Tveir rauðir

Ég var nýorðinn 10 ára þegar ég fékk fyrst útborguð laun. Tvo rauða – eitt þúsund krónur. Ég hafði unnið á verkstæðinu hjá pabba við að setja pakkningasett í olíudælur um veturinn – á hverjum einasta laugardegi var ég mættur með pabba  á verkstæðið. Árið 1982 voru tveir rauðir miklir peningar og sérstaklega fyrir 10 ára gutta.

Um sumarið fór ég í sveitina – beint í sauðburð og vinnu. Ég vatnaði þeim kindum sem voru stíaðar af, gaf lömbum sem fengu ekki næga mjólk hjá móður sinni og sinnti öðrum hefðbundnum sveitastörfum. Frændi minn, 8 ára stóð vaktina með mér. Seinasta sumarið sem ég vann sem vinnumaður í sveitinni var þegar ég var 16 ára.

Ég fór aftur vestur nýkominn með bílpróf, 17 ára gamall. Ég byrjaði að vinna í frystihúsinu á Þingeyri en markmiðið var að komast á sjóinn. Þá voru tveir togarar sem gerðu út frá plássinu; Framnes og Sléttanes. Fyrsta vinnudaginn minn í frystihúsinu kom Framnesið í land í hádeginu. Ég ákvað að fara niður á bryggju og reyna að ná tali af skipstjóranum. Dauðstressaður fór ég um borð og upp í brú. Þar stóð vaktina Skúlí Elísson skipstjóri. Harður nagli sem fæddist sjómaður.

„Hvað vilt þú ungi maður?“ spurði Skúli mig þegar ég kom í brúna.

„Ég ætlaði bara að athuga hvort ég gæti fengið vinnu hjá þér,“ sagði ég skjálfraddaður.

„Já. Hefðurðu verið á sjó áður?“ spurði Skúli.

„Nei, ég byrjaði í frystihúsinu í morgun og hef unnið við að landa upp úr bæði Sléttanesinu og Framnesinu.“

„Áttu sjógalla?“

„Nei en ég á stígvél,“ svaraði ég eins og asni.

„Það er ekki nóg að vera í stígvélum. Þig vantar sjóstakk,“ sagði Skúli höstum rómi.

„Mig vantar mann um borð þennan túr, en þetta er ekki starf fyrir neina aumingja.“

„Ég veit,“ svaraði ég  og hálfkoðnaði niður. Skíthræddur við þennan harða kall.

„Drífðu þig upp í kaupfélag og keyptu þér sjóstakk. Farðu svo og skráðu þig um borð hjá Andrési. Við förum út í kvöld,“ sagði Skúli. Ég fór úr brúnni og beint í kaupfélagið.  Um kvöldið fór Framnesið út. Mér var sagt að gefa kjölsvíninu og hlustaði á
hryllingssögur af mönnum sem höfðu kramist til bana á Gilsinum. Svo var ég settur í nálakörfuna. Á Framnesinu var ég allt sumarið á Grálúðuveiðum og þénaði ógurlega. Fór ríkur í skólann um haustið. Næsta sumar fékk ég aftur pláss og líka um jólin þar á eftir.

Frá því ég skrönglaðist upp í brúna hjá Skúla skipstjóra hef ég sótt um margar vinnur, bæði á sjó og landi og unnið við margskonar störf; allt frá sveitastörfum til sjómennsku, til dyravörslu og byggingavinnu og allt þar á milli. Það er hægt að segja að ég hafi góða reynslu úr hinu almenna atvinnulífi.

Í gær hitti ég bakara við tjörnina í Kópavogi. Þar var hann að gefa öndunum eða réttara sagt mávunum brauð ásamt dóttur sinni. Hann gaf sig á tal við mig og fór að blóta kerfinu.

„Það er bara þannig að við fáum ekki íslendinga til að vinna í bakaríinu. Við höfum margoft auglýst eftir fólki og einu svörin sem við fáum eru frá útlendingum,“ sagði bakarinn og bætti við auglýsingar hefðu verið sendar inn til Vinnumálastofnunar.

„Það eru fleiri þúsund manns á atvinnuleysisskrá og mikið af ungu fólki en það virðist vera sem þessu unga fólki líði betur að hanga heima hjá sér en fara að vinna,“ sagði bakarinn. Ég sagði að svona væri staðan greinilega. Þessar sögur heyrðust reglulega í samfélaginu.

„Fyrirgefðu Jóhannes, en er þetta ekki aumingjaskapur? Hvað er það sem fær ungt fólk til að hanga heima hjá sér? Ég bara skil þetta ekki,“ sagði bakarinn og hristi hausinn.

Ég hef heyrt þessar sögur víða og meðal annars frá starfsmanni Vinnumálastofnunar sem á hverjum degi tekur á móti ungu fólki sem gæti farið að vinna ýmis störf en velja fremur að vera með „tryggar“ tekjur frá Vinnumálastofnun.

„Það er frekar menntaða fólkið sem ræður sig í störfin sem flokkast undir láglaunastörf heldur en unga fólkið,“ segir þessi starfsmaður sem ég kannast við. „Það er líka ungt fólk sem ég hitti sem segist eiga það inni hjá „kerfinu“ að fá atvinnuleysisbætur,“ segir starfsmaðurinn.

Um daginn sat ég á kaffihúsi ásamt vini mínum.  Þar hitti ég ungan mann sem ég hef kannaðist við. Hann sagðist vera að vinna á sambýli.

„Ég skil ekki hvað er verið að tala um atvinnuleysi. Ég leitaði að vinnu í tvo daga og fékk vinnu á sambýlinu,“ sagði strákurinn og var ánægður með að hafa vinnu.

Það er hollt fyrir ungt fólk að vinna. Það aflar sér reynslu og víkkar hugann. Starfið sem unnið er, er kannski ekki það mest spennandi en það að vinna hjálpar ungu fólki að finna það sem það vill gera í lífinu.

Ég fann það fljótt á sjómennskuferli mínum, sem spannar allt frá því að vera á togurum, snurvoð, línu og til loðnu- og síldarveiða, að mig langaði alls ekki að vera sjómaður. Það átti alls ekki við mig. En fyrir mig var það góð reynsla að vinna á sjónum. Það var líka góð reynsla að vinna við byggingarvinnu á Patreksfirði eitt sumar. Eða sem starfsmaður í Hinu húsinu.
Eða sem þjónn og dyravörður á Hótel Íslandi með skólanum.  Öll þessi störf sem ég hef unnið leiddu mig að þeirri braut sem ég starfa við í dag – blaðamennskuna. Og reynslan mín úr atvinnulífinu er mikilvæg í blaðamennskunni.

Förum að hvetja unga fólkið til að vilja vinna – ná sér í reynslu. Finna hvað það vill læra eða starfa við í framtíðinni. Það er ekkert töff að vera með langvarandi atvinnuleysistímabil á ferilsskránni.

Ég var í Hagkaupum í Skeifunni þegar pabbi borgaði mér út – tvo rauða – eitt þúsund krónur. Fyrir peningana keypti ég mér Times Atlas – þann stærsta sem kostaði 999 krónur. Það var stoltur gutti sem gekk út með bókina – afrakstur vinnu í heilan vetur.  Vinnan göfgar manninn.

 


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *