Það er malbikað vestur

Ég á enn nokkra félaga sem hafa aldrei komið til vestfjarða. Í síðustu viku kom einn félagi minn vestur með flugi og hafði aldrei stigið fæti þar. Ég sótti hann á flugvöllinn. „Þetta var rosalegt flug. Og aðflugið maður – vélin rétt strauk fjallið,“ sagði hann með bros á vör. Ég held því fram að það sé meira að segja gaman fyrir flughrædda að fljúga til Ísafjarðar í góðu veðri og upplifa beygjuna sem vélin tekur í aðfluginu. Það er alveg magnað.

Það er alltaf gott að koma vestur. Maður fær kraft úr fjöllunum og það er sama hvert maður fer – allsstaðar blasir fegurðin við. Og svo er alltaf nóg að gera fyrir vestan.

Á síðustu árum hafa fyrirtæki í ferðaþjónustu byggt sig upp og bjóða núna upp á ferðir víða um vestfirði sem helst útlendingar sækja. Dagsferðir og lengri ferðir – fjölbreyttar ferðir sem eru vel sóttar yfir sumartímann. Þessi fyrirtæki draga til sín fjölda útlendinga og skapa störf fyrir vestan.

Fyrir mig sem vestfirðing er líka jákvætt að upplifa það að núna getur maður fengið dýrindismáltíðir á veitingastöðum Ísafjarðar og í bæjunum í kring. Matseðillinn er orðinn þéttari og það er boðið upp á steikur og fiskrétti. Allt jákvætt fyrir fjórðunginn.

Og  fyrir vestan hittir maður kynlega kvisti; skemmtilegt fólk sem hefur upplifað tímana tvenna. Menn og konur sem hafa alla tíð unnið eins og skepnur og eru algjörir sagnabrunnar þegar fólk gefur sér tíma til að setjast niður með þeim. Þetta fólk er ekki að kvarta – en hefur skoðanir á flestum hlutum. Fólk sem talar mannamál og það kann maður við.

Sjómennirnir eru sérkapituli útaf fyrir sig. Þessir gömlu sem allt hafa upplifað og sóttu sjóinn frá barnsaldri. Þeim fer nú fækkandi og þeir eru fáir púkarnir sem fá að fara á sjóinn fyrir fermingaraldurinn.

Þessi félagi minn sem ég náði í á völlinn upplifði vestfirðina á jákvæðan hátt. Honum fannst landslagið magnað, bæjirnir fallegir og mannlífið fjölbreytt. „Hér eru allir tilbúnir að hjálpa manni – fólk leggst í símann til að aðstoða mann og það er ekki hætt fyrr en málunum er reddað,“ sagði hann og hafði þá keypt gjöf handa starfsmanni ferðaþjónustufyrirtækis sem aðstoðaði hann. Ég sagði honum að svona væru vestfirðingar upp til hópa.

Svo á ég nokkra vini sem segja að vegirnir vestur séu svo slæmir. Það er kjaftæði því nú er malbikað alla leið og ferðin vestur tekur 5-6 tíma.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *