Í gegnum tíðina hafa uppljóstrarar (e. Whistleblowers) skipt mjög miklu máli þegar kemur að stærstu fréttamálum síðari ára; Watergate – Deepthroat, Pentagon skjölin – Daniel Ellsberg, Enron – Sherron Watkins, Íraksskjölin og sendiráðsskjölin – Wikileaks.
Ég veit að úti í samfélaginu eru margir sem vilja koma upplýsingum á framfæri til fjölmiðla um eitthvað sem þeim finnst að þurfi að koma fram í dagsljósið. Þetta fólk getur verið í öllum lögum samfélagsins; hjá einkafyrirtækjum, ríkisstofnunum, ráðuneytum, fyrrverandi starfsmenn, núverandi starfsmenn og þar fram eftir götunum.
Sagan sýnir að það er sterk réttlætiskennd sem helst rekur uppljóstrara áfram í þeirri viðleitni sinni að koma upplýsinum á framfæri. Þeir vilja að sannleikurinn komist upp á yfirborðið.
Á netinu eru margar vefsíður sem leiðbeina fólki sem hefur í huga að koma viðkvæmum upplýsingum á framfæri. Hér er bein þýðing upp úr einni slíkri, auk smá viðbóta frá mér:
Ef þú vilt ljóstra upp um eitthvað sem þér finnst að þurfi að komast fyrir almenningssjónir þá eru hér atriði sem þú skalt hafa í huga til að verja þig og þær upplýsingar sem þú vilt koma á framfæri;
a) Ekki segja neinum frá því að þú sért óánægð/ur og viljir leka upplýsingum.
b) Ekki senda upplýsingarnar í gegnum tölvupóst í vinnu eða heima. Farðu á netkaffihús/bókasafn og búðu til þitt eigið netfang sem þú notar einungis í þeim tilgangi að koma upplýsingunum á framfæri til fjölmiðils (hafðu nálægar eftirlitsmyndavélar í huga). Það er einnig þekkt aðferð að búa til sérstakan netaðgang sem einungis uppljóstrarinn og blaðamaðurinn þekkja. Gögnin eru aldrei send úr þeim netaðgangi heldur einungis vistuð í „drögum“.
c) Ekki hringja úr vinnusíma til að ræða þær upplýsingar sem þú vilt leka. (Hjá íslensku símafyrirtækjunum er hægt að kaupa óskráð símkort.)
d) Það þarf gögn til að sýna fram á þær upplýsingar sem þú vilt koma á framfæri. Ljósritaðu gögnin eða útvegaðu þau með öðrum hætti.
e) Gögnin er hægt að senda nafnlaust í bréfpósti eða í gegnum tölvupóst sem sendur er af netkaffihúsi/bókasafni.
f) Ekki breyta neinu í hegðun þinni á vinnustaðnum þegar þú hefur komið gögnunum á þann stað sem þú vilt. Haltu áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Ef það er einhver þarna úti sem vill koma upplýsingum/gögnum á mig er hægt að hringja í mig, koma upplýsingum í gegnum hnappinn hægra megin á síðunni, í gegnum netföngin johanneskr@johanneskr.is / johanneskr@ruv.is eða senda bréfpóst á:
Ríkisútvarpið – Kastljós
B.t. Jóhannesar Kr. Kristjánssonar
Efstaleiti 1, 150 Reykjavík.