Þegar hjartað ræður för

Tímamót

Tímamót

Í gærkvöldi sat ég með Ágústu Evu Erlendsdóttur leikkonu og Ragnari Kjartanssyni myndlistarmanni fyrir útsendingu á áramótaþætti Kastljóssins. Þau fengu sér te – ég fékk mér kaffi eins og venjulega. Ég var að undirbúa viðtalið við þau og spurði þau um viðburðarríkt ár í þeirra lífi sem nú er að líða. Þau hafa bæði náð miklum árangri í sinni listgrein og þetta ár sem er að líða hefur verið þeim gjöfult. Mig langaði að vita hvernig þau næðu þessum árangri. Svarið var einfalt hjá þeim báðum; við gerum þetta frá hjartanu og við erum ekki að setja okkur nein sérstök markmið. Þau bættu síðan við að þau framkvæmdu hlutina með gleðina að leiðarljósi. Mér finnst Ragnar og Ágústa Eva frábært listafólk. Eins og þau sögðu bæði í viðtalinu eru þau pönkarar í hugsun – þora að gera hlutina frá hjartanu.

Ég vann mjög mörg störf áður en ég varð blaðamaður. Við fæst þeirra vann ég frá hjartanu og náði því ekki árangri og var ekki ánægður. Það breyttist þegar ég varð blaðamaður. Þá fór ég að gera hlutina frá hjartanu, fjalla um þau mál sem mig fannst skipta máli og hef náð ágætis árangri sem ég er sáttur við.

Stundum koma ungir blaðamenn til mín og biðja um ráð um blaðamennsku. Ég gef þeim alltaf sama ráðið; að finna kjarkinn til koma inn á ritstjórnarfundi með sín eigin mál og kynna þau sem þá langar að fjalla um og finnst skipta máli. Þau mál vinni þeir frá hjartanu og það gerir gæfumuninn.

Á þessum tæpu 43 árum sem ég hef lifað hef ég upplifað meira en margur. Á tímamótum sem þessum – áramótum – fær maður tækifæri til að hugsa til baka og horfa á hvað maður hefur gert og hvað maður hefur í kringum sig; fjölskyldu, vini, verkefni, áhugamál og allt það sem veitir manni gleði. Það er einmitt þetta sem skiptir mestu máli og gefur manni mest í lífinu. Á hinsta degi eru það þessir hlutir sem eru efst í huga manns.

Ég hef sem blaðamaður komist inn í aðstæður fólks sem eru ótrúlegar, bæði flóknar og sorglegar. Ég hugsa stundum til baka inn í þessar aðstæður sem ég hef lært mikið af og verið þakklátur fyrir það sem ég hef. Ég hef horft á deilumál, sem eru smámál, sundra heilu fjölskyldunum. Ég hef hlustað á allar hliðar „deilunnar“ og séð strax að það sé hægt að leysa hana. Það eina sem þarf er að setjast niður og tala saman og takast á með það eina markmið að koma á friði og sátt.

Hjartað ræður för í hálkunni.

Hjartað ræður för í hálkunni.

Ég var einu sinni hjá áfallasérfræðingi sem kenndi mér góða aðferð við að horfa á hlutina í samhengi. Hann sagði mér að fara nokkur ár fram í tímann og horfa á sjálfan mig í stólnum á móti mér. Hann sagði mér að hugsa þá til baka á sjálfan mig og horfa á tvennt; Hvernig verður líf þitt ef þú breytir því sem breyta þarf? Og hinsvegar – hvernig verður líf þitt ef þú breytir engu? Það er ótrúlega auðvelt að horfa á hlutina í þessu samhengi. Aftur er það taktur hjartans sem skiptir máli í þessum ákvarðanatökum sem hafa áhrif á líf manns.

Góður frændi minn, lífsreyndur og hygginn, sem ég leita mikið til gaf mér ráð fyrir nokkru sem ég hef hugsað mikið um og er að breyta í mínu lífi. Hann bað mig að hugsa um allt fólkið í kringum mig og flokka það í tvo hópa; „givers“ – þá sem gefa mikið af sér og „takers“ – þá sem sjúga úr manni orku og gefa lítið sem ekkert til baka. Hjartað gefur tóninn þegar maður fer í gegnum þessa hluti og setur fólkið í kringum mann í þessu tvo hólf.

Ég hef oft verið gagnrýndur fyrir það að gefa of mikið af mér og fá lítið til baka. Ég hef aldrei hugsað um þetta – ekki fyrr en mér var bent á það. Aftur er það hjartað í mér sem leiðir mig áfram í öllum þeim málum sem ég kem að og reyni að aðstoða. Ég veit að það kemur allt til baka á einhverjum tíma – „what goes around – comes around.“ Maður þarf samt að velja verkefnin vel þar sem maður er tilbúinn að gefa af sér – það tekur orku frá manni, enda hjartað sem ræður för.

Stundum sér maður ekki skóginn fyrir trjám og illgresi. Það gerist hjá öllum og hefur gerst hjá mér. Þar hafa trúnaðarvinir mínir sem eru fáir en mjög góðir bent mér á leiðir til að ryðja draslinu burt þannig að maður hafi útsýni og yfirsýn yfir það sem skiptir máli. Þeir þora að segja manni hlutina eins og þeir eru og draga ekkert undan – allt frá hjartanu. Þeir eru „givers“ og fyrir þesskonar vini eigum við öll að þakka.

Ég óska öllum gleðilegs árs og þakka fyrir allt á árinu sem er að líða. Ég vil sérstaklega þakka heimildarmönnum mínum sem hafa treyst mér til að skoða mál sem þeir hafa komið með til mín – og sum þeirra orðið að stórum fréttum á mínum ferli sem blaðamaður og haft áhrif.

Ef þið hafið einhver hjartans mál og treystið mér fyrir þeim, hvort sem eru jákvæð eða neikvæð, endilega sendið mér línu á netfangið mitt; johanneskr@johanneskr.is

Með vinsemd og virðingu,

Jóhannes Kr. Kristjánsson


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *