Oft á morgnana þegar ég fylgi 5 ára syni mínum Gísla Kristjáni á leikskólann hugsa ég til fortíðar, nútíðar og framtíðar. Á stéttina á leikskólalóðinni eru málaðir kassar með númerum frá 1 og upp í 85. Eftir þessum kössum göngum við á morgnana og náum upp í 70 sem er fyrir framan dyrnar á deildinni hans Gísla.
Stundum stoppar Gísli Kristján á sinni tölur sem nýverið hækkaði úr 4 í 5. Stundum stoppar hann á tölunni hennar mömmu og stundum minni eða systkinum sínum. Og ef hann vill fara langt þá stoppar hann á tölum ömmu og afanna sem hann á.
Í morgun vildi hann stoppa á 42 – nýju tölunni minni og sú tala er ansi langt frá 5 – tölunni hans. Það er ansi langur gangur á milli þessara tveggja talna í skrefum talið og auðvitað árum, en lengst er bilið þegar horft er til lífsreynslunnar sem maður öðlast á þessari leið.
Ekki er maður nú orðinn gamall þótt maður sé kominn á fimmtugsaldurinn og í mínum huga eru bestu árin eftir. Á þessu bili milli 5 og 42 öðlast maður dýrmæta reynslu og fær aukinn þroska við hvert skref og þannig verður það þangað til maður kveður þessa jörð. En ég held að núna á seinni helmingi lífsins njóti maður betur stundarinnar og lífsins yfir höfuð því reynslan og þroskinn hefur kennt manni hvernig á að takast á við lífið. Auðvitað koma bakföll og hindranir í lífinu en maður er betur í stakk búinn að takast á við skrefin sem framundan eru. Tölum nú ekki um alla vitleysuna sem maður hefur gert! Á allri þessari leið að tölunni 42 hef ég gert ótal mistök og vanhugsaða hluti sem ég hef vonandi lært eitthvað af og gera mig vonandi að betri manni.
„Talan hennar Þórunnar ömmu er undir klakanum,“ sagði Gísli við mig í morgun og ætlaði að fara á 80. Þá hugsaði ég um hvað langt er á milli 42 og 80 – í skrefum, árum og reynslu talið. Ég ætla rétt að vona að ég nái upp í 80 og jafnvel lengra og hlakka til reynslunnar, mistakanna og gleðinnar sem ég og allir mínir eigum eftir að njóta á þeirri leið.
Svo vona ég að allir sem hafa ekki lesið bækurnar Fátækt fólk, Baráttan um brauðið og Fyrir sunnan eftir Tryggva Emilsson geri það. Hjá okkur eru skrefin frá 1 upp í 42 barnaleikur miðað við skrefin sem Tryggvi þurfti að taka fyrir svo ótrúlega stuttu síðan.
Svo er spurning hvort maður sé ungur í anda þegar maður velur hrossabjúgu með kartöflumús, grænum baunum, sinnepi og mjólkurglasi í afmælismat? Gísla Kristjáni fannst það töff.