Sagan sem enginn vildi heyra

Öll þjóðin áttaði sig á því í september á síðasta ári að einelti er mjög alvarlegt samfélagsmein – þegar Dagbjartur Heiðar Arnarsson, 11 ára strákur í Sandgerði, svipti sig lífi. Á föstudag sögðu foreldrar hans, Kaja Emilsdóttir og Arnar Helgason, sögu Dagbjarts í Kastljósi. Sögu sem aldrei hefði átt að þurfa að segja og enginn vill heyra. En þegar svona voðaatburður verður leggja allir við hlustir og fólki bregður. Kaja og Arnar vilja að sorgleg saga sonar þeirra verði til þess að allt kerfið og samfélagið taki við sér og berjist gegn einelti í hvaða mynd sem það birtist.

Saga Dagbjarts verður að minna fólk á að einelti er hættulegt. Það drepur eins og móðir hans sagði í Kastljósi. Og dauðsföllin eru án efa miklu fleiri eins og ummæli Stefáns Karls Stefánssonar leikara og mikils baráttumanns gegn einelti benda til í Kastljósi í kvöld. Hann sagðist á ferðum sínum um landið hafa hitt foreldra barna sem höfðu svipt sig lífi – foreldra sem sögðu honum að ástæðuna megi rekja til eineltis.

Fjölmargir meðferðaraðilar sem koma að meðferð ungs fólks hafa sagt mér að einelti sé oft rót neyslunnar hjá mörgum unglingnum sem þeir taka inn til meðferðar. Neyslan virðist þá vera leiðin til að deyfa vondar tilfinningar.

Kastljósi hafa borist fjölmörg bréf frá fólki sem lýsir skelfilegri lífsreynslu vegna eineltis. Hér eru tvö þeirra; annað frá ungri konu sem varð fórnarlamb eineltis í grunnskóla og hitt frá konu á miðjum aldri sem varð fórnarlamb eineltis á vinnustað. Bæði bréfin bera vitni um dugnað einstaklinga sem verða fyrir eineltinu – í samfélagi þar sem slíkt þrífst. Því lýsa bréfin.

Hér er bréf ungu konunnar sem barst sl. föstudag:

Ég sá þáttinn í kvöld og átti mjög erfitt með mig, það munaði litlu að mamma mín og pabbi hefðu getað sagt svona sögu fyrir nokkrum árum.

Ég er 23 ára gömul og býð þess bætur á hverjum degi að hafa verið lögð í einelti í mörg mörg ár. Fyrsta atvikið sem ég man eftir var þegar ég var 5 ára og mjög alvarlegt ítrekað einelti átti sér stað frá 9 ára aldri og þar til ég fór í framhaldsskóla. Í dag verð ég ennþá fyrir skítkasti af nokkrum úr þessum hóp. Ég er ennþá að vinna úr mínum málum þótt ég sé orðin þetta gömul, einelti skilur nefnilega eftir sig sár á sálinni sem ekki er til nógu stór plástur á. Ég hef gengið í gegnum ýmislegt og gert tilraunir til að taka mitt eigið líf, sú fyrsta þegar ég var 11 ára gömul eins og Dagbjartur en sem betur fer kunni ég það ekki almennilega og það tókst ekki, samt prófaði ég nokkrum sinnum aftur. Í dag er ég svo þakklát fyrir að það hafi ekki tekist því þá hefðu þau unnið og ég tapað. Ég er sigurvegari í þessari baráttu, ég er sterkari fyrir vikið þótt ég hugsi um þennan tíma á hverjum degi og það særir mig.

Það þarf mun virkari og opnari umræðu um einelti, það þarf að huga mun betur að þeim sem lenda í einelti því því miður eru pínu fordómar gegn þeim sem eru þolendur eineltis. Ég t.d. skammast mín fyrir að hafa verið lögð í einelti og það hefur OFT verið sagt við mig: bauðstu ekki bara upp á þetta og hefðiru ekki getað gert e-ð  og þess háttar. Það er ástæða fyrir því að þolendur eru ekkert að trana sér fram í sviðsljósið og segja sögu sína. Yfirvöld þurfa að vera mun opnari fyrir umræðum um þessi mál, forvarnafræðsla þarf að vera mun meiri og virkari, það þarf að byrja hana snemma á skólagöngunni og það þarf líka að kenna fullorðnu fólki hvernig koma eigi fram við náungann.

 

Hér er hitt bréfið:

 

Ég var 45 ára, dugleg, lífsglöð kona, þegar ég byrja á nýjum vinnustað.

Þar var fyrir hópur kvenna sem var búinn að vera lengi á þessum vinnustað.

Ekki leið á löngu þar til þær fóru að sýna undarlega hegðun.

Pískur, baktal, hæðni, uppspunnar sögur um mig.

Þetta varð brátt mitt daglega líf.

Ég skildi bara ekki af hverju þær voru svona andstyggilegar.

Boltinn stækkaði og fleiri og fleiri fóru að sýna mér leiðinlega framkomu í vinnunni.

Það virðist vera sterkt í eðli fólks að vera viðurkenndur af hópnum.

Að gera það sem meirihlutinn gerir.  Þó var ein kona sem skar sig úr.  Hún var alltaf góð við mig.

Tíminn leið.

Útskúfun, hunsun, fyrirlitning, sett út á allt sem ég gerði og allt sem ég gerði ekki.

Þannig leið heilt ár.

Ég var ekki boðin með þegar vinnufélagarnir fóru á jólahlaðborð.

Þá, þegar ég var skilin ein eftir – og ekki fyrr, datt mér í hug að hugsanlega væri um einelti að ræða.

Mér hafði ekki hugkvæmst að ég gæti orðið fórnarlamb eineltis, 45 ára heilbrigð, venjuleg kona.

Þá fyrst las ég mér til um einelti og sá ég að allt passaði.

Afleiðingar eineltis eru m.a. slæmt niðurbrot á sjálfstrausti á mjög skömmum tíma.

Ég get heldur ekki neitað því að sjálfsvígshugsanir komu upp í hugann þegar mér leið hvað verst.

Mig langar að koma því á framfæri að  fullorðnir, sterkir, einstaklingar geta orðið fyrir einelti.

Það eina sem þarf er óvirkur yfirmaður og sýkt andrúmsloft á vinnustað.

Það eru til ágætar vefsíður þar sem hægt er að fræðast um einelti. Hér eru þrjár þeirra:

www.kolbrunbaldurs.iswww.olweus.iswww.regnbogaborn.is

Kastljós heldur áfram að fjalla um einelti og ef þú hefur ábendingu sendu hana þá á kastljos@ruv.is eða netfangið mitt hér á síðunni: johanneskr@johanneskr.isWarning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *