Þurfti aðstoð handrukkara við að ná 15 ára dóttur sinni úr dópgreni

Í gærkvöldi fékk ég bréf frá móður 15 ára stúlku sem er komin í fíkniefnaneyslu. Í bréfinu lýsir hún baráttu sinni við að bjarga dóttur sinni – baráttu sinni við kerfið. Hún lýsir því í bréfinu hve afskipt barnaverndanefnd er varðandi dóttur hennar. Þegar upp kemst um að dóttirin, sem fyrst „datt í það“ 11 ára gömul, væri farin að nota kannabisefni voru svörin frá Barnaverndanefnd þessi samkvæmt lýsingu móðurinnar; „Ég gekk enn á vegg. Þegar ég minntist á það að nú hlytu einhver úrræði að vera þar sem stelpan væri komin í kannabisneyslu, var flissað og svarið var; „það telst nú varla neysla, hún þarf að vera komin í mun harðari efni til að við grípum inní. Dóttir þín kemst ekki með tærnar þar sem börnin sem við erum að hjálpa eru með hælana.“

Stúlkan hefur verið út á landi í vist í nokkrar vikur á vegum fjölskyldunnar. Svo kom dóttirin í Páskafrí og datt í það. Eftir að hafa verið sótt í partý strauk hún aftur út af heimilinu og fannst síðar í miðbænum, í húsnæði þar sem í voru nokkrir fullorðnir karlmenn. Móðirin fékk aðstoð frá handrukkara sem þekkir undirheimana vel til að ná í dóttur sína. Svona lýsir hún framhaldinu;

„Í fyrstu fengum við ekki inngöngu inn á heimilið en eftir hótanir af hans hálfu fékk ég að fara inn og ná í hana. Ástandi barnsins er ekki hægt að lýsa. Aðkoman var hryllileg, hún var inn í lokuðu herbergi á þunnri dýnu. Þar lá hún í hnipri og starði út í loftið hreyfingalaus. Ég náði ekki neinum kontakt við hana og hélt að hún væri dáin. Eftir að hafa athugað með púls og klappað henni í smá stund fór ég að sjá hana hreyfa augun og eftir nokkrar mínútur (að ég held) var hún byrjuð að tjá sig. Hún vissi þó hvorki í þennan heim eða annan, hún þekkti mig ekki til að byrja með og skyldi ekkert af því sem ég sagði. Ég fékk hana þó með mér heim en stuttu eftir að komið var þangað, snérist hún upp í andhverfu sína, kallaði okkur öllum illum nöfnum og tilkynnti okkur að hún ætlaði að fara,“ skrifar móðrin.

Stúlkan er nú neyðarvistuð á Stuðlum. Móðirin er bjargarlaus og segist ekki treysta sér til að taka við dóttur sinni í því ástandi sem hún er. Hún vill að hún komist í viðeigandi meðferð og skrifar um þetta í bréfinu;

„Mér finnst það hreinlega skítt að maður geti ekki fengið viðeigandi meðferð fyrir börnin okkar öðruvísi en að ganga svo langt að afneita þeim. Þessir starfshættir geta ekki verið eðlilegir. Þetta eru börnin okkar. Það sem mér finnst þó ennþá verra er að þrátt fyrir að öll viðvörunarljós væru kveikt og þeir gætu séð í skýrslum sem þeir höfðu undir höndum að hún væri í frjálsu falli niður í ræsið, að ekkert úrræði sé til staðar til að koma í veg fyrir að börn í þessari stöðu fái hjálp. Það er ekkert úrræði. Ekkert net sem grípur þau áður en þau lenda á botninum. Engin forvörn. Hún er 15 ára og fjármagnar neysluna með líkama sínum.“

Frá því ég sagði sögu Sissu dóttur minnar hafa margir tugir foreldra haft samband við mig og óskað eftir aðstoð með börnin sín. Það eina sem ég hef getað gert er að hvetja þau til að berjast fyrir börnin sín og ekki síst hlusta á söguna þeirra og veita þeim ráð byggð á minni reynslu. (Sjá til dæmis þessa færslu: http://johanneskr.is/raeda-a-malthingi-um-sissu/)

Saga móðurinn og dóttur hennar sem lýst er í bréfinu er saga margra foreldra í dag. Saga hennar er sama saga og ég sagði þegar dóttir mín var látin. Fjölmargir berjast fyrir börnin sín en búa við kerfi sem hefur ekki tök á að aðstoða. Þetta kallast að búa við falskt öryggi. Foreldrar halda að kerfið geti aðstoðað þá þegar börn þeirra eru komin í neyslu – en svo er ekki.

Ég er í sambandi við fjölmarga starfsmenn meðferðarheimila sem starfa á landinu, bæði núverandi og fyrrverandi. Enginn þeirra er ánægður með stöðuna eins og hún er í dag. Þessir núverandi og fyrrverandi starfsmenn segja að það þurfi að „taka til“ í kerfinu öllu. Endurskipuleggja það með áherslu á börnin sem þurfa á aðstoðinni að halda. Börn sem eru að byrja í neyslu fíkniefna og eru ekki sokkin djúpt. Börn sem hægt er að draga út úr þessum heimi sem versnar með hverri vikunni sem barnið er í honum.

Ég vona að bréf móðurinnar verði til þess að dóttur hennar verði hjálpað og að allar þær fjölskyldur þarna úti sem eiga ungling í neyslu geti treyst því að hér á Íslandi verði byggt upp meðferðarkerfi sem raunverulega aðstoði börnin þeirra.

Hér er bréf móðurinnar í heild sinni sem hún sendi mér og einhverjum stjórnmálamönnum:

Málið er að við maðurinn minn eigum saman 4 börn, tvær stúlkur og tvo drengi. Næst elsta barnið okkar, 15 ára stúlka, hefur alla tíð átt félagslega erfitt, sem skýrist kannski einna best á hennar greiningu, en hún er ofvirk með athyglisbrest, mótþróaþrjóskuröskun og mikla hvatvísi. Síðan hún var 5 ára, hefur stanslaust verið unnið með hana af sálfræðingi og barnasérfræðingi á þessu sviði. Hafa þessir aðilar unnið markvisst með atferlismótandi hegðun , en þrátt fyrir það höfum við hjónin misst hana út í fíkniefnaneyslu. Hún var einungis 11 ára þegar hún „datt í það“ í fyrsta sinn.

Það eru 3 ár síðan við tilkynntum hana fyrst til barnaverndarnefndar, eins og okkur ber skylda til sem foreldrar. Viku síðar fengum við bréf um að hennar máli sé lokið af þeirra hálfu. Hvorki var rætt við okkur né barnið. Eftir þetta voru tilkynningarnar fleiri, hún strauk nokkrum sinnum, var tekin ásamt fleiri stelpum fyrir búðahnupl, slagsmál, fíkniefnaneyslu o. fl. o. fl. Alltaf fengum við sömu viðbrögð frá barnaverndarnefnd, bréf viku seinna þar sem þeirra afskiptum var lokið.

Ég hef reynt að ná sambandi við barnaverndarnefnd nokkru sinnum, pantað símatíma, reynt að hringja, og ætlað að panta viðtalstíma, en undantekningalaust fæ ég svarið, það verður hringt í þig. Aldrei hef ég fengið þessi símtöl. Ég var ekki að skammast, ekki að agnúast eða neitt slíkt, það eina sem ég vildi var að fá leiðbeiningar um það hvaða leiðir ég gæti farið til þess að beina henni inn á réttu brautina aftur. Eitthvað ferli sem hægt væri að fylgja eða bara upplýsingar um þjónustu sem væri í boði. En ég gekk allsstaðar á vegg.

Ég vil þó taka það fram, að ég get ekki undir neinum kringumstæðum í þessu ferli, kvartað yfir lögreglunni. Hún hefur alltaf beitt öllum þeim ráðum sem þeir hafa til að aðstoða eftir fremsta megni. Málið snýr engan vegin að því, heldur að barnaverndarnefnd, sem er undir barnaverndarstofu. Málið er kannski það, að aðgengi að lögreglunni þegar svona mál koma upp, er ekkert fyrr en eftir 24 tíma, eða svo gott sem. Dæmi um það má nefna, að í eitt af þeim skiptum sem dóttir okkar strauk, hringdi ég og tilkynnti það. Þar sem ekki var komið miðnætti vildi barnaverndarnefnd bíða með tilkynningu til lögreglu. Var ég því beðin um að bíða og sjá hvort hún kæmi ekki heim. Lögreglu yrði þó tilkynnt um málið eftir miðnætti. Hópur fólks fór þó að leita og um 3 leytið vildi svo til að við eitt húsið, hittum við lögregluna. Taldi ég það fullvíst í minni einfeldni að lögreglan væri að leita að mínu barni, en svo var þó ekki, það var verið að leita að öðrum börnum. Það var ennþá ekki komin tilkynning til þeirra um hennar hvarf, en samt sem áður fylgdu þeir mér eftir og gengu hús úr húsi til að leita að henni en notuðu þó nöfn annarra barna sem búið var að tilkynna um. Finnst mér lögreglan eiga hrós skilið fyrir sín störf að öllu leyti.

Í þau skipti sem ég hringdi og tilkynnti hana spurði ég nokkru sinnum um það hvað ég gæti gert, hvert ég gæti leitað en svörin voru, þú verður bara að panta tíma, þetta er bara bakvakt sem svarar hér. Úrræði eru engin á meðan barnið er ekki í neyslu. Auðvitað kom að því að barnið fór í neyslu enda sótti hún stíft í óæskilegan félagsskap sem tók henni vel og bauð hana velkomna inn í þennan heim.

Ástandið var orðið mjög slæmt síðasta vetur en þar sem fíkniefnapróf komu út neikvæð, var ekkert hægt að gera. Á endanum viðurkenndi hún fíkn sína. Ég ásamt skólanum hennar tilkynntum þetta til barnaverndarnefndar en samt voru úrræði engin. Ég gekk enn á vegg. Þegar ég minntist á það að nú hlytu einhver úrræði að vera þar sem stelpan væri komin í kannabisneyslu, var flissað og svarið var; „það telst nú varla neysla, hún þarf að vera komin í muun harðari efni til að við grípum inní. Dóttir þín kemst ekki með tærnar þar sem börnin sem við erum að hjálpa eru með hælana.“ Það var því ákveðið að um seinustu áramót að hún færi út á land og kláraði 9. bekk. Það liðu þó ekki nema 2 dagar frá því að hún kom út á land og þar til að lögreglan hafði afskipti af henni. Eftir það hafði ég samband við lögregluna á staðnum og gaf henni fullt leyfi til að stökkva inn í ef hún teldi að eitthvað væri í gangi (þetta er hægt út á landi, þar sem allir þekkja alla, burt séð frá því hvort það flokkist undir starfssvið þeirra eða ekki). Dóttir mín gerði sér eftir þetta, grein fyrir því að lögreglan væri með augastað á henni, og hefur hún náð að halda sér hreinni fyrir þar sem hún dvelur. Samt sem áður á hún við mikil agavandamál að stríð þar, eins og hér í Reykjavík.

Dóttir okkar kom svo heim í páskafrí fyrir rúmri viku. Fyrstu dagarnir gengu bærilega þó að erfitt væri að ná henni heim á umsömdum tíma. En á páskadag kláraðist úthaldið á edrúmennsku hennar og hún stakk af. Bróðir hennar fann hana í partýi í miðbænum um klukkan 3. Hún hafði þá verið þar nakin bróðurpart kvöldsins, undir áhrifum spítts og kannabisefna. Aðstoð þurfti til að ná henni heim og ákvað ég að sofa fyrir hurðinni hennar svo hún næði ekki að stinga af. Allt kom fyrir ekki, stúlkan stakk af og leitin hófst að nýju. Barnavernd var látin vita og mér var tilkynnt að lögregla gæti ekki komið að máli fyrr en um kvöldið þegar auglýst yrði eftir henni. Við fórum að leita og um kvöldmatarleytið þóttumst við vera búin að finna hana. Við vorum þó engan vegin viss og höfðum enga staðfestingu á því, en vissum að þetta væri greni sem glæpasamtök væru með á leigu. Kom ég mér í samband við mann sem ég vissi að hefði einhverja tengingu við undirheimana og hann féllst á að koma með okkur. Í fyrstu fengum við ekki inngöngu inn á heimilið en eftir hótanir af hans hálfu fékk ég að fara inn og ná í hana. Ástandi barnsins er ekki hægt að lýsa. Aðkoman var hryllileg, hún var inn í lokuðu herbergi á þunnri dýnu. Þar lá hún í hnipri og starði út í loftið hreyfingalaus. Ég náði ekki neinum kontakt við hana og hélt að hún væri dáin. Eftir að hafa athugað með púls og klappað henni í smá stund fór ég að sjá hana hreyfa augun og eftir nokkrar mínútur (að ég held) var hún byrjuð að tjá sig. Hún vissi þó hvorki í þennan heim eða annan, hún þekkti mig ekki til að byrja með og skyldi ekkert af því sem ég sagði. Ég fékk hana þó með mér heim en stuttu eftir að komið var þangað, snérist hún upp í andhverfu sína, kallaði okkur öllum illum nöfnum og tilkynnti okkur að hún ætlaði að fara. Á meðan á þessu stóð, var ég að tilkynna neyðarlínunni að hún væri komin heim. Einhverra hluta vegna fékk ég samband við lögregluna í staðin fyrir barnaverndarnefnd. Lögreglumaðurinn sem ég talaði við, heyrði í henni og spurði mig að því hvort ég vildi ekki fá bíl heim til að reyna að róa stelpuna niður, sem ég þáði. Hún varð ekki ánægð með það og eftir einhver orðaskil milli þeirra, náði hún að hlaupa í burtu. Lögreglan fór á eftir henni, náði henni niður í götuna en réði ekki við hana einn. Það þurfti tvo fílelfda lögreglumenn til að halda henni og handjárna og koma henni inn í lögreglubíl. Hún var sett í neyðarvistun á Stuðlum. Enn er hún staðráðin í því að fara strax aftur á götuna þegar hún losnar.

Mér fannst það hart að barnaverndarnefnd tæki það fram að vanalega fengju börn ekki að vera lengur inn á Stuðlum í fyrstu vistun heldur en 1-2 sólarhringa. Ég ákvað því að neita að taka við henni inn á heimilið, hún væri á þeirra ábyrgð. Það var því ákveðið í framhaldi af því að vista hana í hálfan mánuð. Ekki er vitað hvað tekur við eftir það.

Mér finnst það hreinlega skítt að maður geti ekki fengið viðeigandi meðferð fyrir börnin okkar öðruvísi en að ganga svo langt að afneita þeim. Þessir starfshættir geta ekki verið eðlilegir. Þetta eru börnin okkar. Það sem mér finnst þó ennþá verra er að þrátt fyrir að öll viðvörunarljós væru kveikt og þeir gætu séð í skýrslum sem þeir höfðu undir höndum að hún væri í frjálsu falli niður í ræsið, að ekkert úrræði sé til staðar til að koma í veg fyrir að börn í þessari stöðu fái hjálp. Það er ekkert úrræði. Ekkert net sem grípur þau áður en þau lenda á botninum. Engin forvörn. Hún er 15 ára og fjármagnar neysluna með líkama sínum.

Ég get því ekki annað en velt því fyrir mér, í aðdraganda kostninga, hver ykkar afstaða er varðandi þessi mál. Ætlið þið ykkur að taka á þessum málum, eða verður þessum jaðarhóp sópað undir teppið með tilheyrandi niðurskurði á næstu árum?

Það er kannski ekki við hæfi að „selja“ atkvæði sín svona, en eitthvað verður að gera. Ég get ábyrgst það að stór hópur, þar með talið mikið af nýjum kjósendum, velta þessum málaflokki fyrir sér og furða sig á því að enginn flokkur lætur sig hann varða.

Það áttar sig enginn á þeim áhrifum sem neysla barna hefur á fjöldskylduna og alla þá sem að henni standa. Þetta mál er langt frá því að vera einsdæmi og margir í mun verri stöðu. Það er því okkar einlæg ósk, að fá við ykkur að ræða. Okkar atkvæði fer ekki í kassan þetta árið nema einhver sé tilbúinn til að taka þetta málefni upp. Hins vegar munum við áfram leita allra leiða til að finna farsæla lausn, ekki bara fyrir okkar barn heldur allra þeirra sem eru í erfiðri stöðu og koma að lokuðum dyrum. Næsta skref okkar er að fara í fjölmiðla í þeirri von að einhver vakni og sé tilbúin til að betrumbæta það kerfi sem ætti að geta virkað vel í þjóðfélaginu en er meingallað.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *