Veitti fyrstu hjálp í gærkvöldi

Í gærkvöldi keyrði ég fram á bílveltu á Hellisheiðinni. Ég sá bifreiðina fara út í kant í mikilli hálku, uppá snjóruðning þar sem hún fór tvær veltur. Ég stöðvaði bílinn minn, setti hazardljósin á, bað ökumann bílsins fyrir aftan mig sem einnig hafði stöðvað að hringja á lögreglu og hljóp svo að bílnum sem var á hvolfi.

Í bílnum var ung stúlka í miklu losti.  Hún hékk í bílbeltinu og vildi komast út. Ég byrjaði á því að lýsa með símanum inn í bílinn til að athuga hvort fætur hennar væru fastir og spurði hana hvort hún gæti hreyft fæturnar og hendurnar. Bensín var byrjað að leka inn í bílinn. Ég ákvað að losa hana úr bílbeltinu og dró hana út úr bílnum. Hún gat gengið með mér yfir í bíl sem hafði stöðvað og þar var hlúð að henni þar til sjúkrabíllinn kom.  Stúlkan er ekki mikið slösuð og mun vonandi ná sér fullkomlega.

Það var áfall að koma að þessu slysi en það sem skipti mestu máli var að ég hugsaði rökrétt og veitti fyrstu hjálp sem sjúkraflutningamaður sagði að hefði verið rétt. Adrenalínið sem dreifist um líkamann við þessar aðstæður hjálpa manni að takast á við svona hluti.

Þegar ég sá stúlkuna í bílnum hangandi á hvolfi í bílbeltinu hugsaði hvað hún væri heppin. Ef hún hefði ekki verið í bílbelti hefði aðkoman orðið miku verri og hún örugglega alvarlega slösuð.

Þegar ég keyrði í bæinn eftir að hafa kvatt stúlkuna hringdi ég í vin minn og sagði honum hvað hefði gerst. Ég sagði honum líka að ég ætlaði á námskeið í skyndihjálp við fyrsta tækifæri. Ég hugsaði nefnilega um það ef stúlkan hefði verið alvarlega slösuð þá hefði ég ekki haft þá kunnáttu að veita henni fyrstu hjálp. Í þeirri aðstöðu vil ég ekki lenda. Ég vil geta veitt alla þá aðstoð sem nauðsynleg er við aðstæður sem þessar og vita hvað maður er að gera. Það er óbærileg tilhugsun að koma að slysi og vita ekkert hvað á að gera – kannski með þeim afleiðingum að hinn slasaði/veiki látist.

Það er semsagt skyndihjálparnámskeið á dagskrá hjá mér og vini mínum á næstu dögum. Eftir það verður maður betur undir það búinn að hjálpa fólki á slysavettvangi eða fólki sem veikist skyndilega.  Maður veit nefnilega aldrei hvenær maður lendir í slíkum aðstæðum.


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /web/johanneskr/public_html/wp-includes/class-wp-comment-query.php on line 399

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *