Ingjaldur á netið

Ingjaldur forsida

Forsíða Ingjalds.

Fyrsta bindi Ingjalds varð til árið 1908 á stofnári Ungmennafélagsins Vorblóms sem hélt utan um tímaritið Ingjald. Tímaritið, sem var stílabók, gekk á milli bæja á Ingjaldssandi og skrifuðu íbúarnir hugleiðingar, sögur, ljóð og allt þar á milli í bókina. Einar Guðmundsson lýsti tilgangi Ingjalds í grein sem hann skrifaði árið 1920 í Ingjald. „Það hefir margoft verið tekið fram að blaðið sje gefið út í þeim tilgangi að æfa fjelagsmenn í því að klæða hugsanir sínar í sem bestan búning. Koma skipulagi á hugsanir sínar, skerpa á dómgreindina og auka viðsýnið, auk þess sem það á að vera til skemmtunar á fundum.“ Grein Einars er birt neðst í þessum pistli.

Ingjaldur er merkileg heimild um líf og hugsanir íbúa á Ingjaldssandi í upphafi 20 aldarinnar. Bindin voru alls fjögur talsins, en tvö þeirra eru geymd á Héraðsskjalasafninu á Ísafirði. Ekki er vitað hvar tvö þeirra eru niðurkomin eða hvort þau séu glötuð. Bindið sem þið getið lesið hér er skrifað á árunum 1917 til 1924, en ég fékk ljósrit af bindunum frá Héraðsskjalasafninu á Ísafirði.

Ég vona að hin tvö bindin finnist og verði komið til varðveislu á Héraðsskjalasafninu á Ísafirði og að þau verði einnig gerð aðgengileg á netinu. Það eru fjölmargir sem tengjast Ingjaldssandi ættar- og tilfinningaböndum og langflestir eru áhugasamir um sögu þessa einstaka dals.

Fyrir rúmum 10 árum var vefsíðunni Ingjaldur.is haldið úti þar sem greinar úr Ingjaldi birtust, auk annars fróðleiks af „Sandinum.“ Eitthvað af efninu er ennþá til á síðunni flateyri.is og má finna það hér. 

Þegar ég hélt úti vefsíðunni Ingjaldur.is á sínum tíma fann ég fyrir miklum áhuga fólks á sögu Ingjaldssands. Fyrir tíu árum voru ljósmyndaskannar ekki orðnir svo algengir, en í dag eru þeir víða til. Það væri gaman að fá sendar ljósmyndir frá Ingjaldssandi sem yrði komið á vefinn. Hver veit nema Ingjaldur.is verði settur aftur í loftið. Á linknum hér fyrir aftan getið þið náð í Ingjald –  Ingjaldur 9-15 argangur

alfadalur

Séð heim að Álfadal á Ingjaldssandi. Húsin hafa nú verið jöfnuð við jörðu.

Hitt bindið sem ég á ljósritað af Ingjaldi kemur á netið fljótlega.

Að skrifa í Ingjald

2. tölublað. –  Álfadal – 25. jan. 1920. – 11. árg.

Margir, eða flestir fjelagsmenn hafa sagt, þegar þeir hafa verið beðnir að skrifa eitthvað í Ingjald, að þeir gætu það ekki, og oftast hefir það verið aðalástæðan, að þeir hefðu ekkert til þess að skrifa um. Ekkert efni sem þeir gætu neitt sagt um; það væri sjer ofvagsið.

Jer er því fyllilega samþykkur að margt efni sem skrifað hefir verið um í Ingjald, hefir mörgum af fjelagsmönnum verið ofvagsið að ræða um til hlýtar.

Auðvitað sýnir það góðan vilja að ráðast í að skrifa um það efni, sem er manni ríkast í huga, þó það sje stundum ofvagsið, og, að mjer finnst, sjálfsagt að láta í ljósi skoðanir sínar um það sem manni finst ábótavant og þau bestu ráð sem hver og einn getur fundið því viðvíkjandi. Aftur á móti verður að varast að fara út í öfgar, sem oft á sjer stað þegar skrifað eða rætt er um það efni sem manni er ofvagsið. Eða með öðrum orðum, skrifa ekki meira um hvert málefni en það sem hægt er að færa nægjileg rök fyrir. Skrifa ekki um annað en það sem maður skilur nokkurn veginn vel. En þetta ætti ekki að fæla neinn frá því að skrifa í blaðið, því ef skrifað er aðeins um það sem maður skilur, er oftast hægt að færa rök fyrir sínu máli.

En mjer finnst að (flestir) fæstir sjeu ánægðir með að skrifa um það sem virðist vera mjög auðvelt. Þykir það ekki nógu gott eða þá of lítilfjörlegt. Þetta er hreinasti misskilningur. Það hefir margoft verið tekið fram að blaðið sje gefið út í þeim tilgangi að æfa fjelagsmenn í því að klæða hugsanir sínar í sem bestan búning. Koma skipulagi á hugsanir sínar, skerpa á dómgreindina og auka viðsýnið, auk þess sem það á að vera til skemmtunar á fundum. En til þessa eru ekki alltaf best valin (efni), torskilin efni, miklu frekar eru þau til þess að koma manni út í þær ógöngur sem, þekkingu og skilning lítt mentaðra manna, og sem hafa lítinn tíma til þess að glíma við þess háttar, er ofvagsið að komast fram úr.

Aftur á móti þarf þetta ekki að koma fyrir ef valin eru auðskilin efni. Þá ef til vill einhverjum finnist að hann ekki geta klætt hugsanir sínar í nógu fallegan búning, þá stendur það til bóta ef hann vandar sig og finnur að því er ábótavant, en það er, einmitt sönnun fyrir því að hann er vandvirkur.

Okkur hefir flestum verið hætt við því að hafa efni greinanna of einhliða. Flestar hafa þær verið fullar af vandlætingasemi, sem efalaust er gott og gagnlegt, en það má líka gera of mikið af því góða. Mjer finnst þessi alvöruþungna vandlætingarsemi sem hvert blað er fullt af, vera svo nauðalíkt sínöldrandi gleðivana kerlingaruglu, sem ekkert hljóð má heyra nema urrið í rokknum, tístið í prjónunum, o.s.fr. Allt svo tilbreytingarlaus þumbaldaskapur, laust við alla glaðværð og fjör. Blátt áfram þreytandi. Jeg held að það sakaði ekki þó að við þynntum ofurlítið vandlætingargrautinn með ofurlítið meiri tilbreytni, glaðværð og fjöri.

En það er ekki svo að skilja að jeg vilji ekki hafa neinar aðfinningar, það væri herfileg vitleysa. Fyrst og fremst verður hver og einn að vera vandlátur við sjálfan sig og svo við aðra, bara það sje bygt á einhverri skynsemi, og í hófi.

Mjer finst í einu atriði, að við sjeum of gjörn á aðfinningum, og það er á fundum þegar Ingjaldur er lesinn upp. Meðan Ingjaldur er lesinn upp sitja náttúrulega allir eins og brúður og langann tíma á eftir, eins og í gamla daga eftir húslestur. Enginn þorir að rjúfa þögnina, nema þegar fundarstjóri kvakar frá sæti sínu hvort enginn vilji ræða Ingjald. Loksins stendur einn upp og þakkar höfundi fyrir greinina, og segjir að hún hafi verið ágæt, góð, dágóð, en að hverju leyti það má guð vita, og hvaðan loftið kemur er engu auðskildara meðan enginn veit í hverju hið góða liggur, færi betur ef lofið breytti ekki nafni þegar kemur inn fyrir varirnar. Þetta er ranglega hugsað að finna ekki að greininni ef eitthvað er athugavert við þær. Það verður aðeins til þess að ala óvandvirkni og kæruleysi hjá þeim sem skrifa greinarnar.

Það er oft sem höf. gr. kemst aldrei að því, þó eitthvað hafi verið athugavert hjá honum við gr.  Bara af því að enginn hefir bent honum á gallana, svo að hann álýtur þær ef til vill betri en þær eru í raun og veru. En þetta er rangt bæði gagnvart manni sjálfum og félagsskapnum í heild sinni, og með því nær blaðið aldrei tilgangi sínum.

Einar Guðmundsson.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *