, með frábæra starsfólki í Kastljósinu og fleiri deildum RÚV, unnið að fleiri málum sem hafa breytt örlitlu í þessu samfélagi. Og í mínum huga á blaðamennska að snúast um það – að benda á hluti sem betur mega fara, benda á spillingu, afhjúpa ljótu málin og vera tengiliður fólksins sem eiga sér enga málsvara – gerast málsvari þeirra og leita svara í kerfi sem veitir þessu fólki ekki rétta þjónustu.

Mitt helsta áhugamál, fyrir utan fjölskylduna mína, er blaðamennska og þá ekki síst það sem við köllum rannsóknarblaðamennsku. Ég hef á síðustu 10 árum verið að þjálfa sjálfan mig upp í þessari tegund blaðamennsku og það er skóli út lífið því málin eru svo mörg og mismunandi að aðferðirnar sem maður þarf að beita eru sjaldnast þær sömu.

Rannsóknarblaðamennska (gagnrýnin blaðamennska) er eitt mikilvægasta verkfærið í lýðræðissamfélagi. Við í Kastljósinu höfum, þrátt fyrir mannfæð, reynt að sinna þessu hlutverki af kostgæfni – og sumt hefur tekist mjög vel eins og sagan sýnir.

Frábæru fyrrum samstarfsmenn RÚV. Ég kveð ykkur öll með trega og það hefur verið sannur heiður að vinna með ykkur þennan tíma. Í hverju horni stofnunarinnar er frábært starfsfólk sem hefur það eina markmið að koma efni til almennings í hvaða formi sem það er.

Ég veit að þessi blóðtaka RÚV núna mun bitna mjög mikið á stofnuninni og framtíð hennar. Og ég er ansi hræddur um að enn erfiðara verði að sinna rannsóknarblaðamennsku.

Á þessum tímamótum er framtíð mín óráðin að sjálfsögðu. Ég fer hinsvegar frá RÚV með stór mál sem ég hef verið með í undirbúningi í langan tíma. Sum eru komin stutt á veg – önnur lengra. Verkefnið næstu vikurnar verður að klára málin og finna þeim farveg þannig að almenningur fái upplýsingarnar.

Mínar allra bestu kveðjur til ykkar allra og sérstaklega ykkar sem eftir standa í Kastljósi og öðrum deildum sem koma að vinnslu þáttarins.

Baráttukveðjur,

Jóhannes Kr. Kristjánsson


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *