Raunveruleikinn á fallegum föstudegi

Í morgun beið mín bréf sem ég fékk sent nafnlaust í gegnum þessa síðu. Þar sagði náinn ættingi frá ungri konu sem hefur verið í fíkniefnaneyslu í mörg ár og síðustu árin hefur hennar helstu eiturlyf verið læknadópið. “Þegar þetta er skrifað er hún ekki enn búin að ná meðvitund,” skrifaði þessi náni ættingi. Konunni var misþyrmt í nótt; hún var nefbrotin, fingurbrotin, fótbrotin og öll blá og marin. Hún hafði tekið of stóran skammt og var því meðvitundarlaus.

Í morgun hitti ég þennan nána ættingja sem sagði mér sögu konunnar og eftir að ég hafði hlustað hugsaði ég með mér að það væri ótrúlegt að þessi kona væri enn á lífi. Hennar eina von er að verða edrú.

Rétt undir hádegi hringdi í mig stúlka á tvítugsaldri sem ég hafði 4 vikum áður aðstoðað við að komast í meðferð. Ég skildi lítið af því sem hún sagði mér. En þetta skildi ég þó; “Ég vil deyja. Mig langaði það í nótt. Ég fékk mér stóran skammt og hámaði í mig svefntöflur og róandi,” sagði þessi unga stúlka svo ég rétt skildi. Og hún bætti þessu við; “Pældu í því! Ég er svo glötuð að ég get ekki einu sinni fokking dáið – og ég get ekki heldur verið edrú.”

Ég og önnur kona sem hún hefur leitað mikið til fórum á staðinn þar sem hún hafði fengið næturgistingu. Hún var vakandi þegar við komum þangað.

“Það er ógeðsleg ælulykt hérna. Ég er búinn að æla í alla nótt,” sagði hún þegar við komum inn í íbúðina. Við settumst. Hún var ennþá í mikilli vímu.

“Þú þarft að fara upp á spítala,” sagði konan sem var með mér.

“Ég fæ ekkert að fara inn fyrst ég er búin að klúðra þessu,” sagði stúlkan.

“Við skulum allavega reyna,” sögðum við bæði við hana.

Á meðan hún klæddi sig sagði hún hvað hefði gerst í gærkvöldi – það sem hún mundi eftir.

“Ég fékk gott mix og ég var sprautuð í hálsinn,” sagði hún. Þeir sem sprautuðu hana eru fullorðnir karlmenn.

Hún setti fötin sín í Hagkaupspoka og sagði við vin sinn sem einnig var staddur í íbúðinni í mikilli vímu að hún ættti eitthvað fyrir hann að borða.

“Hérna, þú setur bara mjólk í þetta, hrærir og skellir þessu í ísskápinn,” sagði stúlkan og henti tveimur pökkum af jarðarberja Royal búðingi á gólfið.

Uppá bráðamóttöku geðdeildar fórum við með hana. Hún fékk þar viðtal. Og hún komst inn og er þar vonandi núna.

Þessi unga stúlka hefur verið í morfín- og rítalín neyslu í nokkra mánuði. Hún var komin í þrot. Hana langaði að deyja. Vonbrigðin við að falla voru svo gífurleg. Hún vissi að enn eina ferðina væri hún að valda öllum sínum ættingjum miklum áhyggjum – og að engin hefði trú á henni – trú á að hún gæti nokkurntíma orðið edrú.

“Ég fékk mér bara eitt skot með honum,” sagði stúlkan þegar við spurðum hvað hefði komið fyrir í meðferðinni. Gamall neyslufélagi hafði komið í meðferðina – með dóp – og þau sprautuðu sig saman. Hún var fallin – en það sem skiptir mestu máli er að hún vill ekki þetta líf. Hún vill hætta.

Tvær sögur – á fallegum föstudegi. Hvað ætli margir fíklar á Íslandi hafi verið að ganga í gegnum þessa hluti á sama tíma. Margir, og þetta sýnir vel hvað vandamálið er stórt. Læknadópið er nálægt því að taka líf á hverjum einasta degi. Þær voru báðar heppnar að lifa nóttina af.
Svo eru það tvær stórar spurningar; hvaðan fengu þær lyfin? Það vita allir.

Hver deyr næst vegna of stórs skammts? Það veit enginn.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *