Safna saman ljósmyndum og sögum af Sissu

Í haust kemur út bók um Sigrúnu Mjöll dóttur mína heitna sem ég er þessa dagana að skrifa. Bókin verður blanda af hennar sögu og hvernig baráttan við það að koma henni til aðstoðar gekk fyrir sig. Í bókinni ræði ég við fjölda fólks sem kynntist Sissu og reyni að draga upp mynd af síðustu mánuðunum sem hún lifði – í neyslunni.

Fyrir mig er það nauðsynlegt að horfa til baka og reyna að líta á hlutina í samhengi  og átta mig á hvernig ég hefði getað tekið öðruvísi á hennar málum. Þetta er ekki aðeins nauðsynlegt fyrir mig – heldur tel ég að foreldrar barna sem eru komin í neyslu eða eru farin að sýna hegðun sem er varhugaverð gætu lært eitthvað af þessari bók.  Ég semsagt tel að saga Sissu og mín reynsla geti hjálpað. Allur ágóði af bókinni mun renna beint í minningarsjóð Sigrúnar Mjallar sem hefur það eina hlutverk að styðja fjárhagslega við skapandi verkefni ungmenna sem eru í meðferð á hverjum tíma. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum verður þann 22. desember nk. á afmælisdegi Sissu.

En nóg um efni bókarinnar í bili. Ég hef verið að hitta fólk á förnum vegi sem hefur gefið sig á tal við mig – fólk sem hefur á einhverjum tímapunkti átt samskipti við Sissu og hefur sögur af henni að segja. Mig langar að komast í samband við fleiri einstaklinga sem þekktu hana og eru tilbúnir að hitta mig og segja mér frá samskiptunum við Sissu.

Ég er líka að safna saman ljósmyndum af Sissu en ég veit að „þarna úti“ eru til fullt af ljósmyndum af henni sem eru teknar á síma eða myndavélar. Á sama hátt og með sögur af henni langar mig að biðla til fólks sem á ljósmyndir af henni að senda mér þær – annaðhvort með bréfpósti eða með tölvupósti.

Ég vona að sem flestir „deili“ þessari grein á Facebook svo hún nái til sem flestra og gæti þannig skilað árangri.
Heimilisfangið er:
RÚV – Jóhannes Kr. Kristjánsson

Efstaleiti 1

150 Reykjavík

Netfangið mitt er: johanneskr@johanneskr.is

Með fyrirfram þökkum,

Jóhannes Kr. Kristjánsson


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *