Tvö ár í dag – en engin niðurstaða

Í dag eru tvö ár síðan Sissa lést vegna of stórs skammts af morfíni í herbergiskytru við Laugaveginn. Sissa var látin þegar bráðaliðar og lögreglumenn komu á staðinn. Endurlífgun var reynd í um klukkustund samkvæmt skýrslum. Tvö önnur voru í íbúðinni; ung stúlka og fullorðinn karlmaður.

Ég hef lítið heyrt af manninum sem Sissa kallaði kærasta – mann sem var 29 ára með dóttur minni 17 ára. Hver veit nema hann hafi á þessum tveimur árum sem liðin eru, kynnst öðrum ungum stúlkum og kynnt þær fyrir heimi læknadópsins? Hver veit nema að hann hafi aðstoðað einhverja við að sprauta sig í gærkvöldi – eða nú í morgunsárið í einhverju dópgreni? Ég vona svo innilega ekki.

Nokkrum mánuðum áður en Sissa lést var ég kallaður á lögreglustöðina við Hlemm. Hún hafði verið með tveimur mönnum á mínum aldri á báti á Faxaflóa – mönnum úr undirheimunum sem eru fíklar og afbrotamenn. Báturinn strandaði og litlu mátti muna að stórslys yrði. Tveir fullorðnir karlmenn með 16 ára stúlku með sér. Ég ætlaði mér að safna liði og hreinlega ganga frá þessum mönnum – en var stoppaður af. Ég var svo reiður yfir því að tveir menn á mínum aldri væru að stefna lífi dóttur minnar í hættu.

Staðreyndin er sú að þarna úti eru fullorðnir karlmenn sem nýta sér ungar stúlkur á margan hátt. Þeir misnota þær kynferðislega og gefa þeim dóp til að hafa þær góðar. Þeir karlmenn sem eru sjálfir að selja fíkniefni gefa þessum ungu stúlkum föt, rúnta með þær á flottu bílunum sínum, koma þeim í bestu partýin – búa til falska veröld sem óþroskaðar stúlkur átta sig ekki á – fyrr en um seinan.

En hvaða menn eru þetta? Jú, þetta eru mennirnir sem eru með fulla vasa af dóppeningum sem þeir borga enga skatta af – peningum sem þeir afla meðal annars með því að selja börnunum okkar dóp. Þetta eru menn sem nýta sér almannaþjónustu. Þetta eru menn sem hafa enga möguleika á að ná sér í konur á þeirra aldri – því þeir eru staðnaðir í þroska. Konur vilja þá ekki. Þeim tekst hinsvegar að glepja ungar og óþroskaðar stúlkur, ná völdum yfir þeim og þegar þessir menn verða leiðir á stúlkunni, henda þeir henni frá sér og næla sér í nýtt fórnarlamb. Eftir stendur stúlkan ein, farin úr sínum félagshóp, orðinn fíkill og leitar í hóp fíklanna.

Þessir menn nota strákana á annan hátt. Þeir nota þá til að fremja afbrotin – selja dópið – sjá um skítverkin. Á meðan græða þessir menn á tá og fingri. Og búa til glæpamenn úr drengjunum sem hafa leiðst inn í þessa svörtu og ömurlegu veröld.

Foreldrarnir standa ráðalausir hjá og kerfið sjálft hefur engin svör – getur ekkert gert.

Eiga foreldrarnir að standa hjá og gera ekki neitt? Nei, þeir eiga að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ná barninu sínu til baka. Hvað á samfélagið að gera? Tilkynna lögreglu allt sem viðkemur þessum mönnum.

Nú þegar tvö ár eru liðin frá því Sissa lést er ekki enn búið að afgreiða málið úr kerfinu. Það hefur ekki enn verið tekin ákvörðun um hvort ákært verði eða málið látið niður falla.

Staðreyndin er sú að ef dóttir mín hefði látist vegna annarra áverka, til dæmis vegna stungusára, þá væri rannsókn málsins lokið og niðurstaða um ákæru hefði legið fljótlega fyrir. Þá hefðu ekki liðið tvö ár.

Fyrir mig og fjölskyldu Sissu skiptir það, að fá niðurstöðu, máli. Þegar hún liggur fyrir getum við byrjað á því að horfa til baka og sagt; Við gerðum allavega allt sem í okkar valdi stóð. Við getum þá líka horft til framtíðar og haldið áfram að takast á við sorgina – leyfa minningunum um yndislega dóttur að lifa. Með niðurstöðunni verða kaflaskil sem við höfum beðið lengi eftir.

Í október í fyrra skilaði ég inn greinargerð til embættis ríkissaksóknara eftir að mér hafði verið tjáð að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefði hætt rannsókn málsins. Ég fór og aflaði gagna sem varð til þess að ríkissaksóknari sendi málið aftur til lögreglu til rannsóknar.

Rannsókninni er nú lokið og málið er aftur komið inn á borð ríkissaksóknara. Mér er sagt að þaðan verði það afgreitt, vonandi fyrir réttarhlé í júlí.

Ég vil að maðurinn verði ákærður. Ég vil að dauði Sissu hafi fælingarmátt. Ég vil að fullorðnir karlmenn sem útvega ungum stúlkum dóp og sprauta þær jafnvel, fái þau skilaboð að það sé ekki í lagi.

Ég hef síðustu mánuði talað við fjölda stúlkna og kvenna sem hafa verið eða eru í neyslu og þær hafa allar sagt; Ég sprautaði mig aldrei sjálf fyrstu mánuðina. Það var alltaf einhver gaur sem gerði það.


Í þessum mánuði fæ ég svörin úr kerfinu. Hver sem niðurstaðan verður hlýti ég henni. En ef enginn verður ákærður er alveg ljóst að það verður að breyta lögum hér svo hægt verði að ákæra fullorðna karlmenn sem moka dópi í ungar stúlkur – sem deyja af völdum þess. Það er veruleiki samfélagsins. Hver sem niðurstaðan verður ætla ég að birta öll gögn varðandi málið í bókinni sem ég er að skrifa um Sissu. Ég vil að fólk upplifi veruleikann í gegnum þau gögn.

Minn veruleiki er sá að í grafreit F-6-0140 í Gufuneskirkjugarði hvílir dóttir mín. 


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *