Þakklæti

Andi Sissu, dóttur minnar heitinnar svífur yfir vötnum í kvöld. Það finn ég á þeim viðbrögðum sem ég hef fengið frá ótrúlegum fjölda fólks í formi símtala, sms-a og tölvupósta. Enn og aftur finn ég fyrir örvæntingu foreldra, sem í kvöld hafa verið að senda mér sögu barnanna sinna, sem eru látin vegna fíkniefnaneyslu, edrú eða enn í neyslu. Sögurnar eru allar svipaðar. Sumar enda með sorginni, sumar eru stanslaus barátta en sumar enda vel.

Í nærri því eitt ár hef ég undirbúið mig undir þessa stund í kvöld. Ég ákvað fljótlega eftir lát Sigrúnar Mjallar dóttur minnar, að hennar saga yrði sögð – sögð til að hafa áhrif og kannski bjarga mannslífum – þó ekki væri nema einu. Mannslífin sem hún bjargaði eru þó miklu fleiri því strax eftir andlát hennar fengum við, stórfjölskylda hennar, fréttir af ungum krökkum sem hefðu hætt neyslu eftir að hafa heyrt um andlátið.

Nokkrum dögum eftir að Sigrún Mjöll var jörðuð hringdi í mig maður. Sá átti frænku sem var 17 ára. Hún hafði verið í neyslu en var á leiðinni á Vog í meðferð. Þessi maður spurði mig leyfis um hvort hann mætti fara með þessa ungu stúlku að leiði dóttur minnar – hann ætlaði að stoppa í kirkjugarðinum á leiðinni á Vog. Ég gaf honum að sjálfsögðu leyfi til þess.

Fyrir þremur mánuðum sat ég á kaffihúsi og var að ræða við manneskju sem hefur hjálpað mér mikið í undirbúningi að Kastljósþáttunum sem verða sýndir í næstu viku. Ung stúlka gengur að mér og segir; “Ert þú ekki pabbi hennar Sissu?”

Jú,” sagði ég.

Viltu standa upp? Mig langar að taka utan um þig,” sagði unga stúlkan og við féllumst í faðma.

Ég vil bara segja þér að dóttir þín, hún Sissa, bjargaði lífi mínu. Takk.” Og svo var hún farin. Eitt mannslíf. Og saga Sissu hreyfði við henni – fékk hana til að hugsa og taka ákvörðun. Þessi stúlka á allt lífið framundan og hennar saga á eflaust eftir að hjálpa.

Kvöldið sem Sigrún Mjöll lést lét kona í fjölskyldunni þessi orð falla um dóttur mína; „Þessi elska vildi ekki hjálpina. Hún vildi klára óregluna – en vildi samt ekki verða gömul óreglumanneskja – en vildi samt taka þetta með trompi. Hún var svo frökk og þorin. Hún vissi ekki að þetta myndi enda svona. Hún elskaði lífið svo mikið.“

Sigrún Mjöll vildi ekki deyja. En hún dó. Partýið var búið eins og kom fram í viðtalinu í kvöld.

Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir öll hlý skilaboð og sögurnar frá foreldrum og aðstandendum fíkla, núverandi eða fyrrverandi. Ég vona að foreldrar og börnin þeirra muni horfa á það sem framundan er í Kastljósi. Þar koma fram staðreyndir sem eru sláandi. Staðreyndir sem fjölskyldur þurfa að ræða og vera meðvitaðar um. Þegar Sissa tók fyrsta smókinn af hassinu sem hún reykti 13 ára gömul – vissi hún ekki að hún yrði dáin fjórum árum síðar. Það er hin kalda staðreynd.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *