Ég var 28 ára þegar ég hitti Nelson Mandela í Jóhannesarborg í júlí árið 2000 ásamt vinum mínum Inga R. Ingasyni og Róberti Marshall. Ég man þegar ég stóð í garðinum fyrir utan heimili hans í úthverfi Jóhannesarborgar hugsaði ég að hann hefði setið í fangelsi í jafn langan tíma og ég hafði lifað, mínus eitt ár. Við sátum með honum í 40 mínútur og á þessum tíma sagði hann okkur nokkrar sögur sem byrjuðu á setningunni; „When I was in prison….“
Í september árið 1999 hitti ég Bridget Mabandla, menningar- og vísindaráðherra Suður afríku sem heimsótti Ísland í tilefni af menningarsamstarfi norðurlanda og Suður Afríku. Á þessum tíma var ég að vinna fyrir samtök sem ég og Víkingur Viðarsson vinur minn höfðum stofnað ásamt öðru góðu fólki. Samtökin hétu Path, European youth without drugs. Markmið samtakanna var að benda ungu fólki í Evrópu á gildi þess að lifa lífinu án fíkniefna. Yfir 30 lönd í Evrópu voru meðlimir í samtökunum.
Ég og Víkingur kynntum samtökin fyrir henni og hún hreifst af hugmyndafræðinni. Í hvatvísi minni spurði ég hana hvort hún gæti komið á fundi með Nelson Mandela, en þau voru persónulegir vinir. Við sögðumst vilja kynna samtökin fyrir honum og athuga hvort hann gæti aðstoðað okkur. Hún sagði að hann fengi yfir tíu þúsund bréf í hverjum mánuði frá fólki allsstaðar að úr heiminum. Hún taldi möguleikana litla, en ætlaði samt að reyna.
Ég skrifaði mörg bréf til hennar og aðstoðarmanna hennar. Í byrjun júlí ári síðar fékk ég svo bréf – Mandela hafði samþykkt fund. Honum leist vel á hugmyndafræði samtakanna en sagðist þurfa að bera það undir sértaka nefnd hvort hann gæti aðstoðað okkur.
Við færðum Mandela gjafir; ljósmyndabækur um Ísland og lítinn stein frá Þingvöllum. Hann tók vel á móti gjöfunum og var sérstaklega ánægður með að hafa „piece of Iceland in my office.“ Ég rétti honum ljósmyndabókina og fletti upp á mynd af Þingvöllum en missti um leið bréf frá mér og Víkingi sem datt á gólfið. Ingi R. stökk til og ætlaði að beygja sig eftir bréfinu en Mandela stoppaði hann. Og þá kom saga úr fangelsinu þar sem hann lýsti því hvernig fangaverðirnir hentu öllum bréfum sem honum bárust í fangelsið á gólfið. Með þessu hafi þeir viljað niðurlægja hann. Mandela beygði sig því sjálfur eftir bréfinu. Þetta var augnablik sem ég mun aldrei gleyma.
Þegar fundinum lauk gekk Mandela að hurðinni og opnaði fyrir okkur og sagði um leið; „Nú getið þið sagt að Mandela hafi opnað fyrir ykkur hurðina,“ og hló innilega og kvaddi okkur með virktum.
Eftir að hafa kvatt Mandela hittum við lögmanninn hans og besta vin, George Bizos. Hann lék á alls oddi og spurði mikið um Ísland.
Þetta var stund sem líður manni aldrei úr minni. Mandela fyllti herbergið með ótrúlegri nærveru og ég veit að ég mun aldrei upplifa slíkt „charisma“ frá manneskju aftur.
Ég keypti bók fyrir tveimur árum sem heitir Mandela´s Way, lessons on life. Í bókinni dregur ævisöguritari Mandela saman hans helstu visku. Ég er búinn að lána nokkrum vinum mínum bókina og síðast í gær lánaði ég góðum vini bókina. Viska og þroski Mandela eiga erindi við alla og gerir hvern mann betri sem tileinkar sér, þó ekki væri nema, eitt af hans ráðum.