Myndbandsupptaka helsta sönnunargagnið

 

Harpa Björt var 21 árs þegar hún lést í apríl í fyrra.

Tuttugu og fimm ára karlmaður hefur verið ákærður fyrir að hafa ekki komið Hörpu Björt Guðbjartsdóttur til aðstoðar þegar hún lést laugardaginn 30. apríl 2011 vegna banvænnar blöndu af amfetamíni og PMMA. Meðal sönnunargagna í málinu er myndbandsupptaka af Hörpu Björt sem sýnir síðustu mínúturnar í lífi hennar. Maðurinn er einnig ákærður fyrir vörslu 26 gramma af amfetamíni sem fundust í íbúð hans. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. júní og aðalmeðferðin fór fram í dag.

Um andlát Hörpu var mikið fjallað í fjölmiðlum á sínum tíma þar sem talið var að eitrað fíkniefni, PMMA, væri til sölu á götum Reykjavíkur. Samkvæmt fréttum frá Noregi og Hollandi hafa fjölmörg ungmenni dáið þar vegna neyslu á efninu. Lögreglan hér á landi greip því til umfangsmikilla aðgerða eftir að Harpa Björt lést vegna neyslu á efninu og voru fjölmargir handteknir vegna málsins. Samkvæmt heimildum mínum er það mat lögreglu að ekki sé hægt að útiloka að efnið sé enn til hér á landi og að það hafi jafnvel verið framleitt hér. Í frétt RÚV í kvöld er haft eftir Karli Steinari Valssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni að PMMA hafi ekki fundist á götunni frá því síðasta sumar. Það er vonandi að þetta stórhættulega eiturlyf muni ekki skjóta aftur upp kollinum á götunum. Fólk þarf að muna að ung stúlka í blóma lífsins lést vegna þessa efnis – það má aldrei gleymast.

Maðurinn er ákærður samkvæmt fyrstu málsgrein 221. grein almennra hegningarlaga en sú lagagrein hljóðar svo;

221. gr. Láti maður farast fyrir að koma manni til hjálpar, sem staddur er í lífsháska, þótt hann gæti gert það án þess að stofna lífi eða heilbrigði sjálfs sín eða annarra í háska, þá varðar það …1) fangelsi allt að 2 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.

Myndbandsupptakan af Hörpu Björt sem sýnir síðustu mínúturnar í lífi hennar skiptir sköpum í málinu og er helsta sönnunnin fyrir því að ákærði hafi ekki komið henni til bjargar. Ég hef grun um að maðurinn hefði ekki verið ákærður ef myndbandsupptakan væri ekki til staðar. Það finnst mér sorglegt.

Ég hef áður skrifað um nauðsyn þess að sett verði ákvæði inn í lög sem gera það glæpsamlegt að t.d. sprauta aðra manneskju með fíkniefnum/læknadópi og að við því broti sé refsing. Ef manneskjan deyr þá er athæfið ólöglegt og hægt að ákæra fyrir manndráp af gáleysi. Ég vonast til að þingmenn muni taka málið upp á næsta þingi og koma slíkum ákvæðum inn í lög. Með því yrðu varnaðaráhrif sem vonandi verða til þess að fækka andlátum vegna fíkniefnaneyslu.

Ég fagna ákærunni yfir manninum í þessu máli og vil senda fjölskyldunni samúðarkveðjur.

Hér má sjá frétt RÚV um málið í kvöld.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *