Milljón til góðra mála

-Úthlutað úr Minningarsjóði Sigrúnar Mjallar í annað sinn. Aron Pálmarsson gefur handboltatreyju til styrktar sjóðnum. 

 

Einni milljón króna verður úthlutað úr Minningarsjóði Sigrúnar Mjallar þann 22. desember næstkomandi en þann dag hefði Sigrún Mjöll orðið 21 árs. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr minningarsjóðnum, en í desember í fyrra voru fjögur verkefni styrkt um samtals 900 þúsund krónur, en þá styrtki Aron Pálmarsson landsliðsmaður í handbolta sjóðinn um 450 þúsund krónur.

Aron er dyggur stuðningsmaður sjóðsins og í raun verndari hans. Hann hefur nú ákveðið að styðja við bakið á minningarsjóðnum með því að gefa handboltatreyju sem verður boðin upp til styrktar sjóðnum. Uppboðið stendur í eina viku og geta einstaklingar og fyrirtæki boðið í treyjuna. Hægt er að gera tilboð í treyjuna með því að senda tölvupóst á netfangið uppbod@minningsissu.is og svo verður hægt að fylgjast með uppboðinu á þessari fésbókarsíðu. Ég vona að sem flestir dreifi síðunni.

Í byrjun næsta árs ætlar Aron svo að heimsækja meðferðarheimili og ræða við ungt fólk um handboltaferilinn og hvernig hann hefur sett sér markmið varðandi sinn feril. Og hann ætlar að gera meira en það er enn óráðið. Stuðningur Arons er sjóðnum mikilvægur, enda er hann fyrirmynd allrar þjóðarinnar.

Minningarsjóður Sigrúnar Mjallar var stofnaður í minningu Sigrúnar Mjallar Jóhannesdóttur sem lést þann 3. júní 2010 af völdum fíkniefna. Tilgangur minningarsjóðsins er að styrkja skapandi verkefni ungmenna á aldrinum 12-18 ára sem eru í áfengis- og/eða vímuefnameðferð á meðferðarheimilum á Íslandi.

Í stjórn Minningarsjóðsins situr fólk sem kom að meðferð Sigrúnar Mjallar og hún bar mikla virðingu fyrir. Í stjórninni sitja; Grétar Hostert Halldórsson, forstöðumaður meðferðardeildar Stuðla, Stella Guðmundsdóttir fyrrverandi skólastjóri Digranesskóla, Guðbjörg Erlingsdóttir starfsmaður Foreldrahúss. Í varastjórn situr Pétur Broddason forstöðumaður meðferðarheimilisins að Laugalandi og ég.

Minningarsjóðurinn skiptir mig og alla fjölskyldu Sissu miklu máli. Við teljum að styrkir úr sjóðnum gagnist vel, enda fjármunir í meðferðarstarfi af skornum skammti. Það skiptir okkur líka máli að halda minningu Sigrúnar Mjallar á lofti og það gerist svo sannarlega í gegnum starf minningarsjóðsins.

Það voru tvær vinafjölskyldur mínar sem lögðu sjóðnum til eina milljón króna að þessu sinni. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim innilega fyrir.

Ef einhverjir vilja leggja sjóðnum lið þá eru hér að neðan reikningsupplýsingar:

Kennitala: 550113-1120

Reikningsnúmer:  596-26-2


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *