Mikilvægur styrkur handboltastjörnu

Aron Pálmarsson landsliðsmaður í handbolta hefur ákveðið að styrkja Minningarsjóð Sigrúnar Mjallar um 450 þúsund krónur og þar með tvöfalda þá upphæð sem er til úthlutunar. Aron hafði samband við mig daginn sem auglýsingin um styrki úr sjóðnum var birt og lýsti yfir áhuga að koma að starfi sjóðsins. Hann sagðist hafa fylgst með sögu Sigrúnar Mjallar og umræðunni um fíkniefnanotkun unglinga.

Aron Pálmarsson er fyrirmynd á svo marga vegu. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann náð mjög langt í handboltanum og spilar nú með besta handboltaliði í heimi. Landsmenn, bæði ungir sem aldnir hafa fylgst með þessum unga manni ná ótrúlegum árangri í íþrótt sinni og með framkomu og árangri hefur hann mikil áhrif á fólk, bæði innanlands sem utan.

Aron sagði að honum litist vel á hugmyndafræði minningarsjóðsins; að styða við skapandi verkefni ungs fólks sem er í vímuefna og/eða fíkniefnameðferð á hverjum tíma. Hann sagði einnig að það hefði haft mikil áhrif á sig að sjá ljósmyndir af Sigrúnu Mjöll – ungri stúlku sem lést í blóma lífsins vegna ofneyslu læknadóps.

„Ég er 22 ára og lífið er rétt að hefjast hjá mér. Það verður varla sorglegra en að horfa á eftir krökkum á þessum aldri í gröfina vegna fíkniefnaneyslu,” sagði Aron í símtalinu við mig.

Síðan þá höfum við nokkrum sinnum talað saman í síma. Hann vill kynna sér þessi mál og hefur meðal annars sagt að hann vilji heimsækja unglinga á meðferðarheimilum til að ræða við þá – fá að heyra þeirra sögur og segja sína sögu.

Stjórn Minningarsjóðs Sigrúnar Mjallar er gífurlega þakklát Aroni fyrir hans stuðning, bæði peningalegan og ekki síst hans persónulega stuðning við minningarsjóðinn og þetta málefni. Hans þátttaka í forvarnarmálum á Íslandi á eftir að hafa mikil áhrif og leiða gott af sér.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *