Á miðvikudagskvöldið tók ég við styrk í Minningarsjóð Sigrúnar Mjallar uppá tæpar 140 þúsund krónur. Það voru unglingar í félagsmiðstöðinni Holtinu í Norðlingaholti sem söfnuðu þessum peningum. Það gerðu þau í sérstakri góðgerðar- og útvarpsviku sem var alla síðustu viku í félagsmiðstöðinni. Í tilynningu frá Holtinu segir; „Við ætlum að láta gott af okkur leiða og styrkja Minningarsjóð Sissu. Minningarsjóður Sissu gegnir þeim tilgangi að styðja við bakið á skapandi verkefnum ungmenna sem eru í meðferð á meðferðarheimilum – unglingarnir fá sjálfir hugmyndir að verkefnum, útfæra þau og sækja um peningaframlag. Einnig munum við styrkja Mæðrastyrksnefnd.“
Unglingarnir í Holtinu fengu fullt af hugmyndum; dósasöfnun, fatasöfnun fyrir Mæðrastyrksnefnd, góðgerðarball og góðgerðarbingó og svo úvarpsstöðin Holtó með útsendingar alla vikuna þar sem þau fjölluðu um mörg þörf mál. Meðal annars kom Páll Óskar í viðtal og fleiri góðir gestir.
Langstærstur hluti unglinga á Íslandi í dag er að gera frábæra hluti eins og þau í Holtinu. Ég hélt erindi um Sissu áður en ég tók við styrknum og eftir erindið spurðu krakkarnir margra spurninga og spjölluðu lengi við mig um allt milli himins og jarðar. Ótrúlega flottir unglingar þarna á ferðinni sem eiga vonandi allir eftir að gera góða hluti í framtíðinni.
Ég vil fyrir hönd stjórnar Minningarsjóðs Sigrúnar Mjallar og fjölskyldu hennar þakka unglingunum í félagsmiðstöðinni Holtinu innilega fyrir þennan rausnarlega styrk sem á svo sannarlega eftir að nýtast vel þegar úthlutað verður úr sjóðnum þann 22. desember næstkomandi. Þau afhentu mér einnig skjal með mynd af Sissu og allir höfðu skrifað nafnið sitt á skjalið. Þetta var svo fallegt að það var bara ekki annað hægt en að tárast af gleði yfir þessu frábæra framtaki og fallegu hugsun.
Ég er oft spurður um hvar hægt sé að leggja inn á sjóðinn. Hér eru þær upplýsingar: Minningarsjóður Sigrúnar Mjallar er í vörslu Íslandsbanka á Kirkjusandi. Kennitala sjóðsins er: 550113-1120 Reikningsnúmer: 596-26-2