Rothögg fyrir rannsóknarblaðamennsku á RÚV

Ég ákvað að gera blaðamennsku að lífsstarfi mínu eftir að ég og félagar mínir í Kompási vorum reknir af Stöð 2 árið 2009. Það var ákvörðun sem ég sé ekki eftir enda á maður að fylgja hjartanu í því sem maður tekur sér fyrir hendur í lífinu. Starfsöryggi blaðamanna á Íslandi er einstaklega ótryggt og það er auðveldara að takast á við uppsagnir þegar maður er búinn að taka ákvörðun um lífsstarfið – maður endar þá alltaf einhversstaðar – á einhverjum miðli.

Úr myndstjórn RÚV.

Úr myndstjórn RÚV.

Frá því ég byrjaði í blaðamennsku hef ég alltaf haft áhuga á rannsóknarblaðamennsku og sótt alþjóðaráðstefnur í þeim geira og kynnst blaðamönnum með sama áhuga um heim allan. Þeir blaðamenn sem ég hef kynnst og eru í verkefnum tengdum rannsóknarblaðamennsku hafa langflestir sömu sýn og ég. Ég er í blaðamennsku því ég vil benda á hluti sem betur mega fara í samfélaginu. Ég vil vera útrétt hönd minnihlutahópa sem hafa fáa eða jafnvel enga málsvara og spyrja spurninga fyrir þessa hópa sem fá ekki sanngjarna meðferð í samfélaginu. Ég vil segja frá óréttlæti, spillingu, ólöglegum aðgerðum og draga upp á yfirborðið hluti sem þarf að bæta í samfélaginu.

Einn þeirra blaðamanna sem ég hef kynnst er Nils Hanson ritstjóri Uppdrag Granskning sem er vikulegur fréttaskýringaþáttur SVT, sænska ríkissjónvarpsins. Þátturinn er einn sá virtasti í Evrópu og hefur unnið til alþjóðlegra verðlauna fyrir afhjúpandi fréttaskýringar. Ég spurði Nils að því fyrir nokkrum mánuðum hvort og þá hvernig rannsóknarblaðamennska skipti máli fyrir almannasjónvarp. Hann sagði að þátturinn sem hann ritstýrir vinni náið með fréttastofu sænska ríkissjónvarpsins og hann sagði þetta um mikilvægi rannsóknarblaðamennsku á ríkisfjölmiðlum eins og RÚV. „Að kynna reglulega rannsóknarblaðamennsku þar sem farið er í saumana á og flett ofan af ranglæti og kerfislægum mistökum er allra mikilvægasta hlutverkið fyrir almannaþjónustumiðla og ríkismiðla. Einkum nú á tímum þegar hin hefðbundnu og fjárhagslega aðþrengdu fjölmiðlafyrirtæki neyðast til að draga úr metnaði sínum í blaðamennskunni. Það eru hræðileg svik við áhorfendur að bjóða þeim ekki upp á slíkt efni. Þeir þarfnast þess og vilja ólmir fá slíkt efni.“ (i.e. To regularly present in depth investigative reporting, revealing wrong doing and system failures, is the single most important assignment for public service and state TV. Especially now, when the financially repressed traditional media companies have to cut down their journalistic ambitions.  To not give the viewers this is to let them down terribly. The viewers need it. And they love it!)

Ég hóf störf í Kastljósi vorið 2011 og hafði þá starfsreynslu úr Kompási af Stöð 2 sem nýttist mér vel, enda hefur Kastljós verið að gera ítarlegar og vandaðar fréttaskýringar sem falla vel inn í ramma rannsóknarblaðamennsku eins og ég horfi á hana. Ég hef unnið með framúrskarandi fólki í Kastljósinu og á RÚV yfir höfuð því þar starfar fólk með ótrúlega reynslu af öllu því sem tengist útvarpi, sjónvarpi og miðlun upplýsinga til almennings. Markmiðin eru samstillt; að gera gott efni fyrir fólkið sem á RÚV – landsmenn alla.

Á bakvið ítarlega fréttaskýringu í Kastljósi getur legið margra vikna vinna sem skiptist í nokkur stig; rannsóknin sjálf, undirbúningur fyrir vinnslu, vinnslan sjálf, eftirvinnsla, útsending og svo eftirfylgni. Að öllu ferlinu koma fjölmargir starfsmenn RÚV með faglegan metnað og eitt markmið; að efnið sé vel unnið á öllum stigum. Utsending

Nú heyrir Kastljós undir fréttasvið RÚV. Ég er því starfsmaður fréttastofunnar og þar starfar mjög hæft fólk. Eins og á öllum sviðum RÚV hefur fréttastofan gengið í gegnum niðurskurð og af þeim sökum mæðir mikið á starfsfólkinu. Samheldnin er mikil og andinn góður, enda hafa allir sama markmið; að skila af sér vel unnu efni.

Sem mikill áhugamaður um rannsóknarblaðamennsku hef ég þungar áhyggjur ef tillögur stjórnarflokkanna um lækkun útvarpsgjaldsins ná fram að ganga. Það yrði rothögg fyrir rannsóknarblaðamennsku á RÚV.

Lækkun útvarpsgjaldsins skilar ekki auknum tekjum í ríkissjóð. Eigendur RÚV, allir íslendingar, greiða nokkrum hundraðköllum minna á ári ef gjaldið er lækkað – uppæð sem skiptir flesta litlu sem engu máli. Lækkun gjaldsins hefur hinsvegar gríðarleg áhrif á alla starfsemi RÚV og þýðir stórfelldan niðurskurð á öllum sviðum. Menningarlegt hlutverk RÚV er geysimikið og mikilvægt og það hafa margir bent á að undanförnu. Á RÚV eru þættir í útvarpi og sjónvarpi sem sinna mismunandi þörfum eigendanna – eftir áhugasviðum. Eigendur RÚV, allir íslendingar, ættu að hafa málsháttinn „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ í huga, nú þegar allt stefnir í að útvarpsgjaldið verði lækkað án nokkurs tilgangs.

Almenningur elskar upplýsingar og að fá þær framsettar á mannamáli – upplýsingar um kerfislæg mistök og ólöglega starfshætti, ranglæti í samfélaginu, spillingu innan stjórnkerfisins, spillingu fyrirtækja og svona mætti lengi telja. Kastljós hefur svo sannarlega komið fram með fréttaskýringar þar sem upplýsingar, unnar innan ramma rannsóknarblaðamennsku, eru settar fram á mannamáli – og hlotið viðurkenningar fyrir.

Á fréttastofu RÚV liggja mestu verðmætin í reynslu starfsmanna sem margir hafa unnið við blaðamennsku í mörg ár. Fagleg vinnubrögð eru aðalsmerki fréttastofunnar þar sem öll gildi heiðarlegrar blaðamennsku eru í hávegum höfð. Ungir fréttamenn fá mikilvæga tilsögn og læra af þeim sem reynsluna hafa. Reynsluboltarnir róa ungu fréttamennina þegar ráðist er á þá fyrir að flytja áhorfendum/áheyrendum gagnrýnar fréttir af til dæmis stjórnmálamönnum og störfum þeirra. Allir blaðamenn sem eru að gera eitthvað af viti í blaðamennsku hafa fengið yfir sig drullu og skít frá stjórnmálamönnum fyrir það eitt að fjalla um störf þeirra á heiðarlegan og gagnrýnin hátt.

Vinur minn sem starfaði á árum áður sem blaðamaður sagði mér fyrir nokkrum árum sögu af afskiptum ráðherra vegna fréttar sem hann gerði um störf ráðherrans. Þegar fréttatímanum lauk fékk hann símtal frá ráðherranum sem hellti sér yfir hann með drullu og skít. Þegar vinur minn spurði hvort eitthvað væri rangt í fréttinni varð fátt um svör hjá ráðherranum. Ráðherranum þótti algjör óþarfi að fjallað væri um störf hans með gagnrýnum hætti og hélt reiðilestrinum áfram. Vinur minn var hinn rólegasti og svaraði ráðherranum; „Ég verð blaðamaður löngu eftir að þú hættir sem ráðherra. Við skulum hafa það á hreinu.“

Ég ætla mér að starfa sem blaðamaður í mörg ár í viðbót og fjalla um mál sem mér finnst skipta máli. Mér finnst gott að vinna á RÚV með frábærum hópi samstarfsmanna sem hafa faglegan metnað til að fjalla um hluti sem skipta íslenskt samfélag miklu máli. Ef hópur þingmanna, sem starfar í umboði eigenda RÚV, þ.e. íslensku þjóðarinnar, ná markmiði sínu að lækka útvarpsgjaldið þá mun það skaða gagnrýna umræðu um samfélagsmál til framtíðar. Ég leyfi mér að fullyrða að það er ekki það sem eigendur RÚV vilja.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

3 thoughts on “Rothögg fyrir rannsóknarblaðamennsku á RÚV

  • Ég vil gjarnan greiða minn fulla útsvars skatt til að tryggja sem bestan og heiðarlegastan fréttaflutning á RÚV útvarpi okkar landsmanna.

  • Takk fyrir frábæra grein. Mér hefur alltaf fundist opnar þjóðfélags umræður vanta í sjónvarpið, Kastljós og þess konar þættir hafa verið frábærilega vel gerðir en það fyllir ekki vöntunina á þjóðfélagslegri gagnrýni og hvatningu. Og nú með þessum sparnaðaraðgerðum er verið að skerða það sem alltof lítið var af ennþá meira. RUV á einmitt mannskap til stórræðna, nú verðum við, almenningur að finna leið til þess að þetta megi ekki verða. Er hægt að setja á fót Pod Sjónvarpsstöð svipaða og Democracy Now? Hvað þarf til?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *