Lögreglu falið að rannsaka dauða Sissu á nýjan leik

Í fyrradag fékk ég bréf sent heim í umslagi merktu ríkissaksóknara. Ég vissi innihaldið; þetta var svar við kæru minni varðandi þá ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að hætta rannsókn á andláti dóttur minnar heitinnar, Sigrúnar Mjallar.

Ég var alla tíð bjartsýnn á að embætti ríkissaksóknara myndi fella ákvörðun lögreglustjórans úr gildi og fela þeim að hefja rannsóknina aftur. Með kærunni sendi ég gögn sem ég hafði sjálfur aflað. Gögn og upplýsingar sem mér fannst sjálfum, bæði sem föður Sigrúnar og borgara í þessu samfélagi, að skiptu miklu máli við rannsóknina á láti 17 ára stúlku sem var undir lögaldri.

Ég get ekki lýst tilfinningunum sem um mig fóru þegar ég las niðurlag bréfsins. Það hljóðar svo;
„Ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 30. ágúst 2011 um að hætta rannsókn málsins með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála, er hér með felld úr gildi og lagt fyrir lögreglustjórann að taka málið til áframhaldandi rannsóknar.“

Ég varð enn ánægðari þegar ég las þessa málsgrein;

„Rétt þykir að málið verði tekið til áframhaldandi rannsóknar og að rannsókn málsins beinist að því hvort brotið hafi verið gegn 215. og/eða 221. gr. almennra hegningarlaga.“

Á mannamáli þýðir þetta að lögreglan mun nú rannsaka málið út frá þessum lagagreinum, þ.e. manndráp af gáleysi annarsvegar og hinsvegar að koma ekki manneskju í nauðum til aðstoðar.

Mér finnst það hinsvegar ekki eðlilegt að ég hafi sjálfur þurft að safna saman gögnum og senda ríkissaksóknaraembættinu. Það á að vera hlutverk lögreglu að rannsaka málin – ekki aðstandanda þess sem deyr. Það er nefnilega mjög erfitt að fara í gegnum alla þá hluti sem snúa að andláti barnsins síns.

Það er fyrst núna sem mér finnst kerfið bera virðingu fyrir lífi dóttur minnar. Hún er dáin, því verður ekki breytt. En núna vonast ég til að andlátið verði rannsakað á réttum forsendum; sem manneskju – en ekki fíkils. Það höfum við öll sem stóðum að Sissu viljað frá upphafi.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *