Kveðjubréf til vímuefna frá tvítugri stúlku

Þetta bréf barst mér frá ungri stúlku sem hefur snúið bakinu við fíkniefnum. Hún hefur verið edrú í nokkrar vikur og bað mig að birta þetta bréf sem hún skrifar til sprautunnar og vímuefnanna.

Mér líður eins og ég sé að kveðja eitthvað stórt og mikið. Kannski er ég að því – ég veit það ekki.

Þú gafst mér upplifun sem ég vil ekki sleppa, en verð að gera það. Það er svo erfitt að sleppa einhverju sem hefur verið með manni svo lengi því það er að drepa mann.

Við eigum margar minningar saman, bæði góðar og slæmar. Það getur enginn tekið frá þér, né mér, hvað þú lést mér líða vel. Ég fékk þráhyggju fyrir þér og ég hugsa um þig endalaust.

Þegar ég heyrði af þér fyrst var ég hrædd við þig, en ákvað samt að bjóða þér inn í mitt líf. Við vorum ágætis „djammfélagar“  – ég og þú. Það leið ekki á löngu þar til það var BARA ég og þú; við urðum eitt.

Þegar ég heyrði af sprautum fyrst ákvað ég að ég yrði aldrei sprautufíkill – ég leit niður á sprautufíkla. En það liðu nokkrar vikur þangað til við brutum öll „prinsippin“ saman. Ég hugsaði með mér; af hverju ekki að brjóta þetta „prinsipp“ líka? Þú varst búin að taka frá mér bestu vinkonu mína sem var heltekin af sprautum og mér fannst ég þurfa að kynnast því líka. Ég varð bara að athuga af hverju besta vinkona mín sóttist svona mikið í þig – „dæla“. En það sem ég veit núna, en vissi ekki þá, er að ég var að leika mér að eldinum.

Fyrsta skiptið okkar „dælu“ saman var ekkert sérstakt, en ég kom til hennar aftur eftir nokkra mánuði. Við vorum saman í smátíma en það var heldur ekkert sérstakt. Ég fór frá þér en hugsaði stanslaust um þig.

Ég veit ekki afhverju en við hittumst á ný, stundum einu sinni í viku, sem var að 2-3 sinnum í viku. Áður en ég vissi af urðum við bestu vinkonur – ég og þú „dæla mín“. Við skemmtum okkur vel, þú og ég. Þú lést mér líða betur en nokkur manneskja sem ég þekki. Þú lést mig gleyma öllu sem ég hef gengið í gegnum – allri vanlíðaninni. Svo léstu mig gleyma að ég ætti fjölskyldu, vini og að ég væri í fullu starfi – því ég þurfti bara þig. Ég get jafnvel haldið því fram að ég hafi verið ástfangin af þér – en þú elskaðir mig ekki til baka. Þú lést mig líka (sem ég virðist gleyma svo oft) líða eins og í helvíti á jörðu. Ég seldi sál mína, líkama minn og allt fyrir ÞIG. Ég fékk ekkert í staðinn. Þú heltókst mig og ég varð veik. Ég vann fyrir þig og þú breyttir mér í djöful í mannsmynd.

Ég gleymi svo oft hvað þú lést mig ganga í gegnum, en ég vil ekki gleyma því. Ég ætla mér að eiga allar þessar slæmu minningar og tilfinningar sem ég hef fundið – tilfinningar sem ég veit ekki einu sinni hvað heita. Allt þetta „góða“ sem ég upplifði með þér eru líka minningar, sem ég mun aldrei gleyma og takk fyrir að sýna mér þær líka.

En ég vil lifa – þess vegna get ég ekki umgengist þig lengur. Mér líður vel í fyrsta skipti í mörg ár. Þetta er eitthvað sem kallast víst alvöru vellíðan.  Ég fattaði það að þú ert ekki sú eina sem getur látið mér líða svona vel. Það tók smá tíma að fatta þetta, en sigurinn minn er sá að ég áttaði mig á þessu – fattaði þetta.

Ég vona og trúi því að við hittumst aldrei aftur – ég og þú. Ég á eftir að sakna þín og hugsa mikið til þín en ég vil ekki koma nálægt þér aftur. Þú breyttir mér í manneskju sem er ekki ég og ég vil ekki vera; einhverskonar skrímsli sem er siðblint og alveg sama um allt.

Þú ert morðingi. En ég fékk annað tækifæri sem ég ætla að nota til að bæta fyrir þau brot sem ég gerði með þér – framkvæmdi til að ná í þig.

Ég vona að ég sjái þig aldrei aftur – en takk samt.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *