Í dag vita flestir hvað fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins er. Fyrir rúmum tveimur vikum vissu það fáir. Enn færri vissu hvernig innleiðing kerfisins hefur gengið og hve miklu af skattpeningum almennings hefur verið eytt í þetta kerfi. Uppljóstrun Kastljóss um tvær skýrslur Ríkisendurskoðunar sem unnið hefur verið að síðan 2004 varpaði ljósi á þetta mál og enn á margt eftir að koma í ljós.
Þessi leki á gögnum frá Ríkisendurskoðun sýnir okkur enn og aftur hvað lekar á gögnum eru mikilvægir fyrir samfélög. Á bakvið lekann stendur fólk sem þolir ekki leyndarhyggjuna – og þorir að koma gögnum til samtaka eða blaðamanna sem það treystir.
Lekar á gögnum sem sýna spillingu, óréttlæti eða hverskyns óáran sem þrífst í samfélögum hafa í gegnum árin vakið mikla athygli og bætt samfélög.

Þessir hafa komið að nokkrum lekum; Kristinn Hrafnsson, Daniel Ellsberg, Gavin Macfadyen, Julian Assange.
Skemmst er að minnast leka Wikileaks á sendiráðsskjölunum. Úr þeim leka urðu til þúsundir frétta í nánast öllum löndum heimsins. Skjölin voru einn af hvötum þess að þjáðar þjóðir hentu af sér oki kúgara og einræðisherra eftir að fjölmiðlar í löndunum sögðu frá spillingunni sem greint var frá í skjölunum. Fjölmargir aðrir lekar hafa skipt miklu máli, t.d. Þegar Daniel Ellsberg kom Pentagon skjölunum til New York Times. Skjölum sem sýndu lygar bandarískra yfirvalda um þátttökuna í Víetnamstríðinu.
Hvað haldið þið að það séu til mörg falin skítamál á Íslandi sem þurfa og ættu að komast upp á yfirborðið, bæði innan úr stjórnkerfinu og viðskiptalífinu? Þau eru mörg. Það eru gögnin sem gilda!