Ræða á málþingi – um Sissu

Ræða fyrir málþing á Akureyri – 29. september 2011.

Kæru gestir,
Ég vil byrja á því að þakka fyrir það tækifæri að standa hér í dag og tala um dóttur mína Sigrúnu Mjöll eða Sisssu eins og hún var oftast kölluð. Ég vil líka þakka öllu starfsfólki Laugalands og stúlkunum sem þar eru í meðferð fyrir að standa fyrir minningartónleikunum annað kvöld. Það eru enn til miðar á tónleikana og þá er hægt að kaupa á vefsíðunni www.minningsissu.is. Í mínum huga er Laugaland annar af tveimur stöðum á Íslandi sem skiptir mestu máli í meðferðarstarfi með unglingum sem hafa leiðst út í fíkniefnaneyslu. Og sérstaklega vil ég þakka Pétri Broddasyni forstöðumanni sem flutti hér áðan stórmerkilegt erindi fyrir hans óeigingjarna framlag til þessara mála og einnig vil ég þakka nafna hans Pétri Guðjónssyni fyrir allt skipulagsstarfið fyrir tónleikana. Sissu þótti einstaklega vænt um Laugaland og staðurinn, jafnt sem starfsfólkið skipaði sérstakan sess í hjarta hennar.

Í kvöld ætla ég að fara um víðan völl í ræðu minni. Ég ætla að kynna ykkur fyrir Sigrúnu – þessari einstöku stúlku, sem dó alltof ung. Ég ætla að segja ykkur frá baráttunni sem við áttum í við hana og síðast en ekki síst ætla ég að horfa yfir farin veg og segja hlutina eins og ég sé þá – á mannamáli – og ég ætla ekkert að draga undan. Ég ætla semsagt að segja ykkur nákvæmlega hvernig ég, faðir barns sem lést úr of stórum skammti af fíkniefnum, lít á tilveruna í dag og hvað mér finnst, að megi betur fara. Hér tala ég ekki sem fréttamaður – hér tala ég sem pabbi.

Oft þarf ég að minna mig á að Sissa sé dáin. Ég bara trúi því ekki. En – þetta er sannleikurinn – hún er dáin. Til að þið áttið ykkur á þessu langar mig að láta sálmaskrána úr útförinni hennar ganga hér í kvöld. Þau spor sem ég stend í hér í dag eru spor sem ekkert foreldri ætti að standa í – hvað getur verið erfiðara en að missa barnið sitt? Ekki neitt – bara alls ekki neitt. Og það versta er – þetta þurfti ekki að gerast og það, að Sissa myndi deyja svona ung kom aldrei upp í huga mér. Plönin hennar voru stór á lífsins vegi, en þau breyttust ört. Hún ætlaði sér aldrei – að deyja svona ung. Kona í fjölskyldunni hennar sagði kvöldið sem hún dó; „Þessi elska vildi ekki hjálpina. Hún vildi klára óregluna – en vildi samt ekki verða gömul óreglumanneskja. En hún vildi taka þetta með trompi – hún var svo frökk og þorin. Hún vissi ekki að þetta myndi enda svona. Hún elskaði lífið svo mikið,“ sagði þessi kona og þessi orð lýsa Sigrúnu minni svo ótrúlega vel.

Lífssaga Sissu er ekki löng í árum talin – aðeins 17 ár. En þetta voru fjörug og kröftug ár – hvert og eitt einasta. Frá því hún var farin að skríða sem ungabarn var ljóst að þarna fór fjörugur krakki. Hún klifraði upp um alla veggi og var aldrei kyrr. Hún handleggsbraut sig í baðkarinu og hlaut ótal sár og skrámur í þessari tilraunastarfsemi sinni. Hún varð nánast synd eftir fyrstu sundferðina. Hoppaði án þess að hugsa út í djúpu laugina og spriklaði upp að bakkanum, fór upp úr lauginni og hoppaði aftur. Þegar hún var 6 ára var þægilegt að fara með hana í sund. Ég kom mér yfirleitt fyrir í heita pottinum á stað þar sem ég hafði gott útsýni yfir rennibrautina. Sissa fór hring eftir hring í rennibrautina – og hún gat haldið endalaust áfram. Ég hjólaði mikið með hana þegar hún var lítil. Hún sat í stól aftan á hjólinu og í hverjum einasta hjólatúr öskraði hún þegar við vorum að fara niður brekkur; pabbi, farðu hraðar – hraðar pabbi. Hún vildi alltaf vera á miklum hraða og fór á þeim hraða í gegnum sitt stutta líf.

Sissa var oft erfið – en ótrúlega skemmtileg og uppátækjasöm. Hún reyndi sífellt á mörk okkar foreldrana. Sjáið hana fyrir ykkur standandi við borð í stofunni heima – ýtandi með litla putta á blómapottinn sem stóð á borðinu. Hún ýtti honum varlega en örugglega – alltaf lengra og lengra. Og yfirleitt fór potturinn fram á blábrúnina en sjaldnast fór hann í gólfið. Þetta voru tilraunir hennar við að finna hver mörkin hennar væru – hún vildi kanna hvernig við myndum bregðast við og hvað hún kæmist langt – hvar hún ætti að stoppa áður en hún yrði skömmuð. Og þessa aðferð notaði hún allt fram á sinn síðasta dag.

Sissa var erfið í grunnskóla. Hún átti erfitt með að mynda tengsl og þegar hún var 7 ára var hún greind ofvirk, með athyglisbrest og eitthvað sem kallast mótstöðuþrjóskuröskun – semsagt hún var kröftug, átti erfitt með að einbeita sér og var þrjósk. Þetta bitnaði á samskiptum hennar við bekkjarfélaga sína og eftir greininguna var hún sett á rítalín. Ég og mamma hennar ræddum þetta fram og til baka og eftir að hafa ráðfært okkur við sérfræðinga þess tíma ákváðum við að hún skyldi sett á rítalín. Hún varð rólegri og samskiptin við skólafélagana snarbatnaði. Henni leið miklu betur og skólagangan gekk vel.

En svo varð hún unglingur. Tólf ára gömul var Sissa byrjuð að reykja hass og drekka áfengi. Í fyrstu áttuðum við okkur ekki á þessari neyslu – hún faldi hana mjög vel. Hún fékk að gista hjá vinkonum – og vinkonurnar sögðust gista hjá Sissu – feluleikurinn var hafinn og lygavefurinn fór að spinnast. Svo fór hún að koma seinna heim en samið var um. Hún hætti að mæta í og stunda skólann. Þetta gerðist allt mjög hratt – og við vorum grandalau í fyrstu. Hún var semsagt komin í neyslu þegar við áttuðum okkur á því hvað var að gerast. Hún neytaði að taka rítalínið og varð hröð og stefnulaus.

Þrettán ára gömul fór Sissa í sína fyrstu meðferð á Stuðla – þaðan var hún send af neyðarvistun eftir að hafa horfið heila helgi. Þarna var okkur strax ljóst að ástandið var orðið mjög alvarlegt. Sissa hafði fundið eitthvað sem togaði svo ótrúlega sterkt í hana. Vini og óreglu sem toguðu sterkar en fjölskyldan – stað þar sem engin mörk voru – stað þar sem allt mátti gera. Það er erfitt að ráða við þessa ofsalegu krafta sem þarna búa að baki. En við reyndum heilmikið. Ég og mamma hennar tókum þátt í fjölskyldumeðferðum þar sem reynt var að koma á sáttum milli okkar og Sissu. Við fengum leiðbeiningar um hvernig við ættum að takast á við hana og fá hana til að taka þátt í okkar lífi. En öflin þarna úti voru kraftmeiri.

Sissa var vistuð að minnsta kosti 10 sinnum á neyðarvistun Stuðla. Þangað fór hún yfirleitt í lögreglufylgd. Til að þið áttið ykkur á þessum kröftum sem toguðu í hana – það er vinirnir þarna úti – þá hélt ég henni einu sinni heima yfir nótt því það var allt fullt á neyðarvistuninni. Þessa nótt reyndi Sissa að hlaupa á mig til að komast út. Hún slóst við mig og reyndi að hlaupa mig niður. Hún var tilbúin að gera nánast hvað sem er til að komast út. Út í frelsið. Morguninn eftir kom lögreglan og náði í hana og fór með hana á neyðarvistun.
Annað dæmi um þennan kraft sem togaði sífellt í hana upplifði ég þegar hún var nýfermd. Í fermingargjöf fékk hún að velja á milli þess að fá húsgögn í herbergið sitt eða utanlandsferð þar sem hún mátti velja tvær borgir í Evrópu og á milli þessara borga ætluðum við tvö að fara, í lestum með bakpoka á öxlunum á 10 dögum. Að sjálfsögðu valdi hún ferðalagið. Hún vildi fara frá Róm til Parísar. Og hún var svo ofsalega spennt. En daginn áður en við áttum að fara út lét hún sig hverfa og sagðist ekki vilja fara. Og hún stóð við það – ferðin var aldrei farin – vinirnir toguðu fastar. Seinna, á einu af góðu tímabilunum okkar, sagði hún mér að hún myndi sjá eftir því alla ævina að hafa ekki farið með mér.

Sissa fór þrisvar sinnum í meðferð á Stuðlum, einu sinni á Laugalandi, einu sinni á Háholti, auk þess em hún var send í fóstur vestur í Heydal í Ísafjarðardjúpi. Allar voru þessar meðferðir þvingaðar – þ.e. hún vildi ekki fara og það þurfti úrskurði barnaverndarnefnda sem neyddu hana í meðferð. Hún var á þessum tíma gjörsamlega stjórnlaus.
En meðferðirnar hægðu á henni – og það sem skipti mestu máli – tóku hana úr neyslunni og náðu henni niður á jörðina. Sérstaklega gekk meðferðin hér á Laugalandi vel. Hún útskrifaðist þaðan með glæsibrag og sambandið við mig og fjölskylduna stórbatnaði. Á þessum tíma – sumarið og haustið 2008 áttum við okkar bestu tíma saman – sem í minningunni er mér óskaplega dýrmætur.

Sissa hafði sterka réttætiskennd og á þeim meðferðarheimilum sem hún var á stóð hún oft upp fyrir félaga sína sem voru í meðferð á sama tíma, ef henni þótti brotið á þeim. Starfsmaður á neyðarvistun Stuðla sagði mér nokkrar sögur af henni eftir að hún lést. „Stundum hélt ég að Sissa væri starfsmaður hér,“ sagði þessi starfsmaður. „Hún kom oft inn á skrifstofu til mín, settist við skrifborðið og fór að segja sína skoðun um hitt og þetta sem henni fannst að mætti gera betur eða ef henni fannst á einhverjum brotið,“ sagði starfsmaðurinn. Og hún sýndi mikið frumkvæði á þessum stöðum. Á Laugalandi varð hún fljótt foringi stelpnanna, dró þær út í hin ýmsu verkefni og kenndi mörgum handavinnu. Á Háholti er hún eina barnið sem hefur fengið að gista utan meðferðarheimilisins, en hún komst á námssamning hjá Sauðárkróksbakaríi þar sem hún vann um nokkurra mánaða skeið og bjó á Sauðárkróki. Á þessum tíma ætlaði sér hún að læra bakaraiðnina – og hún sagði mér að hún ætlaði að opna bakarakeðju með Konditori sem sérstöðu.

Hún var tilfinningarík og var mjög næm á líðan annarra sem í kringum hana voru. Rétti fram hjálparhönd ef henni fannst einhver á hjálpinni þurfa. En eins og oft er með tilfinningaríka einstaklinga þá gat hún – og átti í raun auðvelt með að útiloka fólk, refsa því og hafna, sýndist henni svo.
Það eru til margar sögur af henni af þeim meðferðarheimilum sem hún var á – sögum sem ég er núna að safna saman.

Sissa prófaði öll fíkniefni – allt sem hún komst í. 15 ára gömul var hún búin að prófa allt það helsta og reykti kannabisefni að staðaldri þegar hún var í neyslu. Einu sinni mældist hún jákvæð fyrir Metamfetamíni. Hún viðurkenndi að hafa reykt amfetamín úr glerpípu.

Rétt áður en hún varð 17 ára gömul kynntist hún 29 ára gömlum manni. Fíkli sem hefur verið í neyslu læknadóps um árabil. Manni sem kann að notfæra sér ungar stúlkur. Manni sem kenndi henni öll trixin og kynnti henni heim læknadópsins. Á þessum tíma var erfitt fyrir hana að snúa við – hún var orðin alvöru fíkill – í heimi þar sem allt snýst um að ná sér í næsta skammt. Ég ætla síðar í ræðu minni að koma að þessum kafla í lífi hennar. Lokakaflanum hennar.

Sissa upplifði hluti sem ekkert okkar vill upplifa. Stundum, í gegnum fjölmiðla, fáum við innsýn inn í þann heim sem hún lifði í síðustu mánuðina í lífi sínu. Heim þar sem ekkert er heilagt og viðbjóðurinn er allsstaðar. Heim hörðu neyslunnar.

Á síðasta tímabilinu í lífi Sissu var hún farin að átta sig á að hún gæti ekki lifað þessu lífi. Hún leitaði sér sjálf aðstoðar. Fór á tvisvar á Vog og einu sinni í eftirmeðferð á Vík. Hún ætlaði sér svo sannarlega að hætta neyslunni – en þarna úti stóð fullorðinn maður – og lokkaði hana alltaf aftur til sín. Og neyslan byrjaði á nýjan leik. Eftir eina meðferðina sat Sissa í eldhúsinu hjá móður minni, en þær voru mjög nánar. Mamma spurði hana hvort hún hefði ekki viljað sleppa þessum slæma kafla úr lífi sínu. Sissa leit snöggt til hennar og svaraði; „Nei amma, ég er bara 17 ára og er búin að upplifa þetta. Nú bíður mín betra líf. Sumir átta sig ekki fyrr en þeir eru kannski orðnir þrítugir.“

Þegar Sissa dó setti ég mér þrjú markmið – ég vildi búa til einhvern tilgang með þessari sáru reynslu. Markmiðin voru; að búa til sjónvarpsþætti um heim ungu fíklanna og segja sögu Sissu. Að stofna minningarsjóð í hennar nafni sem hefði það eitt hlutverk að styðja við skapandi starf barna sem eru í meðferð á hverjum tíma. Og að skrifa bók um hennar stuttu ævi en líka baráttusöguna hennar og minnar úr kerfinu. Sú bók kemur út á næsta ári.

Þegar ég fór að kafa ofan í heim ungu fíklanna fékk ég áfall. Ég bara trúði því ekki að svona margir unglingar væru komnir í harða neyslu og þá sérstaklega á læknadópi. Ég kynntist þarna og ávann mér traust unglinga sem voru á stað, sem er svo svartur og ljótur að þið getið engan veginn ímyndað ykkur það. Ég kynntist ungum stúlkum sem eru í dag smitaðar af hiv og lifrarbólgu c. Ég kynntist stúlkum sem hefur verið nauðgað hrottalega, beittar líkamlegu og andlegu ofbeldi, stúlkum sem hafa selt líkama sinn fyrir nokkrar pillur af rítalíni. Stúlkur sem voru og sumar þeirra eru enn – á leið beint í dauðann. Og þessar sögur eru ekki bara úr Reykjavíkinni vondu – þær er líka að finna hér á Akureyri og ég þekki nokkrar þeirra.

Þeir krakkar sem leiðast út í neyslu fíkniefna eru oft mjög greind og það var Sissa svo sannarlega. Þau eru líka oft mjög sjálfstæð og úrræðagóð. Það var Sissa líka. Eitt sinn fengum við þau skilaboð frá kerfinu að setja henni þau mörk að annaðhvort færi hún eftir einföldum húsreglum á heimilinu og ef hún gæti það ekki ætti hún að fara út – á götuna. Sissa valdi götuna og þar var hún í sjö vikur. Þá gafst ég upp, kallaði á lögreglu sem flutti hana á neyðarvistun. Hún var svo þrjósk og hún kunni svo sannarlega að bjarga sér.

Það má án efa gagnrýna mig og fjölskyldu hennar fyrir margt um það hvernig við tókum á hennar málum. Það er svo auðvelt en jafnframt erfitt að horfa til baka og sjá núna – þegar hún er dáin – hvernig maður hefði viljað taka á málum. Sektarkenndin er nagandi.

Ég hefði viljað standa betur við bakið á henni í meðferðinni á Háholti. Á þeim tíma var ég búinn að gefast upp og hafði misst alla trú á að hún yrði edrú. Og hún fann það. Ég heimsótti hana tvisvar á Háholt á meðan hún var þar í meðferð.

Ég hefði viljað eiga meira frumkvæði að verkefnum sem við tvö gætum gert saman.

Ég hefði viljað standa miklu betur með henni í gegnum þá erfiðu tíma sem hún upplifði nýkomin úr meðferð.

Ég hefði viljað skilja vandamál og fíknina hennar betur.

Ég hefði viljað safna saman vinum mínum og sækja hana til mannsins sem kynnti hana fyrir heimi sprautunnar og læknadópsins. Ég reyndi að fá kerfið í lið með mér – en svörin voru einföld; við getum ekkert gert. Ég hefði átt að sækja hana.

Ég hefði viljað bjóða henni aftur í lestarferðina milli Rómar og Parísar.

Ég hefði viljað fara með henni oftar í bíó.

Ég hefði átt að opna faðminn minn fyrir henni þegar hún var einhversstaðar ein – af því að kerfið hafði sagt við mig að hún þyrfti að finna sinn botn. Og hún var á götunni.

Ég hefði – ég hefði…..ég veit að það þýðir ekkert að velta sér upp úr þessum hugsunum, en ég veit að þið getið lært af þessum orðum mínum.

Ég hef sjálfur farið í áfengismeðferð. Þar kynntist ég konu á mínum aldri sem var orðin mjög skemmd af mikilli og langvarandi neyslu fíkniefna. Ég sat með henni í grúbbu. Og þar talaði ég um Sissu og hennar neyslu. Þarna var ég búinn að gefast upp. Mér fannst ég ekki geta meira. Ég þyrfti að hugsa um hin þrjú börnin mín og fjölskylduna. Þessi stúlka horfði á mig köldum augum og sagði; „Þú skalt aldrei gefast upp. Það er alltaf von. Ef þú gefst upp verður allt miklu verra.“ Þessi orð skil ég svo miklu betur í dag.

Ég veit að saga Sissu hefur hjálpað mörgum. Til mín hafa leitað bæði unglingar og foreldrar sem hafa sagt mér fallegar sögur af því hvernig sagan hennar fékk þau til að hugsa – og fjölskyldur til að tala saman. Sérstaklega er mér minnistæð ein slík saga sem gerðist nýlega. Hún er um stúlku sem var á einum tíma í meðferð með Sissu. Þessi stúlka hefur verið í mjög harðri neyslu en hefur nú verið edrú í lengri tíma en nokkurntíma áður. Mamma stúlkunnar sendi mér bréf og bað um leyfi til að fara með henni upp að leiði Sissu – sem ég veitti að sjálfsögðu fúslega. Mig langar að lesa brot úr bréfi mömmunnar sem hún sendi mér. „ Ég varð svo snortin eftir ferð okkar að leiðinu hennar Sissu í dag, að ég mátti til með að senda þér línu. Þegar við komum að leiðinu vildi dóttir mín fara ein og því gékk ég í burtu og fylgdist með henni úr fjarlægð. Hún settist við leiðið og sat þar hátt í hálftíma, talaði mikið og að lokum brotnaði hún alveg niður og hágrét. Þarna held ég að hún hafi áttað sig á alvöru málsins, þessarri rússnesku rúllettu sem heimur ungmenna sem eru í neyslu er. Að lokum gat ég ekki horft upp á þetta lengur og fór til hennar og við sátum í langan tíma saman og dóttir mín rifjaði upp allar góðu minningarnar sem þær áttu saman og hvað Sissa hafi verið góð manneskja og hvað sér finnist það ósanngjarnt að þetta hafi skeð fyrir hana. Ég er fegin að hafa farið með henni því það virðist hafa losað um einhverja stíflu hjá henni. Hún hefur aldrei viljað talað um andlát Sissu og hefur ýtt því frá sér. Ég vildi bara deila þessu með þér Jóhannes, þetta var huglúf stund, en líka erfið og óneitanlega sár.“

Þessar sögur hjálpa mér mikið í sorg minni. Og þessvegna langar mig að segja ykkur eina sögu í viðbót. Nokkrum dögum eftir að Sigrún Mjöll var jörðuð hringdi í mig maður. Sá átti frænku sem var 17 ára. Hún hafði verið í neyslu en var á leiðinni á Vog í meðferð. Þessi maður spurði mig leyfis um hvort hann mætti fara með þessa ungu stúlku að leiði Sissu– hann ætlaði að stoppa í kirkjugarðinum á leiðinni á Vog. Ég gaf honum að sjálfsögðu leyfi til þess. Tíminn leið.
Sjö mánuðum eftir þetta símtal sat ég á kaffihúsi og var að ræða við manneskju sem hjálpaði mér mikið í undirbúningi Kastljóssþáttanna. Ung stúlka gekk að mér og sagði; “Ert þú ekki pabbi hennar Sissu?”
“Jú,” svaraði ég.
“Viltu standa upp? Mig langar að taka utan um þig,” sagði unga stúlkan og við féllumst í faðma.
“Ég vil bara segja þér að dóttir þín, hún Sissa, bjargaði lífi mínu. Takk.” Og svo var hún farin. Eitt mannslíf. Og saga Sissu hreyfði við henni – fékk hana til að hugsa og taka ákvörðun. Þessi stúlka á allt lífið framundan og hennar saga á eflaust eftir að hjálpa mörgum.
Saga Sissu hefur líka haft áhrif á samfélagið. Nú, eru allir meðvitaðir um heim læknadópsins – sem rennur úr ranni íslenskra lækna sem ávísa lyfjum til fíkla. Og nú er kerfið að taka við sér. Ég hef upplýsingar um það frá Landlæknisembættinu að útgáfa á lyfseðlum á morfín og önnur lyf hafi minnkaði eftir að saga Sissu kom fram í dagsljósið.

Á þessu borði hérna við hliðina á mér er saga Sissu úr kerfinu. Þessar hundruðir blaðsíðna fjalla um söguna hennar úr meðferðunum og þegar hún var í neyslu. Í öllum þessum bunka er engin heil blaðsíða þar sem skrifað hefur verið um það hvernig henni gekk eftir að hún kom úr meðferð. Kerfið var fegið að losna við hana – fjölskyldan átti ein, að taka við.

Er það eðlilegt að eftir að meðferð barnanna okkar lýkur – og þessar meðferðir kosta samfélagið mikla peninga – að þá taki ekkert við. Engin aðstoð frá kerfinu fyrir krakkana sem eru að stíga sín fyrstu skref út í lífið eftir kannski mikla og erfiða reynslu. Ég stóð oft í þeim sporum að taka á móti Sissu úr meðferð, búinn að undirbúa mig mjög vel og ráðfæra mig við meðferðaraðila um það hvernig taka átti á málum. En – trúið mér – það er ótrúlega erfitt að taka á móti barninu sínu úr meðferð án þess að hafa stuðning. Væri ekki ráð að útbúa gott eftirmeðferðarprógram sem yrði rekið af sveitarfélögunum og ríkinu þar sem krakkarnir fengju verkefni við hæfi og aðlögunartíma til að komast aftur út í lífið. Við foreldrarnir myndum taka þátt í því ferli alla leið. Þetta eru allir þeir meðferðaraðilar sem vinna á gólfinu með krökkunum mér sammála um.

Er það eðlilegt að 29 ára gamall maður geti lokkað til sín 17 ára stúlku – og komist upp með það. Er það eðlilegt að barnavernd geti ekkert gert í því? Er það eðlilegt að lögreglan geti ekkert gert, hvað þá barnaverndarstofa? Er það eðlilegt að nánast hér í næsta húsi hafi karlmenn dópað upp 14 ára stúlku og misnotað kynferðislega fyrir ekki svo löngu? Vitið þið um fullorðna karlmenn hér á Akureyri sem lokka til sín ungar stúlkur og koma þeim upp á sprautuna eins og sagt er á götunni – einungis til að ná stjórn á þeim og geta notfært sér þær? Ég þekki nokkur dæmi. Finnið þessa menn og gerið eitthvað í málunum. Náið stúlkunum frá þessum mönnum og bjargið þeim.

Er það eðlilegt að einhver samevrópsk könnun sýni að neysla grunnskólanema á maríjúana hafi farið örlítið uppá við á síðasta ári? Það vita allir sem koma að löggæslumálum, meðferðar- og forvarnarmálum að þessar niðurstöður eru rangar. Neysla unglinga á neyslu maríjúana hefur stóraukist síðustu ár og í dag finnst unglingum ekkert mál að fá sér smók af grasi. Þau segja; þetta er bara gras. En við skulum muna það að Sissa byrjaði sína fíkniefnaneyslu á kannabisefnum.

Er það eðlilegt að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi hætt rannsókn á láti dóttur minnar? Rannsókn á dauða 17 ára stúlku sem kunni ekki einu sinni að sprauta sig, en samt var hún með sprautuför í hægri handlegg – en var rétthent. Hún var með sprautuför á hálsi og í nára – haldið þið að hún hafi sprautað sig sjálf. Finnst ykkur það eðlilegt að skýrslurnar um rannsóknina á andlátinu séu þynnri en bunkinn sem verður til þegar lögreglan rannsakar innbrot í fyrirtæki?

Er það eðlilegt að ég, faðir stúlku sem lést, hafi sjálfur þurft að fara að rannsaka andlát hennar og skila inn mikilvægum upplýsingum sem ég aflaði til Ríkissaksóknara þar sem ég krefst þess að rannsóknin verði endurupptekin? Afsakið orðbragðið; en give me a focking break eins og einn minn vinur segir þegar hann verður reiður yfir óréttlæti í samfélaginu. Þetta á ekki að vera mitt hlutverk. Lögreglan á að rannsaka allar hliðar á láti 17 ára stúlku sem var undir lögaldri. Lögreglan má ekki og á ekki að stimpla skýrsluna – þessa þunnu – með stimplinum Dópisti.
Er það eðlilegt að yfirvöld barnaverndarmála á Íslandi hafi ekki með neinum hætti brugðist við þegar stúlka undir lögaldri lést vegna of stórs skammts af fíkniefnum?
Er það eðlilegt að barnaverndarkerfið hafi sagt við mig að Sissa væri ekki meðferðartæk á tímabilinu áður en hún kynntist þessum 29 ára gamla manni. Skilaboðin voru – hún þarf að finna sinn botn. Ókei – hún fann sinn botn. En hvað nú?

Ég óska þess heitast að ekkert ykkar eigi eftir að standa í þeim sporum sem ég stend í, hér í kvöld – talandi um látna dóttur mína. Þið megið aldrei gefast upp á börnunum ykkar – sama hvað ástandið verður slæmt. Hafið faðminn útbreiddan og reynið allt til að bjarga þeim ef þau leiðast út í fíkniefnaneyslu. Reynið að skilja líðan þeirra. Eyðið tíma með börnunum ykkar. Sinnið áhugamálunum þeirra. Sýnið þeim áhuga. Og þið skulið aldrei – aldrei nokkurn tímann – hlusta á skilaboð kerfisins þegar það segir; Barnið þitt – þarf að finna botninn sinn. Það eru röng skilaboð.
Takk fyrir.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *