Sá ofbeldið út um gluggann og tilkynnti til skólans

Í dag barst Kastljósi bréf frá konu á þrítugsaldri sem horfði á unga drengi beita jafnaldra sinn ofbeldi. Hún greip til sinna ráða, hljóp út og stoppaði þessar stöðugu árásir á drenginn sem stóð samt keikur. Konan fékk þau svör frá skólanum að drengirnir væru þekktir fyrir að leggja samnemendur í einelti – en foreldrar þeirra vildu ekki viðurkenna vandann.

Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum bréfum sem Kastljósi hefur borist í tengslum við umfjöllunina um einelti.

Þessi kona sem sendi bréfið sýnir hvað það er mikilvægt að segja frá eineltinu. Láta vita eins og margir viðmælendur Kastljóss hafa sagt svo mikilvægt að gera – hvort sem það eru foreldrar, vinir eða skólayfirvöld. Aðgerðarleysi á ekki að líðast því einelti hefur grafalvarlegar afleiðingar fyrir þann sem fyrir því verður.

Frá því segir önnur kona sem sendi Kastljósi bréf en hún varð fyrir miklu einelti um árabil. Þessi kona starfar nú sem kennari og hefur snúið sárindunum og reiðinni sem hún hefur borið með sér vegna eineltisins, inn á þá braut að uppræta einelti og aðstoða þá sem á þurfa að halda. Hún hefur jú reynsluna og veit hve sárin verða djúp á sálinni.

Hér er fyrst bréfið frá konunni sem stöðvaði ofbeldið fyrir utan skóla í Reykjavík í gær og tilkynnti það:

Datt í hug að senda á ykkur smá línu þar sem ég sá að þið eruð að ræða um einelti í kastljósinu um þessar mundir.

í gær sit ég við stofugluggann hjá mér og er að spjalla í símann, glugginn snýr beint út á skólalóð [……] skóla og þar eru frímínútur að byrja. Ég sé nokkra stráka í “leik” en svo fer ég að fylgjast betur með og þetta var sko allsenginn leikur. Þarna voru 4 strákar sem láta ekki einn dreng í friði, sparka í hann, kíla, rífa í húfuna og hárið, taka af honum boltann osfrv. aumingjas drengurinn stendur alltaf upp aftur, nær í boltann og heldur áfram að leika við aðra stráka sem standa hjá og þora sig ekki að hreyfa. Þetta gekk á í örugglega 10 mín þangað til ég gat ekki horft á þetta lengur, henti símanum frá mér hoppaði í skó og hljóp út á skólalóð, reif í drengina og skammaði. Um leið og ég mætti á svæðið var einn gerandinn fljótur að byrja að grenja (var reyndar með sprungna vör eftir að þolandinn fékk nóg kíldi aðeins frá sér) og segir við mig.. hann byrjaði bara allt í einu að kíla mig og ég veit ekki afhverju. Ég segi við hann að ég sé búin að vera útí glugga að fylgjast með þeim og þetta sé sko ekki rétt hjá honum, þá hlaupa 2 í burtu en ég tek niður nöfn og í hvaða bekk þeir eru (og þeir eru btw í 4.bekk) svo litlir og aumingjalegir að ég trúi því eiginlega ekki ennþá hvað þeir gátu lamið aumingjas fórnarlambið. En allavega..í þessu kemur útivörður og talar við þolandann, segir honum að hann geti farið inn ef hann vilji en hann vill það alls ekki, harkar af sér. Það lekur eitt tár niður kinnina, ég sé að hann verkjar, í líkama og sál. Ég spurði útivörðinn hvað mér findist og að ég væri búin að vera fylgjast með þeim og þetta væri hreint út ógeðslegt.. Hún segir mér að hún ætli að láta gerendurna 4 inn. 

Ég fer heim alveg titrandi..og ákveð að hringja í skólann. Þar svarar yndæl kona og ég segi henni það sem gerðist út á lóð..á meðan ég tala við hana sé ég að gerendurnir 4 eru enn úti og fylgjast vel með þolandanum sem er að leika sér og yfir honum standa 2 kellingar (útiverðir) og væntanlega spyrja hann spjörunum úr, gerendur hlægja.

En svo hringir síminn og það er kennari þessara drengja, hún vill fá að vita alla söguna, og hvað þeir heita osfrv. Hún segir að það næsta sé að hringja í foreldra þessara drengja. Hún þakkaði mér vel fyrir að hafa brugðist við þessu.

Flestir þolendur segja að þeirra helsta martröð hafi verið frímínútur og að labba í skólaíþróttir. Ég held að það væri hægt að koma í veg fyrir margt af því sem gerist með því að auka fjölda útivarða í frímó og að kennarar taki sig saman í andlitinu og drífi sig út að fylgjast með. Ég meina hvað eru margir kennarar í hverjum skóla, og það eru kannski 2 sem fara út í frímínútur..algjört rugl. Svo er þetta náttúrulega mál okkar allra. Það er ekki nóg að fylgjast með og segja svo; “æjh mér kemur þetta ekki við.”

Hér er hitt bréfið – frá konu sem starfar sem kennari í dag og notar sára reynslu sína til að hjálpa öðrum.

Aðalástæða þessa bréfs er sú að mig langaði til þess að þakka ykkur kærlega fyrir að vekja athygli á því samfélagsmeini sem einelti er. Þetta er mjög þörf og góð umræða sem vonandi á eftir að opna augu margra varðandi þetta mikla vandamál.

Þessi umræða er löngu tímabær og eigið þið hrós skilið fyrir ykkar þátt í að vekja upp umræðu varðandi þetta málefni.

Ég sjálf hef alltof mikla reynslu af einelti þar sem ég var lögð í alvarlegt einelti í æsku, sem stóð frá leikskólaaldri þar til ég var um 16 ára gömul. Ég er alin upp úti á landi í litlum bæ. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir foreldra minna til þess að koma stúlkunni sinni til hjálpar tókst það ekki. Hvorki skólinn, kennarar, foreldrar gerenda né samfélagið í heild sinni voru tilbúin til þess að horfast í augu við það sem var að gerast. Og eineltið var látið viðgangast. Upp úr stóð að litla stúlkan varð fljótlega niðurbrotið fórnarlamb, algjörlega hjálparvana og algjörlega ein í heiminum. Í mínu tilfelli var eineltið sem ég varð fyrir aðallega andlegt.

Ár eftir ár ….já afhverju mætti maður spyrja og það er sanngjörn spurning. afhverju fluttuð þið ekki bara? því enginn vissi hversu alvarlegt ástandið var. Ég þagði. Ég sagði engum frá því hvernig mér leið. Jú foreldrar mínir vissu að mér leið illa og mér var strítt. Einelti er svo falið og það ríkir svo mikil skömm hjá þolendum að oft á tíðum er þeirra reynsla grafin djúpt ofan í sálina og enginn fær þar aðgang. Skömmin var svo mikil að ég vildi ekki láta foreldra mína gera neitt. Ekki vildi ég rugga bátnum og vekja óþarfa athygli á mér. Mér yrði einungis refsað fyrir það í skólanum.

Eineltið stóð í mjög langan tíma eins og ég kom inn á áðan. Ekki lauk því þrátt fyrir að flýja í sveitaskóla nálægt bænum mínum. En ástandið skánaði og ég eignaðist loksins félaga.  

Nú í dag er ég hamingjusamlega gift, tveggja barna móðir og starfa m.a. innan grunnskóla í Reykjavík. Hef ég á mínum 14 ára ferli sem kennari innan grunnskóla átt þátt í því að koma auga á, benda á og aðstoðað við að uppræta einelti. Þannig hef ég getað fengið mína uppreisn æru með því að snúa minni reiði og sárindum upp í vilja til þess að hjálpa og aðstoða þá sem ég augljóslega sé að eru í sömu sporum og litla stúlkan var hér í gamla daga.  

Mín uppbygging hófst þegar ég flutti til Reykjavíkur að loknu grunnskólanámi. Þar fékk ég að vera ég sjálf og með tímanum skapaði ég mér gott og hamingjusamt líf. En það eru svo ofboðslega margir sem ekki komast burt frá eineltinu. Engin hjálp berst eða að hún berst of seint. Í alltof mörgum tilfellum berst engin hjálp, engin líflína berst barninu sem svo mjög þarf á henni að halda.

Vegna þessarar persónulegu reynslu veit ég hversu mikilvæg þessi umræða er og hversu mikilvægt er að grípa inní og ná til þeirra sem eru að lenda í þessari tegund ofbeldis strax. Þegar ég gekk mína þrautagöngu var engin umræða um einelti og lítið var um áhuga og úrræði. Sem betur fer hefur þetta breyst en alls alls ekki nógu mikið. Ef til vill hefði svona umræða, sem þið eruð að ýta úr vör, náð mér til eyrna og sýnt mér fram á að ég var ekki ein í heiminum. Ef til vill hefði slík umræða blásið ráðþrota foreldrum mínum von í brjóst og gefið þeim baráttukraft. Hver veit?

Það eina sem ég veit er að þessi umræða er lífsspursmál fyrir einstaklinga þarna úti sem þjást. Vonandi verður hún líflína fyrir einhvern og það er ykkur að þakka að henni var kastað þarna út í samfélagið.

Takk!!!

Hér að lokum er svo vefsíða hjá Verkefnistjórn gegn einelti en undir því starfar meðal annars fagráð sem hefur meðal annars það hlutverk að taka á þeim eineltismálum sem ekki er hægt að leysa innan skóla. Fagráðið á að hafa úrslitavald í þeim málum að því er Árni Guðmundsson verkefnisstjóri sagði í Kastljósi í kvöld. Vefsíðan er á slóðinni www.gegneinelti.is


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *